Sögulega skáldsagan

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 15.00-16.30.

Mikil gróska er í útgáfu sögulegu skáldsögunnar um þessar mundir, og vinsældir hennar hafa aukist gríðarlega undanfarna áratugi. Sem dæmi þá hefur breska skáldkonan Hilary Mantel unnið til tveggja Booker-verðlauna fyrir fyrstu tvær sögur sínar um Thomas Cromwell og var að vinna Costa-verðlaunin fyrir þá seinni. Markaðurinn er fullur af sögulegum skáldsögum af mismunandi gerðum, hvort sem um er að ræða ástarsögur, stjórnmálasögur, kvennasögur, ævintýrasögur, hetjusögur, framhaldssögur eða svokallaðar hábókmenntir. Á Íslandi koma margar sögulegar skáldsögur út árlega og má þar nefna bækur eftir Einar Kárason, Vilborgu Davíðsdóttur og Kristínu Steinsdóttur sem komu út fyrir síðustu jól. Í þessari málstofu verður fjallað um sögulegu skáldsöguna í bæði víðu og þröngu samhengi og meðal annars skoðað á hvaða hátt sögulega skáldsagan nálgast atburði fortíðarinnar svo sem stríð, uppþot og samfélagsbyltingar.

Fyrirlesarar:

  • Daisy Neijmann stundakennari: Litið til baka: birtingarmyndir stríðs í sögulegum skáldskap
  • Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í breskum bókmenntum: Er þetta ekki alltaf sama sagan? Um vinsældir Túdoranna í sögulegum skáldskap
  • Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: „Segðu mér söguna aftur“: Rannsóknarhlutverk sögulegu skáldsögunnar í Rómönsku Ameríku

Málstofustjóri: Júlían Meldon D´Arcy, prófessor í enskum bókmenntum

 

Útdrættir:

Daisy Neijmann stundakennari: Litið til baka: birtingarmyndir stríðs í sögulegum skáldskap

Stríð, í sínum mörgu mismunandi birtingarmyndum, einkennir 20. öldina. Helst er það í bókmenntum að upplifun ófriðar, ásamt tilfinningalegum og menningarlegum afleiðingum hennar, hefur verið gerð skil. Oft er þó þörf fyrir fjarlægð frá því áfalli sem felst í stríðsreynslu áður en höfundar treysta sér til að fást við slíka reynslu í bókmenntalegu formi. Paul Russell hefur jafnvel haldið því fram að það sé ekki fyrr en allir sem muna eftir stríði eru fallnir frá sem að bókmenntalegar leiðir til að muna og túlka það verði tiltækar. Í þessu erindi verður fjallað um þrjár skáldsögur, hverja frá sínu landi, sem líta til baka til stríðsreynslu sem er löngu orðin þáttur í félagslegu minni, og þær skáldsögulegu aðferðir sem notaðar eru til að brjóta niður goðsagnir eða mýtur og gera þá sömu stríðsreynslu aðgengilegri fyrir nýjar kynslóðir.

 

Ingibjörg Ágústsdóttir, lektor í breskum bókmenntum: Er þetta ekki alltaf sama sagan? Um vinsældir Túdoranna í sögulegum skáldskap

Vinsældir Túdoranna í sögulegum skáldskap eru miklar. Endalaust virðist vera hægt að sækja innblástur í þetta heillandi tímabil í breskri sögu, en vinsælastur er þó Hinrik áttundi og hinar sex misheppnu konur hans. Ótalmargar sögur hafa verið skrifaðar um Túdorana, kóngafólkið, ástmeyjarnar, elskhugana, ættmennin og hirðina: aðeins örfá dæmi eru skáldsögur eftir Jean Plaidy, Margaret George, Philippu Gregory, C.J. Sansom, Robin Maxwell, Margaret Irwin, Margaret Campbell Barnes og Norah Lofts. Á síðustu árum hefur áhugi meðal lesenda og rithöfunda á Túdor-tímabilinu farið vaxandi, og á sama tíma hafa vinsældir og virðing sögulegu skáldsögunnar einnig aukist. Til dæmis eru bækur Hilary Mantel um Thomas Cromwell (sem um tíma var aðalráðherra Hinriks áttunda) mikilsvirtar af lesendum og gagnrýnendum og hafa þær tvær fyrstu í væntanlegri trílógíu báðar unnið til hinna virtu Booker-verðlauna.

En hvað er það við slíkar bókmenntir sem heillar lesendur? Hvers vegna vilja rithöfundar skrifa um efni sem hefur verið fjallað um í fjöldamörgum öðrum skáldsögum? Er þetta ekki alltaf sama sagan, sem sögð er aftur og aftur? Í þessu erindi mun ég fjalla um helstu ástæður þess að rithöfundar og lesendur í dag kjósa að skrifa og lesa um Túdorana, auk þess að bera saman tvær skáldsögur eftir tvo ólíka höfunda frá tveimur enskumælandi löndum og fjalla um hvernig þeir höfundar nálgast sömu atburðina á ólíkan hátt og frá mismunandi sjónarhornum.

 

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku: „Segðu mér söguna aftur“: Rannsóknarhlutverk sögulegu skáldsögunnar í Rómönsku Ameríku

Orð dr. Jorge Panesi, sviðsforseta Buenos Aires háskóla, um að bókmenntir séu hitt skráningaform sögunnar [„el otro archivo de la historia“] hafa beint sjónum að mikilvægu hlutverki bókmennta við að færa stórsöguna til bókar og endurrita hana. Í meðförum rithöfunda sögulegra skáldsagna frá Rómönsku Ameríku er gagnrýnu sjónarhorni gjarnan beitt við greiningu á atburðum eins og valdatíð herforingjastjórna og borgarastyrjöldum Mið-Ameríkuríkja á síðari hluta tuttugustu aldar.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um það sem kallað hefur verið nýja sögulega skáldsagan [„la nueva novela histórica“] og vísar til bókmenntahefðar sem kalla mætti „uppgjörs“-bókmenntir. Vísað er til skáldsagnatexta þar sem sjónum er beint að sögulegum atburðum síðari hluta tuttugustu aldar og í stað hlutlausra lýsinga á því sem þá gerðist eru persónur skáldverkanna nýttar til að túlka umrædda viðburði og varpa á þá nýju ljósi.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is