Enska á Íslandi: Áhrif ensku á nám og starf í nýju íslensku málumhverfi

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-16.30.

Undanfarin ár hefur farið fram umfangsmikil rannsókn á notkun, og færni Íslendinga í ensku á öllum skólastigum og í atvinnulífinu. Verkefnið var styrkt af Rannsóknasjóði (RANNÍS). Í málstofunni verða helstu niðurstöður kynntar m.a. enskufærni nemenda við upphaf enskukennslu í 4. bekk, viðhorf ungmenna til enskunáms og enskunotkunar og náms á ensku, notkun ensku í atvinnulífinu og hvernig þeim þúsundum þátttakenda í rannsókninni gengur að nýta sér ensku í lífi, námi og starfi. Niðurstaðan er gerbreytt íslenskt námsumhverfi sem kallar á endurskoðun enskukennslu og  íslenskrar mál- og menntastefnu.

 

Fyrirlesarar:

  • Ásrún Jóhannsdóttir doktorsnemi í ensku og stundakennari: Enska í 4. bekk grunnskóla á Íslandi: Niðurstöður úr könnun á orðaforða og viðhorfi nemenda til ensku
  • Anna Jeeves doktorsnemi í ensku og stundakennari: Gildi enskunáms í breyttu íslensku málaumhverfi
  • Hulda Kristín Jónsdóttir, doktorsnemi í ensku og stundakennari: Málhæfni Íslendinga
  • Birna Arnbjörnsdóttir prófessor: Enska í háskólastarfi á Íslandi: Stefnan og staðan
  • Hafdís Ingvarsdóttir prófessor: „Það er mikil áskorun að þurfa að vera jafnvígur á að skrifa fræðigreinar á tveimur tungumálum.“ Viðhorf háskólakennara til fræðaskrifa á ensku

Málstofustjóri: Guðmundur Edgarsson, doktorsnemi og kennari við Háskólann í Reykjavík

 

Útdrættir:

Ásrún Jóhannsdóttir doktorsnemi í ensku og stundakennari: Enska í 4. bekk grunnskóla á Íslandi: Niðurstöður úr könnun á orðaforða og viðhorfi nemenda til ensku

Haustið 2010 tóku um 400 nemendur í 4. bekk frá 12 íslenskum grunnskólum þátt í könnun á orðaforða og viðhorfi til ensku. Helstu markmið rannsóknarinnar voru að kanna orðaforðaþekkingu íslenskra nemenda í 4. bekk, þ.e. við upphaf formlegrar enskukennslu. Einnig var markmiðið að skoðað magn og tegund þess ílags í ensku sem mætir börnum áður en formlegt enskunám hefst í skóla. Tilgangur þess var að greina þá þætti sem vekja áhuga nemenda á að læra ensku á þessum aldri. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna flókið málaumhverfi nemenda, einnig að það að hefja kennslu ensku fyrr er ekki endilega sá þáttur sem skýrir best getu nemenda í 4. bekk. Aðrir þættir í umhverfi nemenda virðast gegna þar mun stærra hlutverki auk þess sem upphafstími kennslu í ensku hefur lítil sem engin áhrif á viðhorf nemenda til enskunáms.

 

Anna Jeeves doktorsnemi í ensku og stundakennari: Gildi enskunáms í breyttu íslensku málaumhverfi

Sífellt verður erfiðara að skilgreina stöðu enskrar tungu á Íslandi. Þó svo að íslenska sé móðurmál flestra Íslendinga þá heyra og sjá íslensk ungmenni enskt talmál í æ ríkari mæli. Þá gera ungir Íslendingar ráð fyrir því að þurfa að nota ensku í framtíðinni.

Í líkani Dörnyei (L2 Motivation Self System) snýst námshvati um framtíðarsýntungumálanemenda. Hins vegar benda svör þátttakenda þessarar eigindlegu rannsóknar til þess að gildi í núinu skipti miklu máli í enskunámi á framhaldsskólastigi á Íslandi. Sumir nemendur ná þeirri færni að geta lesið og skrifað flókið, formlegt mál, færni sem er nauðsynleg þegar nemendur halda áfram í háskólanám og í vinnu. Einhverjir nemendur öðlast einnig færni á öðrum sviðum í gegnum enskunám í framhaldsskóla.

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að Ísland standi fyrir utan hvatalíkan Dörnyei, og að slíkt geti gilt um önnur lönd í Norður-Evrópu. Nýtt og aðlagað líkan er lagt fram sem felur í sér gildi náms. Rætt verður um hvaða þýðingu rannsóknin hefur fyrir enskukennslu í framhaldsskólum og tillögur lagðar fram um hvernig hægt sé að auka gildi enskunáms fyrir nemendur.

