Skólun skálda

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-14.30.

Ritlist var síðasta listgreinin sem rataði inn á háskólastig hérlendis. Lengi vel var jafnvel talið að ekki væri hægt að kenna ritlist, annaðhvort fengi fólk náðargáfu skáldsins í vöggugjöf eða því væri ekki viðbjargandi á þessum vettvangi. Í þessari málstofu verður fjallað um ritlistarkennslu á Íslandi og skoðaður skóli sá í ritlist sem Þórbergur Þórðarson nam við á öðrum áratug síðustu aldar. Jafnframt verður spurt um afstöðu nútímans til ritlistarkennslu, aðferðafræði og jafnvel um um gagnsemi ritlistar í samfélaginu.

Fyrirlesarar:

  • Soffía Auður Birgisdóttir bókmenntafræðingur: Ritlistarskólun Þórbergs Þórðarsonar
  • Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist: Skrifað til gagns
  • Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og stundakennari: „Komdu inn, fáðu þér sæti, má ekki bjóða þér kaffi?“  ─ um vandann að skrifa leikrit árið 2013

Málstofustjóri: Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist

 

Útdrættir:

Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur: Ritlistarskólun Þórbergs Þórðarsonar

Þórbergur Þórðarson hefur ótvíræða stöðu sem helsti stílsnillingur íslenskra bókmennta, enda eru sérstök stílverðlaun við hann kennd. Við útkomu Bréfs til Láru árið 1924 undruðust margir hvernig þessi „ómenntaði“ Suðursveitungur hefði náð slíku undravaldi á stíl og voru flestir á því að hann hefði hlotið náðargáfu stílsins í vöggugjöf. En stílsnilld Þórbergs er kannski fyrst og fremst afrakstur mikillar þjálfunar í lestri og skrifum. Þórbergur stundaði þrotlausar æfingar í textameðferð bæði í mæltu máli og rituðu um árabil. Á öðrum áratug 20. aldarinnar var hann meðlimur í félagsskap sem hafði það að markmiði að þjálfa unga menn í mælskulist og ritlist. Þessi félagsskapur tilheyrði Ungmennafélagi Reykjavíkur og mun ég segja nánar frá honum í erindinu.

 

Rúnar Helgi Vignisson, dósent í ritlist: Skrifað til gagns

Hvernig skrifar maður svo að gagni megi koma? Er ritun yfirleitt til gagns? Hvers vegna skrifum við? Hvað gerist þegar við skrifum sem ekki gerist í öðrum hugsanaferlum? Má nýta ritlist betur í skólakerfinu? Hvað er ritlist og er hægt að læra hana? Verður hún kennd? Er hægt að kenna sköpun? Er ýtt undir hana í skólakerfinu eða eru nemendur lattir til að vera skapandi? Höfum við ranghugmyndir um ritun? . . . Nei, það verður ekki öllum spurningum svarað en gerð atlaga að þeim helstu. Um leið verður útlistað hvaða hugmyndafræði er beitt í ritlistarnáminu við HÍ.

 

Hlín Agnarsdóttir, rithöfundur og stundakennari: „Komdu inn, fáðu þér sæti, má bjóða þér kaffi?“ ─ um vandann við að skrifa leikrit og kenna leikritaskrif

Fjallað verður um leikritið sem allir vilja helst lesa og sjá, þ.e. hið hefðbundna aristótelíska leikrit með góðri persónusköpun, pottþéttri dramatískri framvindu og innri sögu sem flestir geta samsamað sig og sínar tilfinningar með. Spurt verður hvort leikritun í dag sé enn föst í hefðbundnum viðjum þrátt fyrir formbyltinguna á síðustu öld sem og tilvist póstdramatíska gjörningaleikhússins. Hvaða möguleika hefur leikskáldið til að feta ótroðnar slóðir í sínum skrifum og á að kenna leikritun sem eina grein ritlistar og bókmennta eða sem undirstöðugrein allrar lifandi leiklistar

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is