Sæmdarmenn. Um heiður á þjóðveldisöld

Bókin Sæmdarmenn hefur að geyma greinar fimm íslenskra fræðimanna um heiður á þjóðveldisöld. Hér er um að ræða rannsóknir sem sýna það sem efst er á baugi og nýjast í íslenskum miðaldafræðum. Gunnar Karlsson orðar það svo í eftirmála sínum að hér sé að líta dagsins ljós önnur kynslóð rita um eðli virðingar í miðaldasamfélaginu.

Heiður og skömm: Tilfinningar eða félagslegur kröfur?
Öll þekkjum við það að hetjur Íslendingasagna töldu skammarlegt að flýja, jafnvel þótt við ofurefli væri að etja. Heiður þeirra bauð þeim að verja sig. Mörgum þykir sem þetta hafi oft verið beinlínis óskynsamlegt og skilja ekki vel hina miklu áherslu sem lögð var á heiður undir slíkum kringumstæðum. Var sú merking jafnan lögð í orðið að fornmenn hefðu látið stjórnast af tilfinningu, heiður hefði verið einhvers konar tilfinningalegt og einstaklingsbundið ástand.

Í seinni tíð hefur komið fram annar skilningur á þessu, bent er á að heiður var virðing sem fólk í þjóðveldinu (930-1262) sýndi og veitti bændum og goðum, öllum þeim sem fullnægðu ákveðnum félagslegum kröfum - eða svipti þá ella. Kröfurnar voru ófrávíkjanlegar og menn voru metnir eftir því hvernig og hvenær þeir fullnægðu þeim og veittist heiður eða virðing í samræmi við það.

Þessi skilningur er ríkjandi í bókinni Sæmdarmenn og tengist auknum samræðum á milli manna í einstökum fræðigreinum og aukinni áherslu á félagssögu, og þar með félagsfræðileg viðhorf, í rannsóknum á þjóðveldinu. Í bókinni er haft að leiðarljósi að heiður átti félagslegar rætur og hafði félagslega merkingu en var ekki aðeins missterk tilfinning eða flögrandi hugmynd.

Gripið er á ýmsum álitamálum. Fullyrt hefur verið að heiður í þjóðveldinu hafi verið föst stærð, heiður eins hafi ekki getað aukist án þess að það yrði á kostnað annars. Helgi Þorláksson fjallar um þetta. Náskyld þessari skoðun er sú að heiður sem menn öfluðu sér í útlöndum hafi alveg ruglað hið innlenda virðingarkerfi, sett það úr skorðum og valdið úlfúð með mönnum. Sverrir Jakobsson kemur ma. að þessu í grein sinni í bókinni.

Þeirrar skoðunar hefur gætt að konur á þjóðveldistíma hafi ekki átt neinn persónulegan heiður, húsfreyjur hafi einungis haft þann metnað að viðhalda heiðri eiginmanns og þar með heimilis og fjölskyldu. Sólborg Una Pálsdóttir fjallar um þetta og kannar hvort það stenst.

Torfi H. Tulinius notar hugtök Pierre Bourdieu um menningarlegt, táknrænt og efnahagslegt auðmagn til að varpa ljósi á eðli virðingar í þjóðveldinu. og fjallar ma. um forsendur sagnaritunar á 13. öld.

Auðsöfnun er oft talin helsta skýring þess að fram komu svonefndir stórgoðar, menn eins og Snorri Sturluson sem höfðu meiri völd en áður þekktust á einni hendi í þjóðveldinu. Helgi Þorláksson telur auð ofmetinn í þessu viðfangi og teflir virðingu fram sem skýringarkosti.

Bókin er 155 síðna kilja og er fáanleg hjá Háskólaútgáfunni. Hún kostar 2.450 krónur. Einnig er hægt að kaupa bókina með afslætti á skrifstofu Hugvísindastofnunar.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is