Miðaldabörn

Hvernig hegðuðu norræn miðaldabörn sér og hvernig koma þau fyrir í heimildum? Voru íslensk miðaldabörn nauðalík Óla Alexander Fílibommbommbomm eða einhvern veginn allt öðruvísi? Að hvaða marki er manneðlið stöðugt og að hvaða marki er það síbreytilegt? Spurningum á borð við þessar er velt upp í bókinni Miðaldabörn, en um er að ræða fyrsta greinasafnið um íslensk börn á miðöldum.

Íslenskar fornsögur varðveita ógleymanlegar lýsingar á börnum. Hver man ekki eftir Agli Skalla-Grímssyni með reidda öxi yfir höfði leikfélaga síns eða eftir því hvernig Grettir Ásmundsson lék kjúklingana, Kengálu og föður sinn? Mynd sú sem íslenskar fornsögur draga upp af börnum er þó mun fjölbreyttari og margslungnari en þessi dæmi gefa til kynna. Í ritinu Miðaldabörn glíma sjö fræðimenn við spurningar um réttastöðu barna á miðöldum, hvernig börn voru skilgreind, og muninn á meðferð drengja og stúlkna.

Undanfarna áratugi hefur mikil umræða átt sér stað meðal erlendra fræðimanna um stöðu barna fyrr á öldum. Sú umræða hefur mikið gildi fyrir alla þá sem áhuga hafa á börnum og barnamenningu. Nú er hún orðin aðgengileg íslenskum lesendum.

Greinahöfundar eru Agnes S. Arnórsdóttir, Anna Hansen, Ármann Jakobsson, Ásdís Egilsdóttir, Brynhildur Þórarinsdóttir, Else Mundal og Gunnar Karlsson.

Ritstjórar Ármann Jakobsson og Torfi H. Tulinius.

Bókin er 142 síðna kilja og er fáanleg hjá Háskólaútgáfunni. Hún kostar 2.450 krónur. Einnig er hægt að kaupa bókina með afslætti á skrifstofu Hugvísindastofnunar.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is