Iceland – Niceland – Disneyland: Frá verufræði til verkefna í ferðaþjónustu

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 10.00-12.00.

Þessi málstofa snýst um hvort – og þá hvernig – ferðaþjónustan er að breyta íslensku samfélagi í gegnum markaðssetningu á menningu og náttúru, ímyndasköpun og vörumerkjavæðingu. Markmið málstofunnar er að ræða þann nýja veruleika sem er mögulega að verða til í kjölfar vaxandi umfangs ferðaþjónustu, hvar merki hans er að finna, hvernig þau birtast og hvernig má greina þau. Erindi á málstofunni ganga út frá því hvernig upplifun og skilningur ferðafólks á ferðum sínum er túlkaður og hagnýttur af markaðsfólki greinarinnar og hvernig það svo reynir að sníða landið og íbúa þess í mót þeirra hugmynda. Raun og vera fólks á ferð og flugi verður þannig verkfæri í höndum fólks í viðskiptum og er markmið málstofunnar að skilja hvaða þýðingu það hefur fyrir land og þjóð. 

Fyrirlesarar:

  • Björn Þorsteinsson, sérfræðingur við Heimspekistofnun: Flóttaleiðir: Náttúran sem rísóm
  • Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: Markaðsvirði landslags?
  • Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í land- og ferðamálafræði: Rúnkadúnkadúnk: Rannsókn margfaldra veruleika áfangastaðar
  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði: Veruleikinn í Ríki Vatnajökuls – WOW!

Málstofustjóri: Hildigunnur Sverrisdóttir, aðjunkt í arkitektúr, Listaháskóla Íslands

 

Útdrættir:

Björn Þorsteinsson, sérfræðingur við Heimspekistofnun: Flóttaleiðir: Náttúran sem rísóm

Í Þúsund flekum (Mille plateaux), síðara bindi stórvirkis síns um kapítalisma og kleyfhugasýki, gera Gilles Deleuze og Félix Guattari greinarmun á tvenns konar rými, rákuðu rými (fr. espace strié) og sléttu eða samfelldu rými (fr. espace lisse). Hið fyrrnefnda kenna þeir meðal annars við ríkisbáknið en hið síðarnefnda við hinn líffæralausa líkama eða „stríðsvélina“. Með öðrum orðum (og svo gripið sé til hugtaka sem Deleuze og Guattari móta í innganginum að Þúsund flekum) tengist hið rákaða rými trénu en hið slétta og fellda rými tengist rísóminu (eða rótarflækjunni).

Í þessari nokkuð óvenjulegu hugtakaseríu býr tækjabúnaður til greiningar á möguleikanum á ferðamennsku utan vébanda hins skipulagða og gróðasækna – túrisma án túrisma. Í erindinu verður þess freistað að varpa ljósi á þessa möguleika með tilvísun til skrifa ýmissa íslenskra og erlendra fræðimanna um efnið. Til grundvallar liggur sú sannfæring Deleuze og Guattari að flóttaleiðir út úr hinu reitaskipta rými, þar sem allt er njörvað niður í þágu auðmagnsvélarinnar, séu alltaf að myndast – í það minnsta jafn lengi og náttúran (þarna úti, og hið innra) heldur áfram að sá sér út – eins og mosi, eins og rótarflækja, eins og rísóm.

 

Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: Markaðsvirði landslags?

Erindið fjallar um landslag eins og það er kynnt erlendu ferðafólki og nýjar hugmyndir um hvernig má ljá fyrirbærum náttúrunnar rödd, sérstaklega er kemur að því að gera áhrif loftslagsbreytinga sýnileg. Landslag og möguleg rödd þess verður með þessum hugmyndum gjaldgengt hvort heldur er til sölu sem upplifun eða pólitískt vogarafl á hinum nýju „manntímum“ (e. anthropocene). Markmið erindisins er að tengja þessar hugmyndir, og aðrar sem við kunnum að hafa um landslag, við hina nýju manntíma og gera sýnilega þá vinnu sem fer í að toga landslag til í hið gjaldgenga form. Þannig mun erindið draga fram hlutverk jarðarinnar í myndun og mótun hugmynda okkar um hana og byggja til þess á myndmáli grannfræði (e. topology). Með því er mætt einni helstu áskorun manntímans, sem felst í að búa til nýjar hugmyndir og tæki til að fást við samband manns og náttúru sem hefðir vestrænnar tvíhyggju hafa leitt í blindgötu. Þannig fæst skilningur á samfellda og heila veru okkar og jarðar, en um leið verður landslag aðeins birting tímabundinnar aðgreiningar frá þessari veru, aðgreiningar sem krefst vinnu og er aldrei fullkomlega möguleg. Krafan um markaðsvirði, söluvænleik og að landslag geti verið verkfæri til að koma á framfæri skilningi á loftslagsvá eru tjáningarþörf nútímans og aðeins ein möguleg tjáning af mörgum. Vitundin þar um og tækin til að sjá landslag sem heild gefa tilefni til að setja spurningarmerki við markaðsvirði.

