Sifjafræði hugtaka

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 11.00-12.00.

 

Haldnir verða tveir fyrirlestrar sem báðir snerta sifjafræði og klassíska fornöld, annars vegar heimspekilega stöðu orðsifja og hins vegar sifjar hugtaka sem voru og eru enn miðlæg innan hugvísinda. Í Af sifjafræði siðferðisins (II, 13) segir Nietzsche: „Öll hugtök, sem mikið ferli kemur saman í með táknfræðilegum hætti (in denen sich ein ganzer Prozess semiotisch zusammenfasst), hörfa undan skilgreiningu; einungis það er skilgreinanlegt sem á sér enga sögu.“ Hugsanir okkar um heiminn og sjálf okkur einkennast af nokkrum grundvallarhugtökum sem móta starf okkar og athafnir. Við getum verið sammála um að láta þau leiða okkur (t.d. hamingjuna) eða að forðast þau (t.d. illsku) en á sama tíma verið róttækt ósamála um hvað þau merkja. Þau eru nöfn á fræðgreinum (t.d. heimspeki og sögu) sem við hvert og eitt, líka þeir sem ástunda þau, leggjum ólíkan skilning í. Þau eru í einhverjum skilningi óskilgreinanleg þar sem þau rúma í sér alla hina margrbrotnu sögu sem liggur þeim að baki. Í málstofunni verður fjallað um nokkur lykilhugtök vestrænnar hugsunar í ljósi klassískrar fornaldar og ljósi sifjafræðinnar varpað á þau í tilraun til að greina og „leysa upp“ merkingu þeirra.

Fyrirlesarar:

  • Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs: Sifjafræði sögu og heimspeki
  • Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Sifjafræði hamingjunnar

Málstofustjóri: Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í grísku og latínu

 

Útdrættir:

Eiríkur Smári Sigurðarson, rannsóknastjóri Hugvísindasviðs: Sifjafræði sögu og heimspeki

Á 5. og 4. öld f.Kr. þróast vestrænt hugtakakerfi heimspeki í vísinda hjá Forngrikkjum. Meðal þeirra lykilhugtaka og hugmynda sem mótast í orðræðunni eru saga (gr. historia) og heimspeki (gr. filosofia), sem oft er stillt upp sem andstæðum pólum á rófi sannleikans þar sem annað snýr að hinu einstaka en hitt að því almenna. Airstóteles gerir síðan tilraun til að sameina þessar tvær hugmyndir. Í erindinu verða þessi hugtök staðsett og greind í ljósi baráttunnar um yfirráð yfir þekkingunni meðal Forngrikkja og leitast við að svara spurningum um söguna í heimspekinni, heimspekina í sögunni og mörk fræðigreina.

 

Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki: Sifjafræði hamingjunnar

Forngrískar hugmyndir um hamingjuna, eins og þær birtast í elstu bókmenntunum Grikkja, tengja hana einatt við guðdóminn. Þessi tenging er tvenns konar. Annars vegar býr guðdómurinn einn yfir þeim eiginleikum sem grundvalla raunverulega hamingju; maðurinn getur aðeins vonast til að eiga takmarkaða hlutdeild í henni, enda er hann ekki guðdómlegur. Hins vegar er þessi mannlega hamingja undir guðunum komin; maðurinn er sorgleg dægurvera. Upphaf siðfræðinnar einkennist af viðleitninni við að gera manninn að sjálfs sín herra.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is