
Stjórn 2020-2021 skipa
- Júlía G. Hreinsdóttir, fagstjóri íslensks táknmáls á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, julia@shh.is
- Rannveig Sverrisdóttir, lektor í táknmálsfræði við Háskóla Íslands, rannsve@hi.is
- Nedelina Ivanova, fagstjóri rannsókna á Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, nedelina@shh.is
- Innan rannsóknastofunnar eru unnin ýmis verkefni sem snúa að íslensku táknmáli og menningu döff
- Aðilar rannsóknastofunnar tóku á árunum 2011-2015 þátt í evrópska verkefninu SignGram sem styrkt var af COST. Markmið verkefnisins var að varpa ljósi á málfræði táknmála og gefa út bók sem gæti nýst sem grunnur fyrir málfræðinga og aðra sem rannsaka vilja málfræði táknmála (sjá hér upplýsingar á alþjóða táknun). Bókin er í opnum aðgangi og má finna hér
- Í júní 2017 var FEAST ráðstefnan haldin í Reykjavík og sáu aðilar rannsóknastofunnar um skipulagningu. Ráðstefnan var í samvinnu við SIGN-HUB verkefnið
- Á síðunni SignWiki má lesa ýmsar greinar um táknmál
- Málfræðirannsóknir sem gerðar hafa verið á íslenska táknmálinu má finna hér
Markmið Rannsóknastofu í táknmálsfræðum er að stuðla að auknum rannsóknum á táknmáli, táknmálssamskiptum, túlkun, málþroska táknmálstalandi barna og kennslufræði táknmáls og táknmálstúlkunar og samvinnu milli þeirra sem þær stunda til að tryggja sem besta nýtingu þekkingar og fjármuna. Þessum markmiðum hyggst rannsóknastofan einkum ná með því að:
- Hafa samráð um skipulagningu rannsóknarverkefna þannig að þau styrki hvert annað
- Vinna sameiginlega að einstökum rannsóknarverkefnum
- Vinna sameiginlega að söfnun gagna og þekkingar sem nauðsynleg eru fyrir rannsóknir á táknmáli og nýtast m.a. við gerð námsefnis og táknmálsorðabókar
Rétt til aðildar að stofunni eiga fræðimenn innan Málvísindastofnunar og Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra sem stunda rannsóknir á táknmáli, táknmálssamskiptum, túlkun, málþroska táknmálstalandi barna og kennslufræði táknmáls og táknmálstúlkunar. Heimilt er stjórn stofunnar að veita öðrum fræðimönnum, sem þess óska, aðild, jafnt þeim sem starfa innan Hugvísindasviðs sem utan.
Rannsóknastofan skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til eins árs í senn á aðalfundi. Stjórnarseta er ólaunuð. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður vera fastur starfsmaður Hugvísindasviðs. Stjórn Rannsóknastofu skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Málvísindastofnun upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.
Rannsóknir innan Rannsóknastofu í táknmálsfræðum eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. Stofan nýtur ekki fastra fjárframlaga frá Hugvísindasviði, Hugvísindastofnun eða Málvísindastofnun, en getur sótt um starfstengda styrki. Málvísindastofnun veitir stofunni aðstöðu og hlutdeild í fjárveitingu sem tengist verkefnum innan stofunnar, eftir því sem henni er kleift og stjórn ákveður.
Reglur Rannsóknastofu í táknmálsfræðum eru staðfestar af stjórn Málvísindastofnunar.