Róttæk heimspeki samtímans

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 15.00-17.00.

 

Heimspeki hefur oft verið lögð að jöfnu við gagnrýna hugsun. Þó er  álitamál hvaða merkingu „gagnrýni“ hefur. Róttæk heimspeki samtímans ─ sem einnig er stundum kennd við gagnrýnar samtímakenningar (critical contemporary theory) ─ andmælir einhliða skilningi á gagnrýni sem smættar hana í rökhugsunarfærni („critical thinking skills“). Róttæk heimspeki af þessum toga hefur ævinlega að markmiði að gagnrýna samfélagsaðstæður og þá einkum út frá hugtökum þeim sem við nýtum til að lýsa þeim. Róttækar kenningar í heimspeki leggja til hugtök sem nýtast til að varpa ljósi á ranglæti og hafa umbreytingarkraft. Jafnframt því er lögð áhersla á að gagnrýni sé ævinlega staðsett, komi út úr ákveðnum aðstæðum sem skilyrða hana.

Fyrirlesarar:

  • Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Nýir straumar femínískrar heimspeki: Efnishyggju-femínísmi og pósthúmanismi
  • Egill Arnarson, MA í heimspeki: Stendur „róttæk heimspeki“ undir nafni?
  • Erla Karlsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Luce Irigaray og róttækt lýðræði
  • Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Gagnrýni á gagnrýna hugsun

Málstofustjóri: Björn Þorsteinsson, sérfræðingur á Heimspekistofnun

 

Útdrættir:

 

Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki: Nýir straumar femínískrar heimspeki: Pósthúmanismi og efnishyggju-femínísmi

 Pósthúmanismi og efnishyggja hafa á undanförnum árum birst sem viðleitni til að endurhugsa mannskilning módernisma á forsendum hagkerfa og tæknikerfa sem skilyrða líf mannsins og efnisleika líkama. Helstu höfundar þessara stefna innan femínískrar heimspeki eru Elizabeth Grosz, Karen Barad, Rosi Braidotti og Donna Haraway. Kenningar þeirra hafa verið nauðsynleg viðbót við sjálfsmyndar-heimspeki sem tekur ekki nægt tillit til efnislegra, efnahagslegra og tæknilegra áhrifavalda á kyngervi og stöðu. Pósthúmanísk heimspeki og efnishyggju-femínísmi hafa hins vegar sætt gagnrýni fyrir að vanmeta gerendahæfni og bjóða ekki upp á nógu beitt viðmið til að gagnrýna hnattræn-tækni-hagkerfi sem viðhaldi yfirráðum hinna fáu á kostnað fjöldans og framtíðarkynslóða. Hvaða forsendur eru í kenningum pósthúmanískra og efnishyggju-femínista til slíkrar gagnrýni?

 

Egill Arnarson, MA í heimspeki: Stendur „róttæk heimspeki“ undir nafni?

Í þessu erindi verður sjónum beint að því hvernig ýmsir hugsuðir sem teljast til „róttækrar heimspeki“ eða „gagnrýninnar kenningar“ hafa verið gagnrýndir fyrir að vera hvorki róttækir né nógu gagnrýnir á helstu vandamál samtímans. "Franski heimspekingurinn Alan Badiou hefur t.d. sætt þeirri gagnrýni að vilja ekki læra af sögunni, taka hálftrúarlegar opinberanir fram yfir praktískar lausnir er gætu nýst gegn þeirri kúgun sem hann gagnrýnir og hafa ─ andspænis kreppu póstmódernismans ─ aðeins upp á gamaldags módernisma að bjóða."

 

Erla Karlsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Luce Irigaray og róttækt lýðræði

Í síðverki Irigaray er hægt að sjá greinileg merki þess hvernig hún útfærir og víkkar út þær grundvallarkenningar sem hún setti fram í eldri verkum. Í þessu erindi verða kenningar Luce Irigaray um kynjamismun skoðaðar í ljósi hugmynda um róttækt lýðræði með áherslu á bókina Ég elska til þín. Irigaray staðsetur endurskoðun lýðræðis í samskiptum kynjanna með áherslu á virðingu fyrir margbreytileika. Kenningasmiðir róttæks lýðræðis hafa bent á nauðsyn þess að leita til róta lýðræðisins til að endurvekja og virkja aftur raunverulegt lýðræði í samfélögum og verður hér skoðað hvort kenningar Irigaray gætu nýst inn í þá orðræðu.

 

Nanna Hlín Halldórsdóttir, doktorsnemi í heimspeki: Gagnrýni á gagnrýna hugsun

Gagnrýnin hugsun sem hugmynd hefur hlotið meiri áheyrn í samfélaginu eftir efnahagshrunið 2008 og borið hefur við í pólitískri orðræðu að öll okkar vandamál munu leysast aðeins ef við temjum okkur „siðfræði og gagnrýna hugsun“. Hvað þýðir það eiginlega? Gagnrýnin hugsun hefur stundum verið sett fram sem form eða aðferðafræði sem hægt er að nýta á ólíkar aðstæður, en gengur það upp? Í þessum fyrirlestri verða gagnrýnar kenningar (critical theory) kynntar til sögunnar, sérstaklega verk Michels Foucault og Judith Butler sem hafa bæði varpað fram fræðilegum spurningum um gagnrýni. Þessar kenningar verða nýttar til þess að skoða hugmyndina um gagnrýna hugsun og einkum samband hennar við ýmiss konar orðræðu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is