 

Gunnar Þór Jóhannesson: lektor í land- og ferðamálafræði:Rúnkadúnkadúnk: Rannsókn margfaldra veruleika áfangastaðar

Titill erindisins tengist lagi Emiliönu Torrini, „Jungle Drum“ sem þjónaði sem hljóðrás í einu þekktasta landkynningarmyndbandi Íslands í seinni tíð í Inspired by Iceland-herferðinni. Henni var hleypt af stokkunum vorið 2010 í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli sem truflaði verulega flugsamgöngur í Evrópu eins og þekkt er. Lagið og myndbandið við það gefa ákveðna hugmynd um veruleika og mótun áfangastaðarins Íslands. Fólk dansar, hoppar af kæti og fer flikk-flakk svo dæmi séu tekin sem vekur hugrenningartengsl við ólgandi kraft og andagift, samanber yfirskrift markaðsátaksins.

Ástralski fræðimaðurinn Adrian Franklin hefur haldið því fram að gagnlegt sé að greina ferðaþjónustu og skipandi áhrif hennar á svæði og samfélög sem dans. Dans ferðaþjónustu hefur þó ekki endilega neinn tiltekinn stjórnanda eða höfund og er því ávallt háður spuna að einhverju leyti. Franklin byggir á aðferðafræðilegri nálgun gerendanetskenningarinnar (Actor-Network Theory) að ferðaþjónustu sem hefur einnig dregið fram hvernig sérhver skipun er afurð tengsla og athafna margleitra gerenda. Þættir sem okkur er tamt að skipta í efnislega og huglæga tvinnast hér saman og jafnframt birtist veruleikinn sem margfaldur í roðinu. Það hvaða útgáfa hans er ráðandi er komið undir því sem kallað hefur verið verufræðileg pólitík (ontological politics).

Í erindinu mun ég beina sjónum að hvernig hægt er að rannsaka áfangastað og sköpun hans út frá hugmyndum um skipun og verufræðilega pólitík.  Frumskógartrumbu-dans fyrrnefnds myndbands er hér aðeins í hlutverki kveikju að vangaveltum um aðferðafræðilega nálgun til að lýsa veruleikum íslenskrar ferðaþjónustu eða ríkjandi kóreografíu hennar. Erindið hefst á stuttri umfjöllun um hvernig líkindi hafa verið dregin á milli dans, iðkunar ferðamennsku og skipulags ferðaþjónustu. Ég mun því næst gera grein fyrir einkennum gerendanetskenningarinnar ásamt möguleikum og takmörkunum þessarar nálgunar fyrir rannsóknir á ferðaþjónustu. Að lokum velti ég upp spurningum um stöðu og hlutverk rannsakanda sem hyggst lýsa „danssporum“ ferðaþjónustu með tækjum gerendanetskenningarinnar.

 

Þorvarður Árnason, forstöðumaður, Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Hornafirði: Veruleikinn í Ríki Vatnajökuls – WOW!

Ferðaþjónusta hefur vaxið mjög hratt á Íslandi á undanförnum 2-3 áratugum og raunar aldrei hraðar en á allra síðustu árum. Umræða um vöxt ferðaþjónustugeirans hefur verið tiltölulega einhæf – annars vegar hefur mest verið rætt um jákvæð áhrif vaxtarins á þjóðarbúið og hins vegar um neikvæð áhrif hans á helstu auðlind greinarinnar – náttúru landsins. Lítil umræða hefur átt sér stað um samfélagsleg áhrif (sí)aukinnar ferðaþjónustu, hvort heldur jákvæð eða neikvæð, og mætti af þeirri þögn ætla að ferðaþjónustan kæmi íslensku samfélagi ekkert við, ólíkt öðrum undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Í erindinu verða leidd rök að því að „vertíðarstemmningin“ í íslenskri ferðaþjónustu sé liðin undir lok og að löngu sé orðið tímabært að skoða þann nýja veruleika sem er og hefur verið að skapast hér á landi fyrir tilstuðlan vaxandi ferðaþjónustu með opnum en gagnrýnum huga. Reynt verður að rissa upp helstu drætti þessa nýja íslenska veruleika með tilvísun í samhliða þróun samfélags og ferðaþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði  eða Ríki Vatnajökuls – WOW! öðru nafni  á síðastliðnum 10 árum. Jafnframt verður gerð tilraun til að greina stöðu mála á landinu í heild og þá um leið spurt hversu útbreiddur og/eða varanlegur hinn nýi (meinti) veruleiki kann að vera orðinn. Loks verða settar fram hugmyndir um öðruvísi akademískar starfsaðferðir og/eða aðferðafræðilegar nálganir sem ástæða gæti verið til að þróa þannig að hægt væri að takast á við þennan nýja veruleika og jafnvel hafa áhrif á mótun hans, með samstarfi við þá aðila sem mestan hag – og ábyrgð – bera af uppbyggingu greinarinnar.

 

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is