Íslenskt lýðræði: Vandi þess og verkefni

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-16.30.

Ein af meginniðurstöðum Vinnuhóps um siðferði og starfshætti á vegum rannsóknarnefndar Alþingis, sem hafði það hlutverk að skýra fall íslensku bankanna 2008, var að lýðræðislegir innviðir íslensks samfélags væru veikburða. Á málstofunni verða kynntar hugmyndir um rannsóknarverkefni á íslensku lýðræði sem fylgir þessari niðurstöðu siðferðishópsins eftir. Markmið verkefnisins er að leita dýpri og fjölþættari skýringa á þessari stöðu íslensks lýðræðis og að færa rök fyrir því hvernig styrkja megi lýðræðislega innviði samfélagins. Ætlunin er að rannsaka íslenskar lýðræðishugmyndir, ríkjandi skilning, starfsvenjur og gildi, út frá þrískiptingu Habermas á frjálslyndu, lýðveldissinnuðu og rökræðumiðuðu lýðræði. Tilgátan er sú að íslensk stjórnmálasaga frá lýðveldisstofnun byggi á blöndu af frjálslyndum og lýðveldissinnuðum skilningi á lýðræði. Rökræðumiðaður skilningur hafi á hinn bóginn verið sniðgenginn og það geti skýrt margt af því sem stendur íslensku lýðræði fyrir þrifum bæði fyrir og eftir hrun fjármálakerfisins. Verkefnið byggir á þverfaglegri nálgun sem sækir einkum til heimspeki, sagnfræði, stjórnmálafræði, stjórnsýslufræði, fjölmiðlafræði og kenninga um lýðræðismenntun. Rannsókninni er ætlað að greina bæði þau ferli sem voru hvað mest áberandi í stjórnmálum og stjórnsýslu fram að falli bankanna og þá félagslegu og stjórnmálalegu kreppu sem fylgdi í kjölfarið.

Málstofunni lýkur með pallborðsumræðum framsögumanna (30 mín.). Umræðum stýrir Henry Alexander Henrysson, sérfræðingur á Siðfræðistofnun.

Fyrirlesarar:

  • Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Rannsókn á íslensku lýðræði
  • Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði: Lýðræðishugmyndir og lýðveldisstjórnarskráin
  • Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Menntavísindasvið: Lýðræði og skóli
  • Þorbjörn Broddason, prófessor í félagsfræði og Ragnar Karlsson, doktorsnemi: Fjölmiðlarnir og lýðræðið
  • Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Þátttaka almennings í mótun stjórnarskrár

Málstofustjóri: Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki

 

Útdrættir:

Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki: Rannsókn á íslensku lýðræði 

Sagt verður frá rannsóknarverkefni um íslenskt lýðræði sem nýlega fékk styrk frá Rannís. Greint verður frá tilefni rannsóknarinnar, helstu markmiðum, aðferðum og þeim fræðilega ramma sem hún byggir á. Rannsóknin er þverfagleg: heimspekileg greining á lýðræðishugmyndum, sagnfræðileg greining á íslenskri lýðræðismenningu og þróun hennar, stjórnmálafræðileg greining á íslenskri stjórnsýslu og stjórnkerfi frá sjónarhóli lýðræðis, greining á lýðræðislegu hlutverki íslenskra fjölmiðla og greining á lýðræðismenntun borgaranna í fortíð, nútíð og framtíð.

 

Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði: Lýðræðishugmyndir og lýðveldisstjórnarskráin

Í erindinu verður fjallað um þær hugmyndir um útfærslu fulltrúalýðræðis sem greina má í opinberri umræðu í aðdraganda lýðveldisstofnunar. Fljótt á litið virðist hugmyndin um lýðræðislega stjórnarhætti einna helst hafa komið fram sem óljós hugsjón sem fyrst og fremst þjónaði þeim tilgangi að klekkja á pólitískum andstæðingum. Þó má greina tiltekna þræði sem teygja sig aftur í stjórnmálaumræðu millistríðsáranna og fram í umræðuna um íslenska stjórnskipun eftir seinna stríð.

 

Ólafur Páll Jónsson, dósent í heimspeki við Menntavísindasvið: Lýðræði og skóli

Í erindinu verður fjallað um lýðræðislegt hlutverk skóla. Fyrst verður farið stuttlega yfir það hvernig lýðræðislegt hlutverk skóla birtist í námskrám og lögum allt frá árinu 1974. Í framhaldinu verður spurt um hvaða hugmyndir eða kenningar um lýðræði megi greina í þessari sögu. Greinarmunur frjálslynds lýðræðis og rökræðulýðræðis verður síðan notaður til að fjalla á gagnrýninn hátt um hvers konar lýðræðislegt hlutverk skólar geta haft og ættu að hafa.

 

Þorbjörn Broddason prófessor í félagsfræði og Ragnar Karlsson, doktorsnemi: Fjölmiðlarnir og lýðræðið

Í erindinu verða reifaðar nútímakenningar um lýðræði, fjölmiðla og opinbera umræðu. Einkum verður farið í smiðju til Jürgens Habermas, sem greindi þrjú líkön eða kjörmyndir lýðræðis (frjálslyndis-, lýðveldis- og rökræðulíkanið) og til Hallins og Mancinis, sem hafa gert sambærilega þrígreiningu á fjölmiðlakerfum vestrænna lýðræðisríkja (frjálslyndi, stríðandi fjölræði og samstöðulýðræði). Fyrir okkur vakir að rannsaka hlutverk og hlutskipti íslenskra fjölmiðla á lýðveldistímanum, meðal annars í ljósi ofangreindra hugmynda.

 

Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar: Þátttaka almennings í mótun stjórnarskrár

Krafa um aukna þátttöku almennings í opinberum ákvörðunum hefur birst með margvíslegum hætti á síðustu misserum. Eitt skýrasta dæmið er endurskoðunarferill stjórnarskrárinnar með þjóðfundi og stjórnlagaþingi/ráði. Í þessum fyrirlestri verður fjallað um áhrif þessa ferils á íslensk stjórnmál. Einkum verður fjallað um vinnu  stjórnlagaráðs og samspil þess við stjórnvöld og einnig þær viðtökur sem frumvarp stjórnlagaráðs hefur fengið á vettvangi stjórnmálanna.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is