Orð eins og forðum

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 13.00-17.00.

 

Eins og titill málstofunnar vísar til verður efni hennar sögulegt. Margt er enn ókannað í sögu íslensks máls og mikilvægt er að þeim þætti verði meiri gaumur gefinn. Á málstofunni verða flutt sjö erindi sem hvert um sig lýsa þætti úr íslenskri málsögu. Í fyrsta erindinu verður rætt um ýmislegt mállegt í gamalli latnesk-íslenskri orðabók frá 1738 og hugað að því hvort það sem þar er að finna veiti upplýsingar um málið á fyrri hluta 18. aldar. Annað erindi snýr að málsháttum og beinist einkum að 14. aldar safni latneskra málshátta með forndönskum þýðingum sem Peder Låle tók saman og verða íslenskir málshættir skoðaðir með hliðsjón af því safni. Tvö erindi fjalla um forn mannanöfn, annars vegar um nafnið Yngvi og hins vegar um nafnið Atli. Ýmsar tilgátur eru um fyrra nafnið en algengasta skýring a nafninu Atli verður dregin í efa. Þrjú erindi snúa að beygingum. Í einu þeirra verður sjónum beitt að veikum hvorugkynsorðum, í öðru að hegðun svokallaðra na-sagna og -st myndum af þeim. Til samanburðar verða -ga/-ka (t.d. fjölga, fækka) sagnir skoðaðar. Þriðja erindið verður um þróun þátíðar sterkra sagna eftir 7. flokki í fornensku og norrænu. Í öllum erindunum leitast höfundar við að bæta þekkingu á íslenskri málsögu. Hver lítill þáttur sem  dreginn er fram til betri skilnings á uppruna og þróun tungumálsins er mikilvægt innlegg í enn óskrifaða íslenska málsögu.

Fyrirlesarar:

  • Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri hjá Árnastofnun: Sagnir og fleira í gamalli orðabók. Hvað er að finna um málsögu í Nucleus latinitatis?
  • Jón G. Friðjónsson prófessor: Safn Peders Låles og íslenskar heimildir
  • Margrét Jónsdóttir prófessor: Glasið brotnaðist. Um st-myndir af sögnum með viðskeytinu -na
  • Jón Símon Markússon doktorsnemi: Þróun tvöföldunarþátíðar í fornensku og norrænu.
  • Katrín Axelsdóttir aðjunkt: Margur er knár
  • Jón Axel Harðarson prófessor: Yngvi: Uppruni og þróun
  • Magnús Snædal prófessor: Atli Húnakonungur

Málstofustjóri: Gunnlaugur Ingólfsson, rannsóknardósent hjá Árnastofnun

 

Útdrættir:

Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri hjá Árnastofnun: Sagnir og fleira í gamalli orðabók. Hvað er að finna um málsögu í Nucleus latinitatis?

Árið 1738 gaf Jón biskup Árnason út latnesk-íslenska orðabók, Nucleus latinitatis, sem hann þýddi úr dönsku. Í bókinni er sýndur aragrúi latneskra notkunardæma sem öll eru þýdd og er íslenskur orðaforði því töluverður í bókinni, bæði stök orð og heilar setningar. Í fyrirlestrinum verður rætt um að hvaða leyti texti af þessu tagi getur lagt rannsóknum í málsögu lið. Á hugvísindaþingi 2012 ræddi ég um beygingu nafnorða og lýsingarorða og bar þau að málfræði Jóns Magnússonar frá 18. öld og doktorsritgerð Jóhannesar Bjarna Sigtryggssonar um málið á ævisögu séra Jóns Steingrímssonar (2011). Nú verður einkum rætt um sagnir. Þær eru á hefðbundinn hátt settar fram í orðabókinni í fyrstu persónu eintölu en ekki nafnhætti og geta því hugsanlega gefið vísbendingar um beygingarflokka sagna á 18. öld. Einnig verður litið á fáein fornöfn og annað áhugavert. 

 

Jón G. Friðjónsson, prófessor: Safn Peders Låles og íslenskar heimildir

Á síðari hluta 14. aldar tók maður að nafni Peder Låle saman kennslubók í latínu. Uppistaðan er reyndar safn latneskra málshátta með forndönskum þýðingum – einnig hafa varðveist fornsænskar þýðingar frá sama tíma. Til þessa verks er jafnan vísað sem málsháttasafns Péturs Lálendings.

Málsháttasafn PL var fyrst prentað í Kaupmannahöfn 1506 (A) en þegar árið 1508 (a) kom út önnur, nánast óbreytt útgáfa. Þriðja útgáfa (Christiern Pedersen) birtist í París 1515 (B) þar sem efnið er nánast hið sama en þó eru dönsku samsvörununum alloft breytt. Nauðsynlegt er að víkja stuttlega að útgáfusögu safns Peders Låles því að færa má rök að því að Jón Rúgmann og Guðmundur Ólafsson hafi haft fyrir sér þriðju útgáfuna (B (1515)) er þeir viðuðu að sér efni í söfn sín.

