Háskóli, tilgangur og siðvitund

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 15.00-16.30.

 

Í málstofunni verður rætt um ýmis álitamál sem vakna þegar fólk leiðir hugann að hlutverki akademískra starfsmanna háskóla og annarra í fræðasamfélaginu svonefnda. Hverjar eru skyldur þeirra og hversu vel eða illa er þeim gert kleift að uppfylla þær? Hversu vel hlusta valdhafar og almenningur á skilaboð fræðasamfélagsins? Ná rannsóknir innan veggja þess út til þeirra sem kynnu að hafa gagn og gaman af þeim? Er það aukaatriði eða ætti viðleitni til þess að vera þungamiðja í öllu starfi fræðafólks? Eiga rannsóknir fræðafólks yfirleitt erindi við almenning?

Fyrirlesarar:

  • Eyja M. Brynjarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Eddu - öndvegissetri: Fánýtt gauf án framlegðar: Af tilgangi hugvísindamenntunar
  • Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði: Sagnfræðin á tímum útrásarinnar.
  • Pétur Knútsson, dósent emeritus: Dickens, Morris og hin ‎blinda nútíð

Málstofustjóri: Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði

 

Útdrættir:

Eyja M. Brynjarsdóttir, verkefnisstjóri hjá Eddu - öndvegissetri: Fánýtt gauf án framlegðar: Af tilgangi hugvísindamenntunar

Við búum í samfélagi þar sem rík áhersla er lögð á samkeppni og árangur, á það að hvað svo sem við tökum okkur fyrir hendur sé um að ræða framlag til hagvaxtar. Ef eitthvað er virðist tæknihyggja fara vaxandi og áherslur í menntakerfinu æ meira á þann veg að þrengt er að hugvísindum, þeir sem þau stunda verða uggandi um sinn hag og ekki er annað að sjá en að eftirspurn eftir hugvísindamenntuðu vinnuafli fari minnkandi. Því liggur beint við að spyrja hvort hugvísindamenntun sé tilgangslaus og úrelt. Hér verður slíkum vangaveltum vísað til föðurhúsanna og vörnum haldið uppi fyrir hugvísindin, meðal annars með því að reifa hugmyndir Mörthu Nussbaum um að hugvísindin séu nauðsynleg lýðræðinu og með því að leita í smiðju Immanuels Kant.

 

Pétur Knútsson, dósent emeritus: Skilningseplið, gönguprikið og hin blinda nútíð

Erindið fjallar um þær breytingar á ‎siðvitund sem við lesum úr bókmenntum ‎miðalda og ‎fram í okkar blindu nútíð. Hvenær og með hverjum hætti fer fólk að sjá í gegnum eigin fordóma í aldanna rás? Hvers vegna birtist okkur vitundarvakning oft sem harmsaga? Hægt ‎er að vera vitur eftir á, en er borin von að við getum orðið vitur fyrir fram?‎

 

Guðni Th. Jóhannesson, lektor í sagnfræði: Ýktar sögur, afskiptir fræðimenn: Sagnfræðin á tímum útrásarinnar

Útrásarárin fyrir hrun einkenndust af bjartsýni, ýkjum og blekkingum á ýmsum sviðum. Þetta átti til dæmis við um söguskoðun margra, ekki síst valdhafa og jafnvel almennings yfirleitt. Sagnfræðingar kvörtuðu en virtust ekki ná eyrum þeirra sem þóttust kunna söguna betur. Í erindinu verður saga sagnfræðinnar á tímum útrásarinnar rakin og greind. Þótt hægur leikur sé að benda á mörg dæmi um klisjukennda sögusýn ráðamanna verða líka leidd að því rök að of margir sagnfræðingar hafi gleymt sér í skoðanaskiptum um eðli fræðigreinar sinnar og hugað of lítið að því að miðla þekkingu sinni. Því verður haldið fram að sé ætlunin að móta sögusýn almennings dugi ekki að fordæma svipaða viðleitni valdhafa ‒ sem kom meðal annars fram á útrásarárunum í landafundahátíðahöldum, heimastjórnarafmæli, forsætisráðherrabók, sífelldu sögualdarlofi forseta og umdeildri ímyndarskýrslu stjórnvalda – heldur verði sagnfræðingar sömuleiðis að bjóða upp á eitthvað annað; fróðlega, vel unna og spennandi sögu. Annars einoka hinir bara sviðið.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is