Menningarsagnfræði

Laugardagur 26. mars kl. 10.30-16.30 í stofu 52 í Aðalbyggingu Háskólans

Málstofan veitir innsýn í rannsóknir íslenskra fræðimanna á þeim vettvangi sem kenndur er við menningarsögu eða menningarsagnfræði. Markmiðið er að bregða upp mynd af fræðavettangi sem hefur verið í mótun hér á landi á síðustu árum, með nýjum áherslum í söguritun innan ólíkra greina hug- og félagsvísinda. Í málstofunni kemur saman hópur fræðimanna sem hefur fengist við mismunandi svið innan þessa vettvangs og erindin koma úr ólíkum áttum. Fjölbreytilegar áherslur og viðfangsefni erindanna varpa ljósi á það margbrotna fræðasvið sem menningarsagnfræðin er, sem og þau átök sem jafnan má greina þegar tekist er á um menningarhugtakið bæði í íslensku og erlendu samhengi.

 

Málstofustjórar: Jón Karl Helgason, dósent í íslensku, Benedikt Hjartarson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði, og Heiða Jóhannsdóttir, doktorsnemi í kvikmyndafræði

 

Fyrirlesarar:

  • Benedikt Hjartarson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði: Frá fornöld til forhúðar. Hugrenningar um þróun og stöðu menningarsagnfræði
  • Valdimar Tryggvi Hafstein, dósent í þjóðfræði: Höfundur er óþekktur. Fjölsköpun, alþýðuhefðir og höfundaréttur
  • Ólafur Rastrick, doktorsnemi í sagnfræði: Um postulínshunda og verkefni íslenskrar menningarsagnfræði annó 1930

Hádegishlé

  • Þröstur Helgason, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði: Vaka og Vaki, upprisa og uppreisn – „svo náskyld orð“
  • Heiða Jóhannsdóttir, doktorsnemi í kvikmyndafræði: Rótað í kvikmyndaarkífunum: Heimsvaldadraumar í kvikmyndum Cadbury-fyrirtækisins
  • Jón Karl Helgason, dósent í íslensku: Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar

Kaffihlé

  • Sigurjón Baldur Hafsteinsson, lektor í safnafræði: Heimili höfundarins
  • Særún Magnea Samúelsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Pílagrímaferðir á söguslóðir. Arfleifðarfræðilegar vangaveltur um nýtingu Íslendingasagna í ferðaþjónustu
  • Irma Erlingsdóttir, lektor í frönsku og forstöðumaður EDDU – öndvegisseturs: Tungumál útlegðar. Um skrif alsírska rithöfundarins Assiu Djebar

 

Útdrættir:

 

Benedikt Hjartarson, aðjunkt í almennri bókmenntafræði og menningarfræði
Frá fornöld til forhúðar. Hugrenningar um þróun og stöðu menningarsagnfræði

Í erindinu verður litið yfir sögu menningarsagnfræði og reynt að varpa ljósi á stöðu fræðasviðsins í samtímanum. Með hliðsjón af nokkrum nýlegum yfirlitsritum, sem birst hafa á síðustu árum, verður tekist á við spurningar sem snúa að því hvernig saga og þróun fræðasviðsins er rakin á ólíkan hátt. Ólíkar myndir af sögu fræðasviðsins gegna jafnan því hlutverki að gera menningarsagnfræði að mikilvægum vettvangi fræðilegrar og sögulegrar endurskoðunar, þar sem ríkjandi söguskoðun er skoruð á hólm. Sameiginlegan þráð í þeim ritum sem felld eru undir hefð menningarsagnfræði, allt frá klassískri menningarsögu 19. aldar til nýlegra rita þar sem m.a. er fjallað um menningarsögu reðursins, fretsins og gaddavírsins, virðist helst að finna í uppgjöri menningarsagnfræðinnar við ríkjandi aðferðafræði í söguritun á hverjum tíma.

