Sagan kortlögð? Notkun landupplýsingakerfa í sagnfræðilegum rannsóknum

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-14.30.

 

Á málstofunni verður rætt um hvernig landupplýsingakerfi (LUK) eru hagnýtt í sagnfræðilegum rannsóknum og hvaða möguleika þau hafa upp á að bjóða. Á árum áður var áhugi á sagnfræðilegum landupplýsingakerfum (á ensku historical geographical information systems) einkum bundinn við sögulega landfræði og fornleifafræði en upp á síðkastið hefur orðið vakning meðal sagnfræðinga um kosti þeirra í rannsóknum. Fjölbreytnin er mikil, sum þessara kerfa spanna heilu löndin með margs konar lýðfræðiupplýsingum, önnur fjalla um afmarkaða þætti á litlum svæðum s.s. samgöngur, landnýtingu og byggðaþróun; enn önnur um áhugaverða atburði í sögunni t.d. borgarastríðið í Bandaríkjunum eða galdraréttarhöldin í Salem. Margir tengja LUK fyrst og fremst við kortagerð en þau eru miklu meira en það, í rauninni stafræn gagnasöfn með tölfræðilegum upplýsingum, texta, myndum og öðrum gögnum sem tengd eru staðsetningu og gera mönnum því kleift að setja gögnin fram á kortum. Kortin eru ekki bara til augnayndis heldur líka til að nota við greiningu á viðfangsefninu, tengja ólík gögn og spyrja spurninga. Á Íslandi eru fræðimenn skammt á veg komnir í notkun sögulegra landupplýsingakerfa. Í málstofunni verður þetta áhugaverða svið kynnt og gerð grein fyrir nokkrum verkefnum sem hafa verið unnin eða er verið að vinna að hér á landi.

Fyrirlesarar:

  • Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði: Kvaðakerfi landbúnaðarsamfélagsins: útbreiðsla og efnahagsleg þýðing 
  • Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði: Sagnfræðileg landfræði og LUK: Útbreiðsla og áhrif hafíss á 19. öld
  • Anna Lísa Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjá Minjasafni Reykjavíkur: Landupplýsingakerfi og fornleifar. Byggðaþróun í miðbæ Reykjavíkur

Málstofustjóri: Njörður Sigurðsson, sviðsstjóri skjalasviðs í Þjóðskjalsafni Íslands

 

Útdrættir:

Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði: Kvaðakerfi landbúnaðarsamfélagsins: útbreiðsla og efnahagsleg þýðing

Kvaðir hvíldu á stórum hluta jarða allt frá miðöldum fram til loka 19. aldar og voru snar þáttur í búskaparháttum og valdakerfi jarðeigenda. Markmið verkefnisins er að fá heildarmynd af kvaðakerfinu á Íslandi við upphaf 18. aldar, útbreiðslu kvaða og efnahagslegri þýðingu þeirra. Eitt helsta nýnæmi verkefnisins er notkun landupplýsingakerfa (LUK) þar sem kortagerðartækni og tölfræðilegur gagnagrunnur eru hagnýtt til að greina kvaðakerfið. Í gagnagrunninn er safnað upplýsingum úr jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1702–1714 um jarðir í landinu og eigendur þeirra. Í framtíðinni er hægt að stækka gagnagrunninn og færa inn önnur gögn um gamla samfélagið. Verkefnið er unnið í samvinnu fræðimanna í sagnfræði, landfræði og tölvunarfræði, og er kjörinn vettvangur til að tengja saman kortagerð, sagnfræði og tölfræðigreiningu á spennandi hátt.

 

Ingibjörg Jónsdóttir, dósent í landfræði: Sagnfræðileg landfræði og LUK: Útbreiðsla og áhrif hafíss á 19. öld

Landfræðingar nýta sögulegar heimildir til að fá vitneskju um náttúrufar fyrri tíma, umhverfisbreytingar og hvaða áhrif þær hafa haft á fólk og fénað. Nauðsynlegt er að þekkja til hlítar eðli gagnanna, áreiðanleika og skilja hvaða önnur öfl gætu hafa haft áhrif á viðkomandi tímabili. Landupplýsingakerfi (LUK) eru í senn gagnagrunnur og kortagerðartæki og henta afar vel til að safna á einn stað margvíslegum gögnum, greina þau og birta.

Breytileiki í útbreiðslu hafíss á íslenskum hafsvæðum hefur verið mikill í gegnum aldirnar. Hafísinn hefur haft margvísleg náttúrfarsleg og samfélagsleg áhrif, en mismikil þó eftir tímabilum. Heimildir um hafísinn, eðli hans og áhrif, er víða að finna: í annálum, dagblöðum, dagbókum, bréfum, skýrslum og leiðabókum skipa. Hér verða kynntar niðurstöður á hafíssögu seinni hluta 19. aldar, sem byggir á sögulegum heimildum og hefur verið unnin í LUK.

 

Anna Lísa Guðmundsdóttir, deildarstjóri hjá Minjasafni Reykjavíkur: Landupplýsingakerfi og fornleifar. Byggðaþróun í miðbæ Reykjavíkur

Hvar finnast fornleifar í miðbæ Reykjavíkur? Svarið er ekki einfalt, því nánast engar minjar sjást á yfirborði, allt er malbikað eða hellulagt. Með þróun sem orðið hefur í aðferðafræði við fornleifaskráningu er hægt að nálgast svarið. Byrjað er á að leita upplýsinga um minjar í gegnum heimildir, kort, ljósmyndir og örnefni. Þær upplýsingar eru síðan skráðar sem fornleifar í Sarp sem er menningarsögulegur gagnagrunnur og staðsetning fornleifanna er færð inn í Landsupplýsingarkerfi Reykjavíkur (LUKR). Keyra má þessa grunna saman og gera ýmsar greiningar. Þróun byggðar í Reykjavík má sjá á gömlum Reykjavíkurkortum frá árunum 1787-1915. Unnið er með kortin í LUKR, sem eru hnitsett og endurteiknuð, reynt er að nálgast staðsetningu og stærð gömlu húsanna sem nákvæmast út frá þekktum staðsetningum og brunavirðingum. Niðurstöður þessara rannsókna nýtast meðal annars komi til framkvæmda í miðbæ Reykjavíkur og er forsenda kostnaðaráætlunar vegna fornleifarannsókna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is