Umhverfismál á nýrri öld

Föstudagur 25. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 52 í Aðalbyggingu Háskólans

Í málstofunni verður fjallað um umhverfismál og umhverfispólitík á Íslandi frá sjónarhorni nokkurra ólíkra húmanískra fræðigreina. Megináhersla málstofunnar er á stöðu umhverfismála hérlendis í dag, svo og á þróun þeirra á allra næstu árum. Einnig verður fjallað sérstaklega um nokkra málaflokka, einkum þá hnattrænar loftslagsbreytingar, dýravernd, virkjanadeilur og landslagsvernd.

Málstofustjóri: Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Menntavísindasvið

 

Fyrirlesarar:

  • Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Dómsdagsklukkan tifar: Upplýsing og afneitun í ljósi loftslagsvísinda
  • Unnur Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur, verkefnisstjóri á Þjóðskjalasafni Íslands: Visthverfing hugarfarsins? Um umræðu um náttúruvernd og umhverfismál á Íslandi 2007-2011
  • Helga Ögmundardóttir, mannfræðingur og stundakennari: Fjallferðir, afréttir og umhverfismenning

Kaffihlé

  • Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki: Athygli, náttúra og verðmæti
  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Landslag – þar sem maður og náttúra mætast?
  • Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Landslag, fegurð og fagurfræði

 

Útdrættir:

 

Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði
Dómsdagsklukkan tifar: Upplýsing og afneitun í ljósi loftslagsvísinda

Í fyrirlestrinum fjallar Guðni Elísson um það hvers vegna almenningur á Vesturlöndum bregst ekki við af meiri festu, þegar hrakspár um loftslagsbreytingar varða jafnvel framtíð mannsins á jörðinni? Í afneitunarferlinu má iðulega greina afstöðu sem skilgreind hefur verið sem „harmleikur almenningsins“ (e. tragedy of the commons). Þá endurtaka svo margir sama hegðunarmynstur sem þjónar skammtíma­hagsmunum einstaklingsins hverju sinni, en ekki heildarhagsmunum, að niðurstaðan verður hörmuleg fyrir alla heildina. Loftslagsafneitunin tekur á sig ýmsar myndir sem allar snúast um að seinka því að takast á við vandann og fresta sársaukafullum aðhaldsaðgerðum. Réttlætingarnar sem settar eru fram má flokka á ýmsa vegu og eru oft svo margbrotnar að ógjörningur er að skilgreina þær á einfaldan hátt. Hér verða nokkrar þeirra raktar og tengsl þeirra við hagvaxtarkröfuna dregnar fram, en það flækir auðvitað málin ef ekki er hægt að breyta atferli almennings með fræðslu. Að sama skapi veikist forvarnargildi spálíkana ef hagvaxtarkrafa Vesturlandabúa er tengd djúpstæðri fíkn og ávanabindingu.

 

Unnur Birna Karlsdóttir, sagnfræðingur, verkefnisstjóri á Þjóðskjalasafni Íslands
Visthverfing hugarfarsins? Um umræðu um náttúruvernd og umhverfismál á Íslandi 2007-2011

Íslendingar deildu hart um náttúru- og umhverfismál um síðustu aldamót og fyrstu ár 21. aldar einkenndust áfram af djúpum ágreiningi um þau mál. Á meðan vatn safnaðist í Hálslón fyrir Kárahnjúkavirkjun, nánar tiltekið eftir kosningar vorið 2007, voru gefin pólitísk fyrirheit um að losa ætti þjóðina úr neti átaka nýtingarstefnu og náttúruverndar. Sumir vonuðu þess vegna að ráðrúm gæfist til að móta umhverfisvænni stefnu um sambúð lands og þjóðar en áður hefði átt upp á pallborðið. Umræða síðustu ára hefur hins vegar leitt tvennt í ljós: Í fyrsta lagi er deilum um landtöku í þágu orkuöflunar langt frá því að vera lokið. Í öðru lagi sýna viðbrögðin við nýju frumvarpi til laga um náttúruvernd að ágreiningur um með hvaða hætti landsmenn umgangast náttúru landsins snýr ekki aðeins að viðhorfum til virkjana heldur að mun fleiri þáttum í sambúð lands og þjóðar. Spurningin sem velt verður upp í fyrirlestrinum er hvort nýjar áherslur hafi rutt sér til rúms í íslenskri náttúrusýn nú í upphafi nýrrar aldar að því marki að tala megi um tímamót. Eru blikur á lofti eða situr þjóðin í upphafi nýrrar aldar föst í þrátefli þeirrar síðustu?