Í fyrstu útgáfu er að finna 1204 latneska málshætti og þýðingar þeirra á dönsku. Málshættirnir er þó mun færri því að sumir þeirra eru tví-, þrí- eða jafnvel fjórteknir. Að teknu tilliti til þessa má ætla málshættir í safninu séu um 1140. Efniviðurinn í safni Peders Låles er afar margþættur. Í fyrsta lagi eru þar allmargir málshættir sem kalla má samnorræna í þeim skilningi að samsvörun þeirra er að finna í íslensku og sænsku. Af þessum toga eru 55 málshættir sem eiga sér samsvörun í íslenskum ritum fyrir 1500, t.d. Íslendingasögum, konungasögum eða biskupasögum. Í öðru lagi eru þar allnokkrir málshættir sem vísa til lagamáls, samsvörun tveggja er að finna í Jónsbók og eins í Grágás. Í þriðja lagi eru 16 Biblíumálshættir í safninu og um 13 þeirra eru íslenskar heimildir sem eru eldri en safn PL. Í fjórða og síðasta lagi vísa flestir málsháttanna til daglegs lífs og almennra starfshátta (landbúnaðar, húsdýra, fiskveiða) en nánast enginn til bæjarlífs, handverks eða viðskipta.

Af um 1140 málsháttum í safni PL er að finna 656 samsvaranir í íslensku og íslenskum málsháttasöfnum sem eru yngri en safnið sjálft (eftir 1500), þar af eru um 393 samsvaranir í safni Guðmundar Ólafssonar.

Í erindinu verður fjallað um safn Peders Låles og gildi þess fyrir fyrir íslenska menningu og málsögu.

 

Margrét Jónsdóttir, prófessor: Glasið brotnaðist. Um st-myndir af sögnum með viðskeytinu -na

Ýmis dæmi eru til um st–myndir af sögnum með viðskeytinu –na enda þótt almennt sé gert ráð fyrir því að slík myndun sé óhugsandi. Hér má sjá nokkur dæmi:

…hjer býr kynstofn, sem harðnast hefir við nepju norð-lægrar veðráttu… (1923)

En höndin stirðnaðist á miðri leið. (1947)

Eini gallinn sem ég hef fundið fyrir er að húðin þornast lítillega upp…

Í fyrirlestrinum verður hegðun na-sagna skoðuð nánar. Til samanburðar verða skoðaðar sagnir með –ga/-ka, sagnir eins og fjölga og fækka. Fjölmörg dæmi eru til um st-myndir af slíkum sögnum enda þótt sömu hömlur valdi því að þær ættu ekki að vera til. 

 

Jón Símon Markússon, doktorsnemi: Þróun tvöföldunarþátíðar í fornensku og norrænu

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um þróun þátíðar sterkra sagna eftir 7. flokki í norrænu og fornensku. Þátíðarmyndun þessara sagna einkenndist af tvöföldunarforskeyti í frumgermönsku. Hinn upprunalegi myndunarháttur er enn varðveittur í gotneskum málheimildum á 4. öld e. Kr. Í norður- og vesturgermönskum málum hafa ýmsar hljóðbreytingar og áhrifsbreytingar valdið því að nýtt hljóðskiptamynstur þróaðist í stað hinnar upprunalegu tvöföldunarþátíðar. Einkum verður horft til þróunar umræddrar þátíðar í norrænu og fornensku og verða sérstaklega þær sagnir athugaðar sem koma fyrir í báðum málum.

 

Katrín Axelsdóttir, aðjunkt: Margur er knár

Í fyrirlestrinum verður sjónum beint að veikum hvorugkynsorðum, þ.e. orðum eins og ,,auga“ og „eyra“. Rætt verður um stærð (eða smæð) þessa flokks og virkni hans. En einkum verður fjallað um tilvik þar sem þetta beygingarmynstur hefur áhrif á orð sem tilheyrir stórum og reglulegum beygingarflokki.

 

Jón Axel Harðarson, prófessor: Yngvi: Uppruni og þróun

Ýmsar tilgátur er að finna í orðsifjabókum um uppruna nafnsins Yngvi en engin þeirra getur talist sannfærandi. Í fyrirlestrinum verður ný tilgáta lögð fram og þróun nafnsins rakin frá indóevrópsku til fornnorrænu.

 

Magnús Snædal, prófessor: Atli Húnakonungur

Fyrirlesturinn snýst um nafn Atla Húnakonungs, Attila, sem um langt skeið hefur verið talið gotneska og merkja ‚litli pabbi‘. Þessi skýring verður dregin í efa og hugað að öðrum möguleikum.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is