Þræðir þýðinga: Ívaf eða uppistaða?

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 15.00-17.00.

Með breyttum áherslum í rannsóknum undanfarinna ára hefur þýðingarhugtakið verið víkkað út og farið er að nota það um menningarlega yfirfærslu í almennari skilningi. Í málstofunni verður rætt um norrænan bókmennta- og hugmyndaheim á miðöldum út frá þessu víða þýðingarhugtaki. Að hve miklu leyti er íslensk miðaldamenning „þýdd“ úr latínu og latneskum hugsunarmótum? Eru þýðingar úr latínu dæmi um erlend áhrif sem aðlagast íslenskum veruleika eða er íslenskur veruleiki þýddur yfir í hinn latneska heim og lagaður að viðteknum menningarlegum formgerðum hans? Þá verður einnig vikið að hugtakinu endurþýðing í ljósi síðari þýðinga á íslenskum fornbókmenntum.

Fyrirlesarar:

  • Ásdís Egilsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild: Eru íslenskar játarasögur þýðingar?
  • Hjalti Snær Ægisson, doktorsnemi hjá Miðaldastofu: Vísra manna framsagnir: Disciplina clericalis á íslensku.
  • Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild: Hugtök í Hómilíubók.
  • Helga Kress, prófessor emeritus við Íslensku- og menningardeild: Þýðing Hallgerðar

Málstofustjóri: Gunnvör Karlsdóttir doktorsnemi

 

Útdrættir:

Ásdís Egilsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild: Eru íslenskar játarasögur þýðingar?

Miðaldaþýðingar eru með ýmsum hætti, frá því að vera orðréttar til frjálslegra endurritana. Íslenskar játarasögur hafa verið fyrst ritaðar á latínu og síðan snúið á norrænt mál og í þeim skilningi eru þær þýðingar. Rætt verður um hvernig þýdd verk, aðrar dýrlingasögur og Biblían hafa mótað íslenskar játarasögur og loks hvernig þær geta talist þýðingar á hefðmótað tungumál helgisagna.

 

Hjalti Snær Ægisson, doktorsnemi við Miðaldastofu: „Vísra manna framsagnir: Disciplina clericalis á íslensku“

Í fyrirlestrinum verður fjallað um latneska sagnasafnið Disciplina clericalis og rýnt í þær sögur sem varðveittar eru úr því í íslenskri þýðingu. Rætt verður um hugtakanotkun og stíleinkenni íslenska textans og hann borinn saman við latneska frumtextann. Niðurstöðurnar verða túlkaðar í því skyni að leggja mat á kenningar um uppruna þýðingarinnar, en síðustu árin hefur það verið viðtekin skoðun að Disciplina clericalis hafi upphaflega verið til í tveimur sjálfstæðum þýðingum.

 

Gunnar Harðarson, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild: Hugtök í hómilíubók

Í þessu erindi verður rætt um sambandið á milli orðs, hugtaks og hugtakakerfis. Ein forsendan er sú að hugtak standi aldrei eitt og sér án tengsla við önnur hugtök heldur sé hluti af klasa tveggja eða fleiri hugtaka sem mynda innbyrðis samstætt hugtakakerfi. Hvernig er íslenskum eða norrænum orðum beitt til að þýða latnesk hugtök og hvernig breytist merking þeirra við það að verða hluti af framandi hugtakakerfi? Dæmi verða tekin úr Íslenskri hómilíubók og skyldum textum.

 

Helga Kress, prófessor emeritus: Þýðing Hallgerðar

Fjallað verður um þýðingar á Njálu (á ensku, þýsku og skandinavísku málunum) út frá hugtakinu „retranslation“, eða endurþýðing, með sérstöku tilliti til kvenlýsinga sögunnar, einkum lýsingarinnar á Hallgerði. Sýnd verða dæmi um tengsl þýðinganna (hárið, hornkerlingin, taðskegglingarnir) og hvernig þær nýrri reyna að forðast þær eldri um leið og þær nýta sér þær, en það fer aftur oft eftir viðhorfi þýðenda til efnisins sem og kunnáttu þeirra í frummálinu og skilningi á bókmenntalegum texta.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is