Íslands þúsund ár: Kristni í íslenskum bókmenntum frá Völuspá til Nonnabókanna

Laugardagur 26. mars kl. 10.30-12.00 í stofu 218 í Aðalbyggingu Háskólans

Þótt kristin ritning og kristinn átrúnaður séu meginstef íslenskra bókmennta frá upphafi þeirra hefur furðu lítið farið fyrir því efni í bókmenntarannsóknum síðari tíma. Í málstofunni munu fjórir fræðimenn, tveir trúarbragðafræðingar og tveir bókmenntafræðingar, glíma við túlkun kristinna bókmenntatexta frá íslenskum miðöldum og fram til nútíma.

Þrjú síðustu erindin verða heldur styttri en í öðrum málstofum og umræður um þau öll í lok málstofunnar.

Málstofustjóri: Gottskálk Jensson, prófessor

Fyrirlesarar:

  • Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum: Fíkjutré og frjáls vilji: Um trúskipti í Nonnabókum Jóns Sveinssonar
  • Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum: Trúarleg stef upplýsingarinnar í veraldlegum bókmenntum 19. aldar á Íslandi
  • Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði: Visiones Gunnlaugs Leifssonar, enn eitt glatað íslenskt latínurit frá miðöldum
  • Pétur Pétursson, prófessor í praktískri guðfræði: Ný öld eða eldur? Um túlkun Sveinbjarnar Egilssonar á Völuspá 55,5-8

 

Útdrættir:

 

Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum
Fíkjutré og frjáls vilji: Um trúskipti í Nonnabókum Jóns Sveinssonar

Nonnabækurnar tólf eru bernskuminningar og ferðabækur höfundarins Jóns Sveinssonar (1857-1944) sem ólst upp frá tólf ára aldri meðal kaþólikka og jesúíta. Sjálfur snerist hann til kaþólskrar trúar og gerðist jesúíti. Í fyrirlestrinum verður fjallað um trúskipti Nonna í Nonnabókunum út frá kenningum táknfræðingsins Massimos Leone (2004) sem lítur á trúskipti sem sögu sem trúskiptingar segja hvað eftir annað til að styrkja eigin sjálfsmynd og eyða allri tilfinningu fyrir andlegu ójafnvægi. Hvaða hlutverki gegnir saga trúskiptanna í Nonnabókunum fyrir þá mynd sem Jón Sveinsson dregur upp af sjálfum sér? Er trúskiptum hans lýst sem brotthvarfi frá syndugu líferni og upphafi nýs og betra lífs eða sem einhverju öðru?

 

Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum
Trúarleg stef upplýsingarinnar í veraldlegum bókmenntum 19. aldar á Íslandi

Í þessu erindi verður sérstaklega fjallað um áhrif upplýsingarinnar á umbreytingu hinnar kristnu mýtu og þá sérstaklega mýtunnar um krossinn sem Hallgrímur Pétursson (1614-1674) hóf til hæstra hæða í anda lúterska rétttrúnaðarins. Áhrif frjálslyndu guðfræðinnar verða hér skoðuð, einkum í verkum eftir Jón Espólín (1769-1836) og Jón Thoroddsen (1818-1868). Ólíkar guðfræðilegar áherslur í þessum stefnum verða skoðaðar frá sjónarhóli nútímakenninga í mannfræði og félagsvísindum.

 

Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði
Visiones Gunnlaugs Leifssonar, enn eitt glatað íslenskt latínurit frá miðöldum

Skömmu fyrir 1200, um það leyti sem Þorlákur Þórhallsson (1133 - 23. des. 1193) var tekinn í tölu heilagra manna, skrásetti Gunnlaugur Leifsson, munkur á Þingeyrum, Visiones (Vitranir) fólks sem hafði dreymt eða að öðru leyti upplifað Þorlák framliðinn. Að sögn B-gerðar Þorláks sögu á norrænu, sem bróðir Bergur Sokkason tók saman um 1350, réðst Gunnlaugur í skrifin að undirlagi Guðmundar Arasonar, síðar biskups, og samdi ritið á latínu. Í erindinu verður safnað saman úr ýmsum áttum því efni sem virðist eiga uppruna í riti Gunnlaugs og þess freistað að lýsa þessum glataða íslenska latínutexta, innihaldi hans og tilgangi.

 

Pétur Pétursson, prófessor í praktískri guðfræði
Ný öld eða eldur? Um túlkun Sveinbjarnar Egilssonar á Völuspá 55,5-8

Í Lexicon Poeticum (1860) segir Sveinbjörn Egilsson að orðið 'aldurnari' í fimmtugasta og fimmta erindi Völuspár merki eldur. Þar stendur: „Geisar eimi / við aldurnara, / leikur hár hiti / við himin sjálfan.“ Allir síðari tíma útgefendur og þýðendur kvæðisins fylgja í fótspor hans, nema Gísli Sigurðsson (1998) sem telur orðið merkja ask yggdrasils. Í fyrirlestrinum er því haldið fram að Sveinbjörn fari yfir lækinn til að sækja vatnið þegar hann útskýrir orðið með tilvísan í arameísku og arabísku. Völuspá tilheyrir kvæðahefð spákvenna (sibyllur) fornaldar um komu voldugs dómara af himni í mikilli styrjöld við endalok heims. Þessi hefð rann síðar saman við kristnar bókmenntir. Auk þess endurspeglar margt í Völuspá biblíulegt myndmál um hina síðustu tíma og því er mun nærtækara að 'aldurnari' sé frumleg norræn Kristskenning. Í því menningarpólitíska og trúarlega umhverfi sem Sveinbjörn lifði og hrærðist í var það aftur á móti ekki til siðs að blanda saman stefjum úr kristnum og heiðnum bókmenntum eins og tíðkast hafði mörgum öldum fyrr. Sveinbjörn Egilsson var vandur að virðingu sinni sem konunglegur embættismaður enda bar hann ábyrgð á guðfræðimenntuninni í landinu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is