 

Hulda Kristín Jónsdóttir, doktorsnemi í ensku og stundakennari: Málhæfni Íslendinga

Í rannsókninni fjalla ég um stöðu enskunnar sem vinnu- eða samskiptamáls - „lingua franca" - í viðskiptaheiminum á Íslandi. Rannsóknin er hluti af þverfaglegri rannsókn sem er styrkt af Rannís. Markmiðið er að kortleggja færni og enskunotkun Íslendinga, rannsaka hversu mikla og hvers konar þörf Íslendingar hafa fyrir enskukunnáttu í leik og starfi. Ég ætla að kynna grunniðurstöður mínar.

 

Birna Arnbjörnsdóttir prófessor: Enska í háskólastarfi á Íslandi: Stefnan og staðan

Í þessu erindi verða ræddar niðurstöður umfangsmikillar þriggja ára rannsóknar á stöðu ensku á öllum skólastigum og í atvinnulífinu á Íslandi. Sérstaklega verður fjallað um ensku í háskólanámi. Bent er á að ákveðin þversögn felist í því að enska hefur enga opinbera stöðu á Íslandi aðra en sem erlent tungumál þó að notkun ensku sé stór hluti af daglegu lífi flestra Íslendinga, m.a. sjá ungir Íslendingar ekki fyrir sér líf án ensku (Ásrún Jóhannsdóttir, 2013; Anna Jeeves, 2013). Í háskólanámi er nemendum gert að tileinka sér sérhæfða enska texta án sérstakrar aðstoðar þó að þeir hafi áður fengið nánast allan undirbúning á íslensku (Birna Arnbjörnsdóttir, 2009).  

Rannsóknir okkar benda til þess að enskunám í framhaldsskólum búi nemendur ekki markvisst undir háskólanám á ensku. Liðlega þriðjungur nemenda á í vandræðum með að lesa enska texta og notkun ensku eykur vinnuálag nánast allra nemenda og kennara (Hafdís Ingvarsdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2010, 2013).

Í erindinu verður velt upp þeirri hugmynd að tímabært sé að endurskoða opinberar mál- og menntastefnur með tilliti til ensku, m.a. hugmyndir sem koma fram í norrænni málstefnu (Nordic Language Policy, 2006) um að enska sé notuð samhliða norrænu málunum í norrænu háskólastarfi vegna þess að Norðurlandabúar „séu svo góðir í ensku“. Að lokum verður kynnt nýtt stuðningsnám á vegum námsbrautar í ensku sem miðar að því að auka enskufærni allra nemenda Háskólans sem þurfa að takast á við enska texta í námi sínu. 

 

Hafdís Ingvarsdóttir prófessor: „Það er mikil áskorun að þurfa að vera jafnvígur á að skrifa fræðigreinar á tveimur tungumálum.“ Viðhorf háskólakennara til fræðaskrifa á ensku

Enska hefur verið að ryðja sér til rúms sem sameiginlegur tjáningarmiðill í háskólastarfi á Norðurlöndum (Phillipson, 2003). Þessa þróun má m.a. greina af auknum fjölda þeirra námskeiða sem í boði eru á ensku í háskólum og fjölda þeirra fræðigreina sem skandinavískir fræðimenn birta á ensku (Ljösland, 2007). Þótt þrýstingur á að birta fræðigreinar á ensku sé sívaxandi hér á landi er enn mikill meirihluti kennslunnar á íslensku og flestir starfsmenn eiga sér íslensku að móðurmáli. Um leið þarf þó að benda á að yfir 90% alls lesefnis við Háskóla Íslands er á ensku. Hér verður fjallað um viðtalsrannsókn á viðhorfum háskólakennara til þess að skrifa fræðigreinar á ensku. Undanfari hennar var spurningakönnun sem benti til að það skapaði aukið álag að vinna með tvö tungumál (Hafdís Ingvarsdóttir og Birna Arnbjörnsdóttir, 2010). Markmið viðtalanna var að fá betri vitneskju um tilfinningar og viðhorf háskólakennara gagnvart því að þurfa að skrifa á ensku. Þátttakendur voru tíu háskólakennarar, tveir frá hverju sviði og voru jafnmargir fulltrúar yngri og eldri kynslóðar kennara. Viðtölin, sem voru hálfopin, voru lykluð og greind og dregin fram meginstef sem skiptu viðhorfum viðmælenda í þrjá meginhópa. Niðurstöður benda til að mikill munur sé á viðhorfum kennara eftir bakgrunni þeirra, aldri, fræðasviði og fræðigrein. Niðurstöður benda einnig til að mikilvægt sé að setja upp ritver þar sem kennarar geta fengið aðstoð við ritun á ensku líkt og gert hefur verið í Skandinavíu.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is