Máltileinkun: Íslenskuþorpið í reynd, málvíxl Dana og stöðupróf dönskunema

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 15.00-16.30.

 

 Í þessari málstofu á vegum Rannsóknarstofu í máltileinkun (RÍM) verður fjallað um annarsmálsfræði út frá mismunandi sjónarhornum. Umfjöllunin beinist að nemum í íslensku sem öðru máli sem hafa notið Íslenskuþorpsins í námi sínu við Háskóla Íslands; Dönum búsettum á Íslandi, orðafari þeirra og málvíxlum; og nýnemum í dönsku við Háskóla Íslands og forsendum stöðuprófa sem þeir þreyttu í upphafi námsins.

Íslenskuþorpið hefur nú verið reynt í kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands. Kynntar verða niðurstöður kannana á viðhorfum málnemanna til Íslenskuþorpsins og gildi þess í málanáminu. 

Tungutak Dana sem hafa verið búsettir á Íslandi um árabil verður einnig til umfjöllunar í málstofunni. Sjónum verður beint að orðafari og hugað þar að málvíxlum, þ.e. hvernig dönskum orðum og orðhlutum er blandað inn í íslenskan málgrunn og öfugt.

Dönskunemar við Háskóla Íslands verða jafnframt til umræðu. Stöðupróf í dönsku sem nýnemar þreyttu sl. haust var byggt á evrópska tungumálarammanum en rýnt verður nánar í hvað liggur að baki skilgreiningum á færniþætti ritunar í B2. 

Fyrirlesarar:

  • Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Íslenskuþorpið í reynd  viðhorf íslenskunema
  • Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli: Málvíxl hjá Dönum á Íslandi
  • Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku: Stöðupróf og Evrópuramminn

Málstofustjóri: María Anna Garðarsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli

 

Útdrættir:

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Íslenskuþorpið í reynd ─ viðhorf íslenskunema

Rannsóknir sýna að málnotkun er forsenda þess að fólk tileinki sér tungumál og að notkun málsins á fyrstu stigum getur flýtt fyrir frekara námi. Byrjendur í íslensku sem öðru máli nota nýja tungumálið nánast eingöngu í kennslustundum fyrsta árið. Það er hægara sagt en gert að byrja að nota íslensku úti í samfélaginu og raunar líklegt að enska verði ofan á í samskiptum við Íslendinga.

Með Íslenskuþorpinu hefur verið sköpuð nýstárleg leið til að gefa byrjendum í íslensku sem öðru máli við Háskóla Íslands kost á að þjálfa málnotkun við daglegar aðstæður utan kennslustofunnar. Í erindinu verður sagt frá helstu niðurstöðum kannana sem lagðar hafa verið fyrir hópa íslenskunema á tilraunatímabili Íslenskuþorpsins og rætt um viðhorf þeirra til þessarar námsleiðar.

 

Þóra Björk Hjartardóttir, dósent í íslensku sem öðru máli: Málvíxl hjá Dönum á Íslandi

Þekkt er sú ímynd af hinum gömlu Dönum hér á landi sem töluðu hvorki dönsku né íslensku heldur einhvern undarlegan blending af báðum málum. Í þessu erindi verður varpað upp fáeinum myndum af raunverulegu máli nokkurra Dana sem hér hafa verið búsettir um árabil eins og það birtist í viðtölum við þá um líf þeirra hér á landi. Sjónum verður beint að orðafari og hugað þar að málvíxlum, þ.e. hvernig dönskum orðum og setningabrotum er blandað inn í íslenskan málgrunn, og öfugt, og rýnt í hugsanlegar ástæður að baki slíkum víxlum.

 

Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku: Stöðupróf og Evrópuramminn

Haustið 2012 var sú nýbreytni tekin upp að nýnemar í dönsku við Háskóla Íslands þreyttu stöðupróf í lesskilningi og ritun við upphaf náms haustið 2012.  

Í erindinu verða forsendur stöðuprófanna og niðurstöður þeirra ræddar í ljósi hins evrópska matsramma (CEFR). Einkum verður ritunarþátturinn skoðaður og leitast við að greina það sem liggur að baki matinu. Vikið verður að því hvernig matsramminn hefur verið notaður í Finnlandi til að meta ritun í móðurmáli og erlendu máli hjá sama nemendahópi og athugað hvort draga megi lærdóm af því.

Þá verður rýnt í það hvort, og þá að hvaða marki stöðuprófið kann að hafa forspárgildi um árangur á desemberprófi sem metinn var á hefðbundinn hátt. 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is