 

Helga Ögmundardóttir, mannfræðingur og stundakennari
Fjallferðir, afréttir og umhverfismenning

Deilan um Þjórsárver og Norðlingaölduveitu hefur staðið í meira en fjóra áratugi og þótt nú hafi orðið hlé er henni ekki lokið. Á henni eru ýmis sjónarhorn og mun hér fjallað um eitt þeirra, þ.e. sjónarhorn staðarsamfélagsins; sveitarinnar, sem á sér félagslegar og menningarlegar hliðstæður um allan heim, t.d. meðal hinna ýmsu frumbyggjasamfélaga. Menning hvers svæðis er einstök og mikilvægi þess að hlúa að slíkum menningarkimum eykst með alheimsvæðingu hugmynda, tækni og viðskipta.

Í erindinu verður kannað hvernig sauðfjár- og afréttarmenning Gnúpverjahrepps hefur mótað afstöðuna til afréttarins sem Þjórsárver heyra til og umgengnina við hann og hvernig þessi staðbundni menningarkimi kallast á við umhverfismálavettvang heimsins. Sauðfjármenning hreppsins er í brennidepli, sett í umgjörð virkjana­menningar þjóðríkisins, harðnandi umhverfisverndarbaráttu á heimsvísu og heimsvæðingar hugmynda um réttindi frumbyggja, staðarmenningar og náttúru.

 

Jón Ásgeir Kalmansson, doktorsnemi í heimspeki
Athygli, náttúra og verðmæti

Algengt er að siðfræðilegar umræður um náttúruna fjalli um spurningar á borð við þá hvaða eiginleika fyrirbæri þurfi að hafa til að hafa eigið gildi eða siðferðilega stöðu. Skynsemi, skynhæfni og meðvitund eru dæmi um þá almennu eiginleika sem nefndir eru til sögunnar í þessu sambandi og sýnist sitt hverjum um það hver þeirra sé grundvöllur þegnréttar í siðferðilegu samfélagi. Í fyrirlestrinum verða færð fyrir því rök að athyglishugtakið geti varpað gagnlegu ljósi á slíkar umræður. Í stuttu máli verður því haldið fram að siðfræði af þessu tagi missi marks, að minnsta kosti ef það er ekki viðurkennt að hve miklu leyti siðferðislífið er fólgið í þeirri tegund athygli sem fólk veitir hlutunum.

 

Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði
Landslag – þar sem maður og náttúra mætast?

Landslag er eitt af lykilhugtökum náttúruverndar og því hefur, a.m.k. til skamms tíma, verið undarlega hljótt um það bæði í almennri og fræðilegri umræðu á Íslandi. Verndun landslags sem slíks hefur jafnframt mjög takmarkaða lagastoð hérlendis. Átök um landslag á einstökum svæðum hafa víða verið mjög sýnileg á Íslandi, ekki síst í virkjanadeilum. Undir niðri blundar síðan margvíslegur en mun minna áberandi ágreiningur um grunnskilning manna á landslagi og mikilvægi þess, hvort heldur fyrir náttúru eða mannlíf. Þessi ágreiningur hefur sett mark sitt á fræðaheiminn ekki síður en á hagsmunatengdan eða pólitískan ágreining um landslag. Í erindinu verður fjallað um ofangreind átök á Íslandi í ljósi Evrópska landslagssáttmálans og þeirri spurningu varpað fram hvort hann geti orðið grunnur að sameiginlegum, þverfræðilegum kenningaheimi um íslenskt landslag.

 

Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, doktorsnemi í heimspeki
Landslag, fegurð og fagurfræði

Landslagshugtakið hefur verið túlkað á marga mismunandi vegu í gegnum tíðina, en hversdagslegur skilningur á hugtakinu bæði á íslensku og ensku gefur til kynna sterk tengsl þess við fegurðarhugtakið og hið fagurfræðilega. Til þess að skilja merkingu landslags er því nauðsynlegt að byrja á því að kryfja fegurðarhugtakið og það hvernig skilningur á því hvað er fagurfræðilegt grundvallast á fegurðarhugtakinu. Hin hefðbundna hugmynd um fegurð gerir ráð fyrir að upplifun af fegurð sé hagsmunalaus

(e. disinterested) og fjarlæg reynsla vitundar af aðskildu viðfangi. Þessi hugmynd leiðir til ákveðinnar tvíhyggju um fegurð, hið fagurfræðilega og landslag, þar sem fegurð er rakin annaðhvort til hlutbundinna eiginleika viðfangsins eða til huglægrar reynslu vitundarinnar. Hér verður fjallað um fyrirbærafræðilegar túlkanir á fegurðarhugtakinu og landslagshugtakinu þar sem gert er ráð fyrir að fagurfræðileg merking og gildi landslags sé hvorki bundin einungis við hlutbundna eiginleika viðfangsins eða huglæga reynslu vitundarinnar heldur verði merkingin til handan huglægni og hlutlægni, í tengslum á milli vitundar og viðfangs.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is