 

Valdimar Tryggvi Hafstein, dósent í þjóðfræði
Höfundur er óþekktur. Fjölsköpun, alþýðuhefðir og höfundaréttur

Hver eru þessi „höf. ók.“ og „trad. arr.“ sem svo víða virðast hafa stungið niður penna? Hvaða tilkall eiga þau til sinna verka? Hver á alþýðuhefðir og hvernig eignast menn þær? Í fyrirlestrinum kynni ég rannsóknarverkefni um hinn ókunna höfund sem beinir einkum sjónum að gráum svæðum á milli höfundarverka og hefðar. Rannsóknin skírskotar til sögu þessara hugtaka, þeirrar skipanar orðræðunnar sem þau tilheyra og höfundaréttarins sem bindur þá skipan í lög. Ég hef sérstakan áhuga á misræminu á milli margvíslegrar sköpunar sem við verðum vitni að allt í kringum okkur og svo þess tungumáls sem við höfum til að tala um þessa sköpun – ósamræminu milli orða og athafna. Markmiðin með rannsókninni eru að varpa ljósi á þverstæðukennt samband alþýðuhefða og höfundaréttar, auka skilning á því hvernig sköpunarkrafti er stýrt og miðlað í gegnum höfundarétt og skylda orðræðuskipan og bregða birtu á hvernig alþýðuhefðir draga mörk höfundargildisins og eiga þannig drjúgan þátt í merkingu þess.

 

Ólafur Rastrick, doktorsnemi í sagnfræði
Um postulínshunda og verkefni íslenskrar menningarsagnfræði annó 1930

Í erindinu verður tekinn útgangspunktur í hugmyndum sagnfræðingsins Þorkels Jóhannessonar um þau verkefni sem hann taldi að sinna þyrfti á sviði þjóðmenningarsögu og listasögu Íslands á árunum í kringum 1930. Einkum verður horft til þess félagslega hlutverks sem slíkar rannsóknir áttu að hafa og hvernig þær tengdust viðteknum umbótahugmyndum í íslensku samfélagi þessara ára um menningu, listir og framtíð íslensku þjóðarinnar og jafnframt hvaða hlutverki postulínshundar gegndu í því sambandi.

 

Þröstur Helgason, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði
Vaka og Vaki, upprisa og uppreisn – „svo náskyld orð“

Árið 1927 stofnaði hópur borgaralegra menntamanna tímaritið Vöku sem hafði það að markmiði að vekja þjóðina til vitundar um málstað sinn í sjálfstæðisbaráttunni. Flestir í þessum hópi voru áhrifmenn í samfélaginu en mest áberandi var Sigurður Nordal sem talaði fyrir þjóðernislega íhaldssamri menningarstefnu í tímaritinu. Réttum aldarfjórðungi seinna stofnuðu þrír ungir menn tímaritið Vaka sem var eins konar andsvar við menningarstefnu Nordals. Í erindinu verður ólík og að vissu leyti þversagnarkennd virkni þessara tímarita í íslensku menningarlífi skoðuð, meðal annars í ljósi hugtakanna „upprisa“ og „uppreisn“ sem Nordal sagði svo náskyld.

 

Heiða Jóhannsdóttir, doktorsnemi í kvikmyndafræði
Rótað í kvikmyndaarkífunum: Heimsvaldadraumar í kvikmyndum Cadbury-fyrirtækisins 

Frá því í árdaga kvikmyndalistarinnar hafa stofnanir og fyrirtæki nýtt sér möguleika miðilsins til hugmyndafræðilegrar mótunar, auglýsinga og áróðurs. Á undanförnum árum hafa kvikmynda- og sagnfræðingar í auknum mæli beint sjónum að iðnaðarkvikmyndinni og þætti hennar í framrás og mótun kapitalísks hagkerfis nútímans. Í fyrirlestrinum verður hugað að iðnaðarkvikmyndum í samhengi við víðtækan arf kvikmynda sem urðu til innan hugmyndafræðilegra og stofnanalegra vébanda breska heimsveldisins, en markviss söfnun og skráning á slíkum kvikmyndum hefur farið fram að undanförnu á vegum safnaverkefnsins Lifandi myndir breska heimsveldisins (Colonial Film: Moving Images of the British Empire). Rýnt verður í auglýsingakvikmyndir sem framleiddar voru á vegum stórfyrirtækisins Cadbury á fjórða áratug tuttugustu aldarinnar, en þá sótti fyrirtækið stærstan hluta hráefnis síns til nýlendna Breta í Vestur-Afríku. Fjallað verður um heimsvaldahugmyndir sem setja mark sitt á kvikmyndirnar og þær settar í samhengi við umbrotaása nútímavæðingarinnar á sviði vinnustjórnunar, tæknivæðingar og neyslumenningar.

