Synd og sekt — skinhelgi og skömm? Trúar- og siðferðisboðskapur í menningu og bókmenntum

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 13.00-14.30.

Í hinni miklu samfélagsumræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um kynferðislegt ofbeldi hefur hugtökin skömm og sekt oft borið á góma. Í fyrsta erindinu verður fjallað um hvaða siðferðilega upplifun býr að baki skammartilfinningunni og hver munurinn sé á sekt og skömm.  Í öðru erindinu er því haldið fram að til þess að syndarhugtakið geti gegnt sínu upphaflega hlutverki sem tengslahugtak innan kristinnar trúarhefðar þurfi að endurheimta það úr viðjum „móralismans“. Í síðasta erindinu verður fjallað um kirkjugagnrýni í verkum Þorgils gjallanda (Jóns Stefánssonar 1851–1915). Einkum verður byggt að sögunum í fyrstu bók Þorgils, Ofan úr sveitum (1892). Dregið verður fram hvernig ásökun um skinhelgi — ekki síst presta — er grunntónn í gagnrýni Þorgils á kirkjunni. Í skjóli skinhelginnar þrífst svo skömm sem Þorgils berst einnig gegn í sögunum.

Fyrirlesarar:

  • Sólveig Anna Bóasdóttir dósent: Sekt og skömm. Innihaldsleg skoðun og samanburður tveggja  siðferðilegra tilfinninga
  • Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor: Hvað varð um syndina? Um uppruna og þróun syndahugtaksins í kristinni trúarhefð
  • Hjalti Hugason prófessor: Skinhelgi og skömm í verkum Þorgils  gjallanda

Málstofustjóri: María Ágústsdóttir doktorsnemi

 

Útdrættir:

Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent: Sekt og skömm. Innihaldsleg skoðun og samanburður tveggja siðferðilegra tilfinninga

Í skrifum meðferðaraðila sem sinna þolendum kynferðislegs ofbeldis koma hugtökin sekt og skömm iðulega fyrir þegar vísað er til siðferðilegra tilfinninga þolenda. Algengt er að ekki sé greint skýrt á milli þeirra og oft birtist það viðhorf að skömm sé frumstæð tilfinning en sektartilfinningin þróaðri. Í erindinu verður fjallað um merkingu þessara siðferðilegu tilfinninga út frá túlkun heimspekingsins Bernard Williams (1924-2003) sem rannsakað hefur grískan bókmenntarf og þann skilning sem birtist þar á sekt og skömm.

 

Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor: Hvað varð um syndina? Um uppruna og þróun syndahugtaksins í kristinni trúarhefð

Upphaf femínískrar guðfræði er gjarnan rakið til greinar Valerie Saivings sem kom fyrst út á prenti árið 1960 og fjallaði um karllæga merkingu syndahugtaksins í kristinni trúarhefð. Í greininni færir Saivings rök fyrir því að hefðbundin túlkun syndarinnar sem hroka byggist fyrst og fremst á reynslu karla, á meðan synd kvenna felist mun frekar í lágu sjálfsmati og tilhneigingu til þess að fórna sér fyrir aðra. Þar sem synd kvenna engu síður en synd karla gerir lítið úr vilja Guðs, sem hefur skapað bæði konur og karla í sinni mynd og kallað þau til hlýðni við sig, er það niðurstaða Saivings að mikilvægt sé að taka tillit til reynslu beggja kynja við guðfræðilega túlkun hins synduga veruleika manneskjunnar.

Syndahugtakið tilheyrir kjarnahugtökum kristinnar trúarhefðar og er oft rakið til frásögunnar af Adam og Evu í 3. kafla 1. Mósebókar. Hugtakið hefur gjarnan verið notað í „móralískum“ tilgangi, sem hefur komið í veg fyrir að það geti gegnt sínu upphaflega hlutverki sem tengslahugtak, sem túlkar tengsl okkar við Guð, náungann og náttúruna. Mikilvægt er að endurskoða merkingu syndahugtaksins með tilliti til upprunalegrar merkingar, en einnig í ljósi þess sögulega samhengis sem við tilheyrum, þar með talið reynslu beggja kynja.

 

Hjalti Hugason prófessor: Skinhelgi og skömm í verkum Þorgils gjallanda

Fjallað verður um kirkjugagnrýni í verkum Þorgils gjallanda (Jóns Stefánssonar 1851–1915). Einkum verður byggt á sögunum í fyrstu bók Þorgils, Ofan úr sveitum(1892). Dregið verður fram hvernig ásökun um skynhelgi — ekki síst presta — er grunntónn í gagnrýni Þorgils á kirkjuna. Í skjóli skynhelginnar þrífst svo skömm sem Þorgils berst einnig gegn í sögunum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is