Þýðing bernskunnar

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 11.00-14.00.

Í málstofunni verður fjallað um þýðingar á barnabókum á íslensku. Þýðingar á barnabókum skera sig úr hópi annarra þýðinga í því að þær einkennast oft af meiri og minni breytingum þýðenda á frumtextanum. Þessar breytingar geta verið fagurfræðilegar en líka hugmyndafræðilegar og siðfræðilegar. Þær eiga rót sína að rekja til þess að meðvitað eða ómeðvitað lita hugmyndir þýðandans um börn og bernsku þýðingu hans og hún verður því „þýðing bernskunnar“ í orðsins fyllstu merkingu.  Þýðingar fyrir börn er sérstök undirgrein þýðingafræða en lítið hefur verið skrifað um þær hérlendis.  Þátttakendur í málstofunni tengjast efninu á mismunandi hátt: Aleksandra Maria Cieslinska skrifar nú doktorsritgerð um þetta efni, þýðingar koma líka við sögu í ritgerð Helgu Birgisdóttur og komu við sögu í doktorsritgerð Olgu Holowniu, Anna Heiða Pálsdóttir er reyndur unglingabókaþýðandi og Dagný Kristjánsdóttir hefur skrifað um efnið.

Fyrirlesarar:

  • Dagný Kristjánsdóttir prófessor: Þorbjörn frá Djúpalæk. Þýðingar á Thorbjørn Egner á íslensku
  • Helga Birgisdóttir doktorsnemi: Nonni flakkar um heiminn: Þýðingar Nonnabókanna

Hádegishlé

  • Anna Heiða Pálsdóttir stundakennari: Aflarar, gallívespar og sígyptar: fantasíuhugtök Philip Pullmans yfirfærð í íslenskan raunveruleika
  • Aleksandra Maria Cieslinska doktorsnemi: Að þýða stúlku. Kyngervi og ímyndir í íslenskum þýðingum stúlknabóka úr þýsku

Málstofustjóri: Arndís Þórarinsdóttir, formaður IBBY á Íslandi

 

Útdrættir:

Dagný Kristjánsdóttir: Þorbjörn frá Djúpalæk. Þýðingar á Thorbjørn Egner á íslensku

Norski barnabóka- og leikritahöfundurinn Thorbjørn Egner hefur verið svo vinsæll á Íslandi að íslensk börn hafa lært söngvana úr leikritum hans og neitað að trúa öðru en að hann væri íslenskur. En þessir vinsælu textar eru komnir til barna og fullorðinna í þýðingum Kristjáns frá Djúpalæk (1916-1994) sem þýddi söngvana snemma á sjöunda áratugnum þegar Þjóðleikhúsið færði upp Kardimommubæinn(1959-60) og Dýrin í Hálsaskógi (1960-61). Helga Valtýsdóttir þýddi leiktextann.  

Kristján frá Djúpalæk á margt sameiginlegt með danska þýðandanum, ljóðskáldinu Halfdan Rasmussen, en ýmislegt skilur líka á milli þeirra og þýðinganna á hinum einföldu, léttu og leikandi textum Egners. Mismunandi þýðingarnar segja mikið um viðhorf þessara landa til barna og barnamenningar í viðkomandi löndum. Um það verður fjallað með dæmum í fyrirlestrinum.  

Helga Birgisdóttir: Nonni flakkar um heiminn: Þýðingar Nonnabókanna

Nonnabækur Jóns Sveinssonar (1857-1944), alls 12 talsins, komu út á árunum 1913-1945 og hafa selst í nokkur milljón eintökum og verið þýddar á tugi tungumála. Engin Nonnabókanna var skrifuð á íslensku. Bækurnar komu fyrst út á þýsku og sumar sögurnar voru, að hluta eða í heild, upphaflega skrifaðar á dönsku eða frönsku og birtust í kaþólskum barnablöðum í Evrópu áður en þær voru þýddar eða umskrifaðar á þýsku.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um flakk Nonnabókanna á milli landa, menningarheima og tungumála. Sjónum verður beint að kaþólskum þemum í bókunum og það hvaða atriði tengd kaþólskri trú týndust í þýðingum og hverju var bætt við í staðinn.

Anna Heiða Pálsdóttir

Jafnvel þótt fantasíur fari út fyrir mörk raunveruleikans eins og við þekkjum hann, er yfirleitt í breskum fantasíum að finna ótal tilvísanir til sögu, landslags og menningar höfundarins. Þekkt dæmi eru meðal annars Miðgarður Tolkiens, sem vísar til bresks landslags og breskra táknmynda, og Harry Potter sem byggir á hefðum bresku heimavistarskólanna. Á frummálinu er stundum hægt að sjá hvaða stétt persónur tilheyra vegna málfars þeirra, jafnvel þótt þær tilheyri öðrum heimi en okkar. Höfundar leika sér oft að orðum: þeir mynda ný orð sem vísa til þekktra hluta í reynsluheimi Breta.

Þýðandi fantasíubókmennta stendur frammi fyrir mörgum ákvörðunum þegar um mismunandi málfar vegna stéttar og uppruna eða frumsamin hugtök er að ræða. Tilvísunin þarf að skila sér til hins íslenska lesanda, hún þarf að „ganga upp.“ Í þessum fyrirlestri er fjallað um nokkur ögrandi atriði sem fyrirlesari þurfti að leysa í þýðingu Myrkraefnaþríleiksins eftir Philip Pullman: Gyllta áttavitans (2000),Lúmska hnífsins (2001) og Skuggasjónaukans (2002).

Aleksandra Maria Cieslinska: Að þýða stúlku

Markmið erindisins er að kynna hluta af doktorsverkefni Að þýða stúlku. Kyngervi og ímyndir í íslenskum þýðingum stúlknabóka úr þýsku sem varpar ljósi á þýðingar barnabókmennta, með sérstakri áherslu á þýðingar stúlknabóka úr þýsku yfir á íslensku. Í erindinu verður fjallað um þýðingu á Das doppelte Lottchen eftir Erich Kästner. Aðallega verður skoðað hvernig kynjafyrirmyndir frumtextans eru lagaðar að íslenskum lesendum en breytingar á þýðingatextum eru eitt af einkennum á þýðingum barnabóka. Þær breytingar sem þýðandinn Freysteinn Gunnarsson gerði á frumtextanum eru kannaðar og hvaða áhrif þær hafa á ímynd aðalpersónanna og þá hugmyndafræði sem þýðingarnar endurspegla. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is