 

Irma Erlingsdóttir, lektor í frönsku og forstöðumaður EDDU – öndvegisseturs
Tungumál útlegðar. Um skrif alsírska rithöfundarins Assiu Djebar

„Milli-tveggja-tungna“ (fr. l´entre-deux-langues) er meginhugtak í skáldskaparlist alsírska rithöfundarins Assiu Djebar. Hugtakið tjáir millirýmið sem tengir frönsku og arabísku. Assia Djebar hefur fjallað um flókin tengsl þess sem hún nefnir „málsnið útlegðarinnar“ og „tungumál hins ósmættanlega“ í fræðigreinum en þessi tengsl eru einnig efniviður skáldverka hennar. Móðurmál Assiu Djebar er arabíska. Djebar hlaut hins vegar menntun sína í franska skólakerfinu. Djebar hefur sagt að til þess að slíta af sér fjötra frönskunnar sé nauðsynlegt að beita hana ofbeldi, einkum með að tvítyngja hana, menga hana arabísku talmáli og marka hana þannig sporum þjóðar sinnar.

„Tungumál hins ósmættanlega“ stendur fyrir minningarnar sem Djebar skráir í tungumálið; hún fyllir frönskuna arabískum tungum, alsírskri menningu og sögu − þannig verður franskan „hennar“. Til þess að greina frá þessum minningum, segir Djebar nauðsynlegt að hrista af franskri tungu vafasamt ryk landvinninga, ofbeldis og blóðsúthellinga. Tungumál hins ósmættanlega er einnig „nei“ andstöðu, mótspyrnu og uppreisnar gegn þöggun á alsírskri sögu, menningu og arfleifð og ekki síst gegn ósýnileika alsírskra kvenna í sögunni og menningunni.

Höfð verður hliðsjón af hugtaki marokkóska rithöfundarins Abdelkebir Khatibi „tví-tunga“ (fr. bi-langue). Hann tengir þetta hugtak þýðingarhugtakinu og líkir starfi rithöfunda við starf þýðenda. Khatibi skrifar á frönsku en móðurmál hans er arabíska. Hann segir móðurmálið vera að verki í hinu erlenda máli og að á milli þessara tungumála eigi sér stað stöðug þýðing.

 

Jón Karl Helgason, dósent í íslensku
Dularfulla fánastangarmálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar

Að morgni hins 16. nóvember 1907, þegar menn hugðust draga upp fána í tilefni af aldarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, komust þeir að því að búið var að skera á bönd fjölmargra fánastanga í miðbæ Reykjavíkur. Í fyrirlestrinum verður þessi dularfulli „glæpur“ tekinn til rannsóknar og tengdur væntanlegri afhjúpun á styttu Jónasar síðar þennan sama dag, sem og flokkadráttum í íslenskum stjórnmálum á fyrstu árum heimastjórnarinnar.

 

Sigurjón Baldur Hafsteinsson, lektor í safnafræði
Heimili höfundarins

Á undanförnum áratugum hefur færst í vöxt að gera ævi og verkum rithöfunda skil með sýningum og opnun sérstakra safna í þeirra nafni. Oft eru þessar sýningar og söfn að finna á stöðum sem sagðir eru heimili höfundanna. Í þessu erindi verður sjónum beint að þeirri spurningu hvað hugmyndin um heimili þýðir og grennslast fyrir um menningarpólitískar rætur þeirrar áherslu. Lagt verður út af spurningunni með skoðun á nokkrum rithöfundasöfnum á Íslandi.

 

Særún Magnea Samúelsdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Pílagrímaferðir á söguslóðir: Arfleifðarfræðilegar vangaveltur um nýtingu Íslendingasagna í ferðaþjónustu

Arfleifðarfræði er þverfaglegt fræðasvið sem beinir athyglinni að miðlun hvers kyns menningararfs. Fræðigreinin snýst að mörgu leyti um hvaða þætti fortíðarinnar er kosið að nýta í þágu samtímans. Í fyrirlestrinum mun ég fjalla um nýtingu Íslendingasagna í ferða­þjónustu í fortíð og nútíð. Skoðuð verða valin dæmi um hvernig Íslendingasögum var miðlað til ferðamanna á 19. öld og einnig hvernig sögurnar eru nýttar nú á dögum í þágu sögutengdrar ferðaþjónustu. Þá verður gefinn gaumur að þeim órum sem reka fólk á sögu­slóðir Íslendingasagna og hvernig órarnir geta viðhaldið blætisdýrkun söguslóðanna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is