Um Jobsbók

Laugardagur 26. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskólans

Jobsbók Gamla testamentisins, bókin um þjáningu hins vammlausa manns, telst til sígildra rita heimsbókmenntanna. Stöðugt er vitnað til hennar, ekki bara í biblíufræðum heldur í flestum greinum guðfræðinnar, þ.m.t. sálgæslufræði. Áhrifasaga Jobsbókar í menningu og listum er einnig mjög mikil og fróðleg. Í þessari málstofu verður fjallað um ýmsa þætti Jobsbókar, bæði af sjónarhóli Gamla testamentisins og síðari tíma túlkunar- og áhrifasögu.

Málstofustjóri: Bjarni Randver Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði

 

Fyrirlesarar:

  • Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins: „Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu.“ Jobsbók og Sálmur 73
  • Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði: Dauðinn í Jobsbók. Hugmyndir Jobsbókar um dauðann og dauðraríkið í samhengi annarra texta Gamla testamentisins
  • Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla og stundakennari við HÍ: Merking og markmið Jobsbókar

Kaffihlé

  • Ninna Sif Svavarsdóttir, doktorsnemi í guðfræði: Eiginkona Jobs
  • Sigfinnur Þorleifsson, lektor í guðfræði og sjúkrahúsprestur: Jobsbók og sálgæslan
  • Stefán Einar Stefánsson, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags og stundakennari: Vetrarferðin

 

Útdrættir:

 

Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor í guðfræði og ritskýringu Gamla testamentisins 
„Til einskis hef ég haldið hjarta mínu hreinu.“ Jobsbók og Sálmur 73

73. sálmur Saltarans sýnir ýmiss konar skyldleika við Jobsbók sem girnilegt er að gaumgæfa. Jobsbók fjallar um þjáningu hins réttláta manns, 73. sálmurinn fjallar um „velgengni hinna guðlausu“ (v. 3). Í báðum tilfellum er verið að bregðast við hefðbundinni kenningu spekistefnunnar, endurgjaldskenningunni, um að menn uppskeri eins og þeir sái. Job deilir um efnið við vini sína. Höfundur 73. sálms bregst við hliðstæðum staðhæfingum úr 1. sálmi. Í erindinu verður 73. sálmur borinn saman við Jobsbók.

 

Jón Ásgeir Sigurvinsson, doktorsnemi í guðfræði
Dauðinn í Jobsbók. Hugmyndir Jobsbókar um dauðann og dauðraríkið í samhengi annarra texta Gamla testamentisins

Í Jobsbók takast hinn helsjúki Job og vinir hans þrír á um réttmæti þjáningar Jobs sem heldur fram sakleysi sínu og flekklausu líferni. Vinirnir eru hins vegar fulltrúar fyrir hugmyndina um makleg málagjöld og leggja að Job að gangast við syndum sínum. Orð beggja aðila um dauðann eru oft samhljóma og bera vitni um hugmyndir manna í Ísrael til forna um tengsl syndar og dauða sem finna endurhljóm víða annars staðar í Gamla testamentinu. Í erindinu verður fjallað um þessar hugmyndir, sem og hugmyndir manna almennt um dauðann og tilveruna eftir dauðann eins og þær birtast í Jobsbók og öðrum textum Gamla testamentisins.

 

Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla og stundakennari við HÍ
Merking og markmið Jobsbókar

Í erindi þessu verður fjallað um ólíkar bókmenntagreinar í Jobsbók Gamla testamentisins. Uppbygging bókarinnar verður skoðuð út frá niðurröðun efnisins, einkum sambandi frásagnarhlutans og ljóðanna. Leitast verður við að svara eftirtöldum spurningum: Voru þetta upphaflega tveir óháðir textar eða var bókin skrifuð út frá sjónarmiði margræðni? Ef tveimur ólíkum textum var skeytt saman hvert er þá eiginlegt markmið bókarinnar sem heildar?

 

Ninna Sif Svavarsdóttir, doktorsnemi í guðfræði
Eiginkona Jobs

Í þessu erindi er ætlunin að beina athyglinni að eiginkonu Jobs, sem gjarnan er nefnd Dína eða Rahmat í midrash-hefð gyðinga. Hún hefur ekki mikið rými í frásögninni af eiginmanni sínum, þótt örlög þeirra séu vissulega samtvinnuð, heldur talar hún aðeins einu sinni. Orð hennar eru þó allrar athygli verð, enda meitluð mjög. Í erindinu verður fjallað um hlutverk eiginkonu Jobs í frásögninni og merkingu orða hennar, enda túlkunarmöguleikar ýmsir. Jafnframt verður gaumur gefinn að túlkunum á henni í síðari tíma heimildum.

 

Sigfinnur Þorleifsson, lektor í guðfræði og sjúkrahúsprestur
Jobsbók og sálgæslan

Jobsbók er dýrmæt heimild um flest þau meginviðfangsefni sem sálgæslan fæst við. Þar takast á kenningin og reynslan, innri baráttan og almenna viðhorfið. Sálusorgarararnir, vinir Jobs, meta tileinkun fræðanna meira en mannskilninginn, svörin eru sett ofar spurningunum, skjólgarðurinn um Guð er reistur á kostnað mannsins sem þjáist. Job biður um skilning fremur en skýringar og það ákall er sístætt. Sálgæslan reiðir ekki fram á silfurfati svör við erfiðustu spurningum sem upp koma í merkingarleit manneskjunnar. Hún leitast hins vegar við að hjálpa þeim sem leita og spyrja að dýpka sín eigin svör og skilning.

 

Stefán Einar Stefánsson, framkvæmdastjóri Hins íslenska biblíufélags og stundakennari
Vetrarferðin

Ólafur Gunnarsson rithöfundur hefur sent frá sér margar bækur sem fjalla um tilvistarspurningar mannsins. Vetrarferðin er ein þriggja bóka í þríleik hans þar sem hann tekur sérstaklega á trúarlegum stefjum. Hefur höfundurinn viðurkennt að Vetrarferðin sé hans „útgáfa“ af Jobsbók. Þar virðist höfundurinn setjast niður við það verkefni að færa tilvistarspurningar Jobs í samhengi íslenskrar konu sem lifir örlagatíma um miðbik síðustu aldar. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessi tengsl og helstu birtingarmyndir þeirra. Sérstaklega verður sjónum beint að meðferð Ólafs á hugmyndinni um sekt og syndleysi. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is