Samfélagsrýnirinn Noam Chomsky

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 15.00-16.30.

 

Í málstofunni verður augum beint að samfélagsrýni bandaríska málvísindamannsins Noams Chomsky, kenningum hans um hlutverk menntamanna, fjölmiðlarýni hans og áhrifum á Occupy-hreyfinguna á Vesturlöndum.

Fyrirlesarar:

  • Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Hver er ráðgáta Orwells? Um hlutverk gagnrýnna menntamanna í samfélagsumræðunni
  • María Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur: Nauðsynlegar blekkingar? Hvert er hlutverk fjölmiðla í vestrænum heimi?
  • Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst: Chomsky í samtímanum: Úthald mótmælenda og áhrif mótmæla

Málstofustjóri: Björn Þór Vilhjálmsson, doktorsnemi og stundakennari 

 

Útdrættir:

Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Hver er ráðgáta Orwells? Um hlutverk gagnrýnna menntamanna í samfélagsumræðunni

Árið 1986 sendi Chomsky frá sér ritið Knowledge of Language: Its Nature, Origin, and Use þar sem hann veltir fyrir sér tveimur þekkingarfræðilegum vandamálum. „Ráðgáta Platons“ snýr að uppbyggingu þekkingarsviða í vísindum, á meðan „ráðgáta Orwells“ tekur á því hvernig raunverulegum sannindum er varpað fyrir róða í stjórnmála- og samfélagsumræðunni. Þrátt fyrir að síðarnefnda ráðgátan reyni ekki á vitsmunina með þeim hætti sem ráðgáta Platons gerir, er hún gríðarlega mikilvæg fyrir framtíð jarðarbúa. Hlutverk gagnrýnna menntamanna er að takast á við ráðgátu Orwells og berjast gegn áróðri og ósannindum hvar sem þau er að finna, án þess þó að bjóða upp á hugmyndafræðilegar heildarlausnir.

 

María Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur: Nauðsynlegar blekkingar? Hvert er hlutverk fjölmiðla í vestrænum heimi?

Beint er sjónum að þeirri bók sem Chomsky skrifar með E. S. Herman árið 1988,Framleiðsla á samþykki, pólitískur rekstur fjölmiðla (e. Manufacturing Consent, the Political Economy of Mass Media ). Ritið, sem unnið er í kalda stríðinu og miðast nær eingöngu við bandaríska fjölmiðla, telst enn lykilrit og að baki því liggja viðamiklar rannsóknir. Þar afhjúpa þeir munstur og kerfisbundna hegðun í starfsemi fjölmiðla. Gífurlegar byltingar hafa vissulega  orðið síðan í alþjóðamálum og á sviði tækni og miðlunar frétta. En á sama tíma hefur rekstrarform bandarískra fjölmiðla  ekki breyst í grundvallaratriðum nema að eignarhald þeirra hefur þjappast saman á færri hendur og þeir hafa teygt sig um allan heim. Áhrif þeirra eru mikil á Íslandi sem og víðast hvar annars staðar.

 

Jón Ólafsson, prófessor við Háskólann á Bifröst: Chomsky í samtímanum: Úthald mótmælenda og áhrif mótmæla

Árið 2011 einkenndist af einhverjum útbreiddustu og öflugustu mótmælum síðustu áratuga þegar Occupy-hreyfingin spratt upp um öll Vesturlönd, lýðræðishreyfingar hristu rækilega upp í stjórnkerfum ríkja í Norður-Afríku og Rússar, einkum Moskvubúar flykktust út á göturnar til að mótmæla stjórnarháttum sinna yfirvalda. Einn þeirra hugsuða sem gjarnan var litið til þegar reynt var að greina orsakir mótmælanna og setja þau í hugmyndafræðilegt samhengi var Noam Chomsky. Samt var eins og Chomsky ætti ekki að öllu leyti heima í umróti þessara mótmælahreyfinga. Litið verður til baka yfir nokkra lykilatburði síðustu ára og spurt hvort samfélagsgreining Chomskys sé á einhvern hátt hjálpleg við að skilja þá – eða að einhverju leyti leið til að spá fyrir um afleiðingar þeirra.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is