Módernismi

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 15.00-17.00.

 

Málstofan fjallar um ýmsar hliðar módernisma og um ólíkar leiðir til að greina hann fræðilega eða segja sögu hans, eins og einn fyrirlesari orðar það.

Fyrirlesarar:

  • Margrét Elísabet Ólafsdóttir stundakennari: Viðtökur expressjónískra málverka Finns Jónssonar í ljósi skrifa Alexanders Jóhannessonar um „Nýjar listastefnur“
  • Benedikt Hjartarson aðjunkt: Svipmyndir að handan: Um miðla, fagurfræði og launhelgar nútímans
  • Ástráður Eysteinsson prófessor: Frásagnarkreppa: saga módernismans
  • Þröstur Helgason doktorsnemi: Landfræði og módernismi, staðfræði og staðarmódernismi

Málstofustjóri: Þröstur Helgason doktorsnemi

 

Útdrættir:

Margrét Elísabet Ólafsdóttir stundakennari: Viðtökur expressjónískra málverka Finns Jónssonar í ljósi skrifa Alexanders Jóhannessonar um „Nýjar listastefnur“

Fyrirlesturinn fjallar um áhrif skrifa Alexanders Jóhannssonar um nýjar listastefnur og nútíma málaralist frá 1920 og 1922 á þær viðtökur sem Finnur Jónsson fær hjá Valtý Stefánssyni ritstjóra Morgunblaðsins sumarið 1925. Færð verða rök fyrir því að viðtökurnar byggi ekki á vanþekkingu, heldur ákveðnum skoðunum á nútímalist, sem voru til staðar í íslensku samfélagi í upphafi þriðja áratugarins.

 

Benedikt Hjartarson aðjunkt: Svipmyndir að handan: Um miðla, fagurfræði og launhelgar nútimans

Í erindinu verður fjallað um margþætt samband framsækinnar fagurfræði, dulspeki og tækninýjunga á fyrstu áratugum 20. aldar og sérstök áhersla lögð á hlutverk rafrænna og holdlegra miðla. Sjónum verður beint jafnt að ljósmyndun drauga og andlegra fyrirbrigða og tilraunakenndri ljósmyndun og kvikmyndagerð framúrstefnuhreyfinga á tímabilinu, í því skyni að varpa ljósi á birtingar handanheima í fagurfræði nútímans. Í brennidepli verður kvikmynd Hans Richters,Reimleikar að morgni (Vormittagsspuk), frá árinu 1928.

 

Ástráður Eysteinsson prófessor: Frásagnarkreppa: saga módernismans

Eitt helsta einkenni módernískra bókmennta birtist í flækjum, niðurbroti eða hruni frásagna. Þá er ekki endilega átt við rof í röð frásagnaratriða og atburða (slíkt hefur verið stundað í frásögnum frá aldaöðli), heldur í því samhengi skírskotana, því samsetta merkingarmynstri, sem frásagnir byggja á og lesendur taka þátt í að skapa. Þótt oft hafi verið talið að slíkt rof sé þáttur í fagurfræðilegu sjálfstæði módernískra verka veldur það jafnframt krísu. Lagt hefur verið upp í marga leiðangra í leit að tengslunum milli módernískra verka og sögulegs umhverfis: nútímans sem talinn er leynast eða speglast í slíkum verkum. Eftir því sem módernisminn varð mikilvægara hugtak um nútímabókmenntir fjölgaði jafnframt sögunum sem sagðar voru og eru um hann og þær hafa teygt sig til æ fleiri landa, heimshluta og tungumála. Þannig verður til ný frásagnarkreppa sem tengist þó þeirri sem þegar er getið. Hvernig er hægt að segja sögu módernismans? Hver er landfræði hans og tímarammi og hver eru viðmið og sjónarhorn frásagnarinnar hverju sinni?

 

Þröstur Helgason doktorsnemi: Landfræði og módernismi, staðfræði og staðarmódernismi

Vakin verður athygli á ýmsum mögulegum sjónarhornum sem landfræði og staðfræði veita á módernisma. Bent verður á erlendar rannsóknir um efnið og sagt frá yfirstandandi rannsókn á staðfræði íslensks módernisma.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is