Hugvísindaþing 2010 var haldið dagana 5. og 6. mars í Aðalbyggingu Háskólans. Boðið var upp á tæplega 130 fyrirlestra í fjölmörgum málstofum, auk þess sem rannsóknir voru kynntar á veggspjöldum.
Efni fyrirlestranna spannar vítt svið og endurspeglar fjölbreytni í rannsóknum á Hugvísindasviði.
Dagskrá og útdráttur úr fyrirlestrum (.pdf 348 kb)
Fyrirlesarar (.pdf 31kb)
Veggspjöld
Upphafsmálstofa þingsins var „Gagnrýnið háskólasamfélag?
Ábyrgð og hlutverk háskóla á breytingatímum“
Hvaða hlutverki eiga háskólar að gegna við endursköpun samfélagins? Á upphafsmálstofu Hugvísindaþings 2010 tókust fjórir af kennurum Háskólans á við lykilspurningar um ábyrgð og gagnrýnihlutverk háskóla í samfélaginu. Hverjar eru siðferðilegar skyldur fræðimanna gagnvart vísindagreinum sínum og viðfangsefnum, sem og gagnvart samfélaginu þar sem þeir starfa? Hvenær og hvernig á háskólakennarinn að tjá sig á opinberum vettvangi? Mælir hann á eigin vegum eða fyrir hönd vinnuveitenda sinna? Á undanförum árum hefur oft reynt á þátttöku og þjónustu vísindamanna á vettvangi mikilla hagsmuna og hagsmunaárekstra. Hverjum þjóna háskólamenn við slíkar aðstæður? Getur fræðimaðurinn verið frjáls og háskólinn sjálfstæður? Á ögurstund í þjóðfélaginu, þegar margir telja róttækt uppgjör brýnt og nýja samfélagssýn bráðnauðsynlega, þarf háskólasamfélagið að takast á við slíkar spurningar. Margt verður að skoða í ljósi reynslunnar en jafnframt þarf að horfa fram á veginn.
Frummælendur voru:
Irma Erlingsdóttir, lektor í frönsku og forstöðumaður Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum.
Jón Torfi Jónasson, forseti Menntavísindasviðs.
Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki.
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í náttúrufræði.
Málstofustjóri var Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs.
Að erindum loknum var efnt til pallborðsumræðna þar sem Páll Skúlason, prófessor í heimspeki og fyrrverandi rektor Háskólans, slóst í hóp með frummælendum.