Íslenska sem annað mál innan og utan kennslustofunnar

Laugardagur 26. mars kl. 15.00-16.30 í stofu 51 í Aðalbyggingu Háskólans

Á undanförnum árum hafa rannsóknir á íslensku sem erlendu máli aukist til muna. Í þessari málstofu á vegum Rannsóknastofu í máltileinkun verða kynntar nýjar rannsóknir á því hvernig fullorðnir nemendur byggja upp íslenskt málkerfi og finna leiðir til að nota málið utan og innan kennslustofunnar.

Fyrirlestrar verða eilítið styttri en í öðrum málstofum.

Málstofustjóri: Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum

 

Fyrirlesarar:

  • Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Aðferðir málnema til að byggja upp orðaforða í íslensku sem öðru máli
  • Guðrún Theodórsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli: Aðferðir erlendra íslenskunema til að fá að taka þátt í samræðum á íslensku
  • María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli: Tengsl stíls og málfræðilegrar færni í íslensku millimáli
  • Jón Gíslason, stundakennari í íslensku sem öðru máli: Framburðargildrur

 

Útdrættir:

 

Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Aðferðir málnema til að byggja upp orðaforða í íslensku sem öðru máli 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um rannsókn á því hvernig málnemar í íslensku sem öðru máli byggja upp orðaforða sinn. Þar var þess freistað að fá þátttakendur til að skoða meðvitað eigin skynjun og aðferðir við tileinkun nýja tungumálsins. Kostir hinnar eigindlegu rannsóknar­aðferðar voru þannig nýttir til að nálgast tileinkunarferlið út frá daglegu lífi og reynslu málnemanna. Niðurstöðurnar sýna m.a. fram á að þeir hafa ríka þörf fyrir og leita markvisst leiða til að æfa íslenskuna utan kennslustofunnar og gera sér far um að komast í samband við innfædda til að auka færni sína og byggja upp sjálfstraust til að nota málið.

 

Guðrún Theodórsdóttir, aðjunkt í íslensku sem öðru máli
Aðferðir erlendra íslenskunema til að fá að taka þátt í samræðum á íslensku

Það er ekki víst að þeir sem eru að læra íslensku sem annað mál fái tækifæri til að tala íslensku við Íslendinga utan kennslustofunnar. Erlendir stúdentar í íslenskunámi við HÍ hafa lengi kvartað yfir því að Íslendingar vilji tala ensku við þá. Nýjar rannsóknir (Guðrún Theodórsdóttir, 2010) sýna að það eru íslenskunemarnir sjálfir sem bera ábyrgð á því að íslenska sé notuð í samskiptum við þá. Í þessu erindi verða sýnd nokkur dæmi um þær aðferðir sem erlendur nemi notar til að fá að tala íslensku við Íslendinga.

 

María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli
Tengsl stíls og málfræðilegrar færni í íslensku millimáli

Flestir málnemar þekkja þær aðstæður í námi sínu þar sem þeim finnst þeir tala hálfgert barnamál og finna fyrir óþolinmæði gagnvart því að geta ekki tjáð sig á jafn flóknu máli og þeir gera í móðurmáli sínu. Sumir málnemar virðast yfirvinna þessar aðstæður með því að láta vaða og nota mál sem er komið fram úr málfræðilegri hæfni. Í máli annarra virðist þetta fylgjast betur að; málfræðileg hæfni og textagerð haldast í hendur. Þriðji hópurinn er svo málnemar sem eru varkárari og taka enga áhættu og nota mál sem endurspeglar ekki málfræðilega hæfni þeirra. Í þessum fyrirlestri verða skoðuð tengsl málfræðilegrar hæfni annars vegar og þess hversu flókna textagerð málnemar nota hins vegar. Til þess að mæla málfræðilega hæfni er notast við mælikvarða úrvinnslukenningar Pienemanns (1998). Til að mæla textagerðina verða eftirfarandi atriði skoðuð: lengd setninga, fjöldi undirskipaðra setninga og notkun orðflokka.

 

Jón Gíslason, stundakennari í íslensku sem öðru máli
Framburðargildrur

Þeir sem ekki hafa íslensku að móðurmáli og vilja fræðast um framburð íslenskra orða geta flett upp framburði í Blöndalsorðabók (frá 1920-24) og í Íslensk-rússneskri orðabók (frá 1962) þar sem uppflettiorð eru öll hljóðrituð. Nemendur nota þó fyrrnefndar orðabækur tæplega mikið, nema helst rússneskumælandi nemar þá íslensk-rússnesku og hjálpar til að hún er aðgengileg á netinu, þar að vísu án hljóðritunar.

Í þessu erindi ætla ég að fjalla um í hvaða orðum framburður er ekki fyrirsegjanlegur þeim sem læra íslensku sem annað mál. Í framhaldi af því vaknar sú spurning hvort ekki væri gagnlegt að fleiri orðabækur sýndu framburð orða. Samantekt um slík orð myndi einnig nýtast þeim sem fást við að kenna íslensku sem annað mál.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is