Stuðlar og staðtölur

Föstudagur 25. mars kl. 13.00-16.30 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskólans

Fjallað verður um bragfræði frá ýmsum hliðum og einnig verður rýnt í nýjan gagnagrunn sem verið er að vinna og ætlað er að geyma eddukvæði og dróttkvæði ásamt bragfræði­legum og málfræðilegum upplýsingum.

Málstofustjóri: Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands

 

Fyrirlesarar:

  • Þórhallur Eyþórsson, málfræðingur: „Höfuð höggva ek mun þér hálsi af“. Samspil bragfræði og málfræði í eddukvæðum
  • Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði: Um flokkun línugerða í eddukvæðum
  • Eiríkur Kristjánsson, fornfræðingur: Formúlur í norrænum kveðskap?

Kaffihlé

  • Haukur Þorgeirsson, doktorsnemi: Forliður í fornyrðislagi?
  • Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands: Rýnt í stuðlun með sérhljóðum
  • Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum: Greinarmerkjasetning í handritum

 

Útdrættir:

Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun
„Höfuð höggva ek mun þér hálsi af“. Samspil bragfræði og málfræði í eddukvæðum

Undanfarin ár hefur hópur innlendra og erlendra fræðimanna unnið að viðamikilli rannsókn á samspili bragkerfis, hljóðkerfis og setningagerðar í kveðskapartextum, einkum í eddukvæðum og dróttkvæðum en líka í kveðskap frá seinni öldum, m.a. rímum. Rannsóknin er komin vel á veg og mikilvæg afurð hennar er tölvutækur gagnagrunur, Greinir skáldskapar, sem hefur að geyma bragfræðilega og málfræðilega greinda texta. Í þessu erindi verður sýnt með völdum dæmum hvernig unnt er að nota grunninn til að kalla fram samþættar upplýsingar um bragfræðileg og málfræðileg atriði í kveðskapnum.

Kristján Árnason, prófessor í íslenskri málfræði
Um flokkun línugerða í eddukvæðum

Alþekkt er flokkun Eduards Sievers á eddulínum og öðrum forngermönskum línum í fimm grunngerðir. Þótt þessi kenning hafi lengi notið almennrar hylli, mætti hún snemma gagnrýni manna eins og Andreasar Heuslers, sem taldi að hún lýsti að vísu textanum, en útskýrði lítt eðli formsins. Ég hef sjálfur ýjað að því að líta á langlínu í eddukveðskap sem einfalda fjögurra risa línu sem telja orð (ólíkt því að atkvæði eru talin t.d. í rímnaháttum). Ég hyggst fylgja þessari hugmynd eftir í erindi mínu og kanna með dæmum muninn á skýringargildi og „spádómum“ hinna ólíku greiningaraðferða. Hvað er það sem Sievers-greiningin getur skýrt en hrynkenningin ekki, og hvað skýrir hrynkenningin sem Sievers-kenningingin getur ekki skýrt?

Eiríkur Kristjánsson, fornfræðingur
Formúlur í norrænum kveðskap?

Formúlur hafa verið snar þáttur í rannsóknum og skilningi á Hómerskviðum frá því Milman Parry umbylti þeim fræðum á fyrri hluta tuttugustu aldar. Þótt formúlur komi ekki fyrir í norrænum kveðskap er hugsanlegt að hægt sé að varpa ljósi á eðli skáldamálsins með hugtökum og aðferðum fengnum að láni frá Hómersfræðum. Í þessum fyrirlestri verður lítið skref stigið í þá átt með því að skoða notkun og dreifingu á fáeinum orðum (sérstaklega hliðarmyndum eins og héðra, þaðra og þvísa) í Eddukvæðum, dróttkvæðum og rímum.

Haukur Þorgeirsson, doktorsnemi
Forliður í fornyrðislagi?

Fjallað verður um vísuorð sem virðast hafa forlið í Eddukvæðum undir fornyrðislagi, þ.e.a.s. vísuorð sem líkjast venjulegum vísuorðum en hafa að auki áherslulausa upphafsbragstöðu. Nýleg kenning Seiichis Suzuki um að þetta fyrirbæri sé „reglubundið og hluti af bragkerfinu“ verður skoðuð á gagnrýninn hátt og borin saman við eldri viðhorf. Forliður er ótvírætt hluti af íslenska bragkerfinu um miðja 14. öld og verður notkun hans í elstu rímum borin saman við notkunina í kvæðum undir fornum bragarháttum.

Ragnar Ingi Aðalsteinsson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands
Rýnt í stuðlun með sérhljóðum

Í stuðlasetningarreglum, gömlum sem nýjum, er hefð fyrir því að allir sérhljóðar myndi einn jafngildisflokk. Þessi staðreynd hefur valdið töluverðum heilabrotum meðal fræðimanna. Deilt hefur verið um ástæður þess að sérhljóðarnir geti stuðlað hver við annan og hafa verið settar fram fjórar kenningar þar að lútandi. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar kenningar og þær skýrðar í örstuttu máli og eftir það verður skoðuð rannsókn sem gerð var á stuðlasetningu í íslenskum kveðskap (Ragnar Ingi Aðalsteinsson 2010) og kenningarnar bornar saman við niðurstöður úr rannsókninni. Þá verður skoðað hve oft er stuðlað með sömu sérhljóðum og þær tölur bornar saman við aðrar niðurstöður úr gagnasafninu; einnig verður litið til þess hvaða sérhljóðar koma oftast fyrir í stuðluninni.

Guðrún Nordal, prófessor og forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum
Greinarmerkjasetning í handritum

Í erindinu verður rætt um greinamerkjasetningu í handritum og þá sérstaklega í uppskriftum dróttkveðinna vísna. Skoðað verður hvort punktar geti verið einhvers konar hrynmerki, og þá gefið vísbendingu um hvernig kvæðin voru flutt. Tekin verða dæmi úr Guðmundar sögum og Sturlungu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is