Innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar fer fram fjölbreytt fræða- og rannsóknastarf. Afrakstur þessara rannsókna birtist árlega í bókum, greinum og ritgerðum.
Rannsóknir á sviði hugvísinda hafa lengstum verið einyrkjastarf – fræðimaðurinn hefur glímt við rannsóknir sínar einn og óstuddur. Á seinustu árum hefur þó samstarfsverkefnum á sviði hugvísinda farið ört fjölgandi. Þau verkefni eru þá oft unnin í tengslum við einhverja af þeim rannsóknastofnunum sem starfa innan Háskólans.
Upplýsingar um birt rit kennara má fá í Ritaskrá Háskóla Íslands en prófritgerðir nemenda eru varðveittar í Skemmunni.
Þverfaglegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár
Árið 2017 verður þess minnst að 500 ár verða liðin frá upphafi lúthersku siðaskiptanna en þau hafa sett mark sitt ekki aðeins á trúar- og kirkjulíf í Evrópu og víðar um heim heldur jafnframt menningu, samfélag og jafnvel stjórnmál.
Í tilefni af þessum tímamótum hefur Guðfræðistofnun HÍ stofnað til þverfaglegs rannsóknarverkefnis um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár. Felur það í sér rannsóknir á vettvangi guðfræði, sagnfræði, félagsfræði og fleiri sviðum hug- og félagsvísinda, sem og þverfræðilegar rannsóknir af ýmsum toga. Markmiðið með verkefninu er að koma á víðtæku samstarfi þeirra sem áhuga hafa á slíkum rannsóknum, gangast fyrir málþingum, málstofum og semínörum, sem og stuðla að útgáfu.
- Nú tengjast alls 38 einstaklingar verkefninu.
- Vefsíða verkefnisins