Íslenskt táknmál: Myndir úr málsamfélaginu

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 13.00-14.30.

Málstofan verður túlkuð yfir á íslenskt táknmál.

Íslenska táknmálssamfélagið er málminnihluti á Íslandi og íslenskt táknmál minnihlutamál sem innan við 300 einstaklingar eiga að móðurmáli. Íslenska táknmálið getur enn talist lítt rannsakað en engu að síður hefur mikil aukning orðið þar á undanfarin ár og byggja fyrirlestrar málstofunnar á nýlegum eða yfirstandandi rannsóknum.

Í þessari málstofu verður fjallað um íslenska táknmálið út frá nokkrum sviðum málvísinda. Þótt orðmyndunarleiðir í táknmálum og raddmálum séu að mörgu leyti þær sömu, eru til leiðir sem eru einkennandi fyrir táknmál. Gerð verður grein fyrir þeim leiðum sem eru til orðmyndunar í íslenska táknmálinu. Nýlegar rannsóknir hafa leitt í ljós að grundvallarorðaröð íslenska táknmálsins virðist vera sú sama og í íslensku eða FSA og verður rætt um möguleg frávik frá henni og tilbrigði milli málhafa. Að lokum verður rætt um merkingu og uppruna svokallaðra lýsandi orða í íslenska táknmálinu og þau sett í samhengi við kenningar innan merkingarfræða. Fyrirlesarar eru allir aðilar að Rannsóknastofu í táknmálsfræðum sem starfar innan Málvísindastofnunar HÍ.

Fyrirlesarar:

  • Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði: Orðmyndunarleiðir í ÍTM og táknmálum almennt
  • Elísa G. Brynjólfsdóttir málfræðingur og Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslenskri málfræði: Grunnorðaröð í ÍTM
  • Þórhalla Guðmundsdóttir Beck málfræðingur: Í ríki myndanna. Um merkingu og uppruna lýsandi orða í táknmáli

Málstofustjóri: Kristín Lena Þorvaldsdóttir, málfræðingur á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

 

Útdrættir:

Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði: Orðmyndunarleiðir í ÍTM og táknmálum almennt

Orðmyndunarleiðir eins og samsetning og afleiðsla eru vel þekktar í mörgum tungumálum og það sama gildir um lán af ýmsu tagi, bæði aðkomuorð og tökuþýðingar, svo eitthvað sé nefnt.

Táknmál hafa sömu orðmyndunarleiðir og raddmál en þær eru þó misalgengar. Afleiðsla er til dæmis ekki algeng leið, öfugt við það sem við þekkjum úr íslensku. Táknmál hafa hins vegar nokkrar orðmyndunarleiðir sem ekki þekkjast í raddmálum og hefur miðlunarhátturinn eitthvað með það að gera. Þetta eru t.d. leiðir eins og lesgerð fingrastöfun, fingrastöfun að hluta og töluinnlimun.

Þó flestar þessara leiða þekkist í þeim táknmálum sem rannsökuð hafa verið þá eru þær misalgengar eftir málum. Afleiðsla sem þekkist í ASL og fleiri táknmálum og felur í sér að sögn er leidd af nafnorði er að því er virðist ekki til í ÍTM. Þá virðist fingrastöfun algengari í sumum táknmálum en öðrum og getur það haft áhrif á orðmyndunarleiðir. Margir fræðimenn telja að samsetningar séu algengasta leiðin til orðmyndunar og verður litið á þær sérstaklega.

 

Elísa G. Brynjólfsdóttir málfræðingur og Jóhannes Gísli Jónsson, aðjunkt í íslenskri málfræði: Grunnorðaröð í ÍTM

Nýlegar rannsóknir sýna að grunnorðaröð íslenska táknmálsins er sú sama og í íslensku eða FSA (Frumlag ─ sögn ─ andlag/fylliliður), a.m.k. í setningum með venjulegum sögnum. (Með svonefndum áttbeygðum sögnum og próformasögnum er orðaröðin hins vegar frjálsari.) Þetta er í samræmi við það sem vitað er um táknmál almennt en þau hafa annaðhvort FSA eða FAS sem grunnorðaröð. Í íslenska táknmálinu kemur grunnorðaröðin FSA bæði fram í setningum með aðalsögn og andlagi (JÓN BORÐA KEX) og setningum með hjálparsögn og aðalsögn (ÉG BÚINN BORÐA). Frávik frá þessari orðaröð eru möguleg undir vissum kringumstæðum, t.d. getur hjálparsögn komið á eftir aðalsögn (ÉG BORÐA BÚINN). Þar að auki er hægt að færa andlag með kjarnafærslu (KEX JÓN BORÐA) en þá fylgja sérstök látbrigði með andlaginu. Þá er spurnarfærsla andlags og sögn í öðru sæti (HVAÐ HEITA ÞÚ?) möguleg í máli ungra málhafa en ætla má að þar sé um áhrif frá íslensku að ræða.

 

Þórhalla Guðmundsdóttir Beck málfræðingur: Í ríki myndanna. Um merkingu og uppruna lýsandi orða í táknmáli

Lýsandi orð, oftast kennd við flokkara eða próform, eru mjög áhugavert fyrirbæri. Eins og önnur orð í táknmáli eru þau samansett úr handformi, afstöðu, hreyfingu, myndunarstað og látbrigðum, en yfirleitt eru það handformin sem kölluð eru flokkarar eða próform í þessum tilteknu orðum.

Hægt er að greina allar orðmyndunarbreytur lýsandi orða sem merkingarberandi, þar sem hver breyta samsvarar eigindi vísimiðs síns. Ef því fylgir að þau séu myndön veldur það því að táknmál virðast hafa tvöfalda orðmyndun, annars vegar takmarkaða raðbundna aðskeytamyndun með fáum greinanlegum myndönum og hins vegar hina frjóu samtímis myndun lýsandi orða, þar sem margs konar einingum er raðað saman mjög frjálslega.

Raunmerking hins lýsandi orðforms virðist vera eitthvert einkenni vísimiðsins. Vegna þess að margræðni finnst ekki í þessum orðum, einungis er hægt að nota lýsandi orð með áþreifanlegum hugtökum, og handform þeirra geta ekki táknað neitt annað en raunveruleg eigindi vísimiðsins, verður dregin sú ályktun að tilgangur þeirra sé fremur að lýsa en flokka. Form hinna lýsandi orða minnir á raddmálsfyrirbæri sem heitir hljóðmerking, en það er þegar ákveðin hljóð eða hljóðaklasar taka að sér að standa fyrir ákveðnar merkingar. Þessar hljóðmerkingarbreytur eru minni en myndön og hafa tengsl við sjónrænt form.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is