Með fáum orðum: Örsagan í spænskumælandi löndum

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-14.00.

 

Á undanförnum áratugum hefur hið knappa form örsögunnar notið sífellt meiri vinsælda víða um heim. Í málstofunni verður fjallað um örsagnaformið í bókmenntum Rómönsku Ameríku, þar sem það hefur notið viðurkenningar sem listform allt frá byrjun 20. aldar. Einnig verður sjónum beint að örsögunni á Spáni þar sem hún hefur notið vaxandi vinsælda einkum meðal höfunda af yngri kynslóðinni.

Fyrirlesarar:

  • Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku: Stutt og laggott. Um örsagnaformið í bókmenntum Rómönsku Ameríku
  • Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Í stuttu máli. Örsagan á Spáni

Málstofustjóri: Halldóra Gunnlaugsdóttir, meistaranemi í spænsku

 

Útdrættir:

Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku: Stutt og laggott. Um örsagnaformið í bókmenntum Rómönsku Ameríku

Í erindinu verður fjallað um örsagnaformið í Rómönsku Ameríku þar sem það hefur notið mikilla vinsælda og viðurkenningar sem listform allt frá byrjun 20. aldar. Margir af þekktum rithöfundum álfunnar hafa einbeitt sér að þessu formi svo sem Jorge Luis Borges, Augusto Monterroso, Juan José Arreola, Julio Cortázar, Luisa Valenzuela og Ana María Shua. Farið verður yfir helstu einkenni formsins, sögu þess og helstu rithöfunda.

Erla Erlendsdóttir, dósent í spænsku: Í stuttu máli. Örsagan á Spáni

Hér verður fjallað um örsöguna á Spáni en undanfarna áratugi hefur hún notið aukinna vinsælda í landinu sem bókmenntaform einkum meðal yngri höfunda. Stiklað verður á stóru í sögu spænsku örsögunnar og vikið að helstu höfundum hennar. Hér má nefna höfunda eins og Juan Ramón Jiménes (1881-1958), Gómez de la Serna (1888-1963), Federico García Lorca (1898-1936) og Ignacio Aldecoa (1925-1969), sem og Ana María Matute (1926), Julia Otxoa (1953) og Espido Freire (1974).

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is