Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita einstökum félögum styrk til útgáfu ritrýndra fræðirita. Fjárhæð styrksins fer eftir umfangi rits og fjárhag stofnunarinnar hverju sinni. Getið skal um styrkveitinguna í inngangi rits eða á annan hátt í samráði við stjórn. Að öðru leyti skal stjórn og styrkþegi gera með sér samkomulag um hvort Guðfræðistofnun standi sem útgefandi eða meðútgefandi rits.
Guðfræðistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem fram kemur við styrkveitingu.
Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita einstökum félögum sem standa fyrir fjölþjóðlegum ráðstefnum á fræðasviði sínu styrk vegna ráðstefnunnar. Fjárhæð styrksins fer eftir umfangi ráðstefnu og fjárhag stofnunarinnar hverju sinni. Getið skal um styrkveitinguna í samráði við stjórn. Að öðru leyti skal stjórn og styrkþegi gera með sér samkomulag um hvort Guðfræðistofnun standi sem aðstandandi ráðstefnunnar.
Guðfræðistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem fram kemur við styrkveitingu.
Stjórn stofnunarinnar er heimilt að veita einstökum félögum styrki vegna ferða er tengjast rannsóknum og/eða samstarfi á fræðasviði þeirra. Ekki er nauðsynlegt að styrkurinn tengist fyrirlestri. Styrkurinn getur að hámarki numið kr. 50.000 á hverju almanaksári.
Sækja skal um styrk að ferð lokinni og láta dagskrá ráðstefnu eða fundar fylgja umsókn.
Guðfræðistofnun leitast við að styrkja doktorsnema á lokastigi náms. Hægt er að sækja um allt að þriggja mánaða styrk til að búa doktorsritgerð í hendur andmælenda, eða allt að þriggja mánaða styrk til að bregðast við lokaathugasemdum doktorsnefndar og andmælenda. Styrkurinn getur að hámarki verið til þriggja mánaða.
- Við styrkveitingu í fyrra tilvikinu skal miðað við að fyrir liggi rökstutt álit doktorsnefndar þess efnis að ritgerð sé hæf til varnar
- Leiðbeinandi skal sækja um styrk fyrir hönd doktorsnema
- Styrkfjárhæð er háð fjárhag stofnunarinnar hverju sinni og er upphæðin fyrir hvern mánuð ákvörðuð með hliðsjón af öðrum styrkjum sem doktorsnemum standa til boða
- Að öllu jöfnu greiðast þessir styrkir úr Starfssjóði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands
*Ath. Reglur þessar verða endurskoðaðar á næsta ársfundi ef fjárhagsstaða stofnunarinnar gefur tilefni til þess.