
Markmið Rannsóknastofu í máltileinkun eru
- Efla þverfaglegt rannsóknar- og þróunarsamstarf, innlent og alþjóðlegt, á sviði annarsmálsfræða
- Koma á fót gagnagrunni um tileinkun máls og menningar og safna upplýsingum um slík rannsóknargögn
- Miðla þekkingu á annarsmálsfræðum, t.d. með umræðufundum, málþingum og útgáfu nettímarits
- Stuðla að bættum ritakosti á fræðasviðinu
Rétt til aðildar að stofunni eiga fræðimenn innan Málvísindastofnunar, Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Tungumálamiðstöðvar HÍ og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem stunda rannsóknir á sviði annarsmálsfræða, tvítyngis, tileinkunar máls og menningar og rannsóknir á kennslu í öðru máli og þróun námsefnis.
Heimilt er stjórn stofunnar að veita öðrum fræðimönnum, sem þess óska, aðild, jafnt þeim sem starfa innan Hugvísindasviðs sem utan.
Rannsóknastofan skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til eins árs í senn á aðalfundi. Stjórnarseta er ólaunuð. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður vera fastur starfsmaður Hugvísindasviðs.
Stjórn Rannsóknastofu skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Hugvísindastofnun upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.
Rannsóknir innan RÍM eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. RÍM nýtur ekki fastra fjárframlaga frá Hugvísindasviði eða Hugvísindastofnun, en getur sótt um starfstengda styrki.
Reglur Rannsóknastofu í máltileinkun voru staðfestar af stjórn Hugvísindastofnunar 17. febrúar 2010.