Erindi heimspekinnar

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 13.00-14.30.

Tilefni þessarar málstofu er verkefni sem Siðfræðistofnun leiðir innan Háskóla Íslands. Í verkefninu er reynt að þróa leiðir til að ná því markmiði í stefnu skólans að öll fræðasvið og deildir flétti saman siðfræði og faglegt nám, efli siðferðilega dómgreind nemenda og þjálfi gagnrýna hugsun. Í erindunum sem flutt verða er leitast við að kanna og útskýra fræðilegan grundvöll þess að samþætta heimspeki og mismunandi faggreinar. Ítarlega verður farið í gegnum ávinning og áhættur slíkrar samþættingar með því að greina forsendur hennar og reynslu af kennslu heimspeki í öðrum fögum við Háskóla Íslands.

 

Fyrirlesarar:

  • Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun: Þurfa allir að hafa áhuga á siðfræði?
  • Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Hugvísindin og háskólaborgarinn: hugleiðingar út frá DET I og II
  • Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Siðfræðikennsla í lögfræði, viðskiptafræði og verkfræði

Málstofustjóri: Jakob Guðmundur Rúnarsson, doktorsnemi í heimspeki

 

Útdrættir:

Henry Alexander Henrysson, verkefnisstjóri hjá Siðfræðistofnun: Þurfa allir að hafa áhuga á siðfræði?

Áhugi háskólanema virðist helsta skilyrði þess að vel takist að flétta siðfræði saman við faglegt nám í Háskóla Íslands. Fátt bendir hins vegar til að hann sé fyrir hendi í miklum mæli enda hið faglega nám tímafrekt og krefst óskiptrar athygli stúdenta. Í erindinu verða skoðaðar þrjár mismunandi leiðir til að kynna siðfræði með það fyrir augum að finna út hvaða leið sé líklegust til að vekja og halda áhuga nemenda án þess að slegið sé af fræðilegum kröfum siðfræðinnar.

 

Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum: Hugvísindin og háskólaborgarinn: hugleiðingar út frá DET I og II

Í kjölfar þess að Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda var sett á laggirnar við breytingar á stjórnskipulagi Háskóla Íslands árið 2008 fór af stað umræða meðal kennara deildarinnar um þá akademísku hæfni sem nemendur í öllum námsgreinum hennar þyrftu að búa yfir. Afurðir þessara umræðna voru námskeiðin Inngangur að erlendum tungumálum I og Inngangur að erlendum tungumálum II: hugmyndasaga og tungumál. Viðvarandi mótun þessara námskeiða hefur leitast við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru sérstaklega til háskólaborgara á sviði erlendra tungumála og menningarfræða sem og til þeirra sem ástunda hugvísindi almennt. Í þessu spjalli skal vikið að þessu mótunarferli með hliðsjón af þeim þætti í stefnu Háskóla Íslands 2011–2016 sem snýr að samþættingu siðfræði og faglegs náms, eflingu siðferðilegrar dómgreindar nemenda og þjálfun í gagnrýninni hugsun sem Siðfræðistofnun hefur umsjón með.

 

Róbert H. Haraldsson, prófessor í heimspeki: Siðfræðikennsla í lögfræði, viðskiptafræði og verkfræði

Erfiðasta viðfangsefni siðfræðikennara á háskólastigi er að samþætta siðfræði við faglegt nám. Í fyrirlestrinum lýsir höfundur reynslu sinni af siðfræðikennslu í lögfræði, heimspeki, viðskiptafræði og verkfræði, og gerir grein fyrir nokkrum ólíkum aðferðum sem hann hefur beitt til að tengja siðfræði við faglegt nám á þessum sviðum. Í fyrirlestrinum verður einnig vikið að mikilvægi fjölbreyttra kennsluhátta  í siðfræði.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is