Vinnuaðstaða

Doktorsnemum á Hugvísindasviði stendur til boða að sækja um vinnuaðstöðu í Gimli og Veröld. Sólarhringsaðgangur er að húsunum allt árið um kring. Hverju borði fylgir pláss fyrir bækur og aðgangur að prentara, ljósritunarvél og skanna.

Aðstaðan er án endurgjalds en stundum er nokkur biðlisti. Skilyrði er að doktorsnemar séu ávallt skráðir í nám og nýti aðstöðuna vel. Skilyrði er að þeir nemendur sem hafa vinnuaðstöðu hafi þar viðveru í að minnsta kosti 20 tíma á viku.

Ef biðlisti er eftir borðum áskilur Hugvísindastofnun sér rétt til að segja þeim upp aðstöðunni sem hafa lítið nýtt hana með fjögurra vikna fyrirvara og ber þeim þá að rýma borð og skila lyklum.

Við úthlutun er alla jafna farið eftir því hverjir hafa beðið lengst eftir aðstöðu. 

Doktorsnemar skulu rýma borðið eigi síðar en 1. október hafi þeir ekki greitt skráningargjald fyrir námsárið. Nemendum ber að tæma borð sín og hillur þegar doktorsritgerð hefur verið skilað til deildar, en geta fengið skammtímaaðstöðu að nýju ef andmælendur krefjast frekari vinnu við ritgerðina.

Þeim doktorsnemum sem sérstaklega leggja stund á handritarannsóknir býðst einnig að sækja um borð í Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, en þar getur biðlistinn orðið ærið langur. Óheimilt er að hafa fasta aðstöðu á báðum stöðum.

Skylt er að sýna tillitssemi í umgengni þar sem aðstaðan er í opnu rými. Hafi viðkomandi ekki lengur þörf fyrir aðstöðuna ber honum að rýma hana þó að tímabilinu sé ekki lokið og skila lyklum.

Þeir sem þurfa tímabundið ekki að nýta aðstöðuna, til dæmis vegna dvalar erlendis, skulu láta prófast vita ef dvölin er hálfur mánuður eða meira og ganga svo frá borði og hirslum að annar nemandi geti komið sér þar fyrir á meðan. Ef dvölin er 8 mánuðir eða lengri skal segja upp borðinu, rýma það og skila lyklum. Hægt er að sækja um aðstöðu að nýju þegar heim er komið. Fari nemandi lengur en í tvo mánuði án þess að tilkynna það til prófasts jafngildir það uppsögn á aðstöðunni.

Að jafnaði er gert ráð fyrir að hámarkstími sé um fjögur ár en það fer þó eftir því hversu vel aðstaðan er nýtt og hvernig námið sækist.

Í Gimli er Dagbjört Guðmundsdóttir prófastur, þ.e. umsjónarmaður aðstöðunnar fyrir hönd Hugvísindastofnunar, dagu@hi.is, Þeir sem hafa meiri áhuga á plássi í Gimli skulu senda umsóknir skal senda til hennar með afriti til verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar, mgu@hi.is.

Í Veröld er Atli Dungal Sigurðsson prófastur, þ.e. umsjónarmaður aðstöðunnar fyrir hönd Hugvísindastofnunar, ads26@hi.is. Þeir sem hafa meiri áhuga á plássi í Veröld skulu senda umsóknir til hans með afriti til verkefnisstjóra Hugvísindastofnunar, mgu@hi.is.

.

 

Millisafnalán

Deildir innan Hugvísindasviðs standa straum af kostnaði nemanda við millisafnalán. Áður en doktorsnemi getur lagt inn pantanir þarf leiðbeinandi að senda millisafnalánum tölvuskeyti með tilkynningu um að lánin verði borguð af viðkomandi deild.

Ljósritun

Hugvísindasvið tryggir aðgang doktorsnema að ljósritunarvél í Nýja Garði og í Gimli. Til að geta ljósritað í Nýja Garði verður doktorsnemi að hafa samband við skrifstofu sviðsins til að fá lykilorð fyrir ljósritunarvélina.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is