Voveifleg dauðsföll á 19. öld

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 15.00-17.00.

Í málstofunni verður fjallað um voveifleg dauðsföll á Íslandi á 19. öld frá ýmsum hliðum, meðal annars dauðsföll tengd nokkrum sakamálum. Sjónum verður beint að sjóreknum líkum við Breiðafjörð um og eftir miðja 19. öld og hvernig farið var að því að bera kennsl á þau og koma skilaboðum til ættingja. Þá verður fjallað um þrjú sakamál þar sem átti að reyna að leyna morði. Þetta eru morðið á Natani Ketilssyni árið 1828, Skárastaðamál 1863-1864 og morðið á vélstjóranum frá Aberdeen árið 1894. Í öllum erindunum er byggt á frumheimildum í Þjóðskjalasafni Íslands, sem hefur að geyma stærsta safn frumheimilda um sögu þjóðarinnar, en efni þeirra varpar oft nýju ljósi á vel þekkt mál og gefur færi á að rannsaka og kynna ný mál. 

Fyrirlesarar:

  • Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Sjórekin lík við Breiðafjörð um og eftir miðja 19. öld
  • Björk Ingimundardóttir, sagnfræðingur og skjalavörður Þjóðskjalasafni: Skárastaðamál. „Skárastaðamál var síðast í röð þeirra illræmdu glæpamála, sem voru á döfinni í Húnavatnsþingi á síðustu öld“
  • Gunnar Örn Hannesson, sagnfræðingur og skjalavörður Þjóðskjalasafni: Líkið sem átti ekki að finnast
  • Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í hagnýtri menningarmiðlun: Morðbrenna í Húnaþingi 1828. Yfirheyrslur og frásagnir

Málstofustjórar: Már Jónsson prófessor og Eggert Þór Bernharðsson prófessor

 

Útdrættir:

Már Jónsson, prófessor í sagnfræði: Sjórekin lík við Breiðafjörð um og eftir miðja 19. öld

Tugir karla, ungir sem aldnir, drukknuðu á hverju ári af árabátum og skútum. Mörg líkanna náðust strax. Önnur hurfu á haf út. Sum velktust lengi áður í sjónum en þau rak á land, illa leikin og jafnvel óþekkjanleg. Í erindinu verða rakin nokkur slík atvik frá árunum 1847-1872 og mat á það lagt annars vegar hvernig farið var að því að bera kennsl á sjórekin lík og hins vegar að koma boðum jafnt sem eignum til erfingja, að frádregnum kostnaði við jarðarförina. Þetta gat verið flókið og allt að því óviðráðanlegt, enda þekktust menn aðeins í sinni heimasveit og þar sem þeir réru út. Breiðafjörður var vissulega samfellt hafsvæði og eitt atvinnusvæði, en þrjár sýslur liggja að honum. Fréttir bárust seint á milli sveita og ferðir stopular. Úr vöndu var að ráða fyrir hreppstjóra og sýslumenn, en þeir gerðu hvað þeir gátu og stóðu sig vel.

 

Björk Ingimundardóttir, sagnfræðingur og skjalavörður Þjóðskjalasafni:Skárastaðamál. „Skárastaðamál var síðast í röð þeirra illræmdu glæpamála, sem voru á döfinni í Húnavatnsþingi á síðustu öld.“

Einar Jónsson á Skárastöðum í Miðfirði myrti sumarið 1863 barn sem honum hafði verið kennt. Einar viðurkenndi faðernið og glæpinn við málsrannsókn sem hófst í ársbyrjun 1864. Við rannsóknina komu í ljós þjófnaðir, hylming, kindadráp og ekki síst dulsmál. Guðbjörg Guðmundsdóttir, áður vinnukona á Skárastöðum, hafði eftir burtför sína þaðan fætt barn í dul. Faðirinn var Jón Einarsson, giftur bóndi á Skárastöðum og faðir Einars. Var Jón grunaður um að vera hvatamaður að dularfæðingunni. Í erindinu verða rakin málsatvik og réttarmeðferð.

 

Gunnar Örn Hannesson, sagnfræðingur og skjalavörður Þjóðskjalasafni: Líkið sem átti ekki að finnast

 Vorið 1894 hvarf vélstjóri breska gufutogarans Mary Ann Dodds í sjóinn úti á Seyðisfirði. Sjópróf ytra leiddu í ljós að áhafnarmeðlimum gufutogarans bar ekki saman um hvernig dauðsfall vélstjórans bar að garði og lík vélstjórans fannst ekki í Seyðisfirði um sumarið. Bréf gengu á milli embættismanna í Bretlandi, Danmörku og Íslandi við rannsókn málsins en ekkert kom í ljós sem hönd var á festandi. Um haustið voru menn orðnir vonlitlir um að nokkur botn myndi fást í málið úr því sem komið var. Í október dró þó heldur betur til tíðinda þegar lík vélstjórans fannst með ævintýralegum hætti. Það er skemmst frá því að segja að líkið sjálft hafði aðra sögu að segja um eigin örlög en fram var haldið af áhafnarmeðlimum gufutogarans um vorið.

 

Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í hagnýtri menningarmiðlun: Morðbrenna í Húnaþingi 1828. Yfirheyrslur og frásagnir

Aðfaranótt 14. mars 1828 voru Natan Ketilsson og Pétur Jónsson myrtir á Illugastöðum á Vatnsnesi og eldur lagður að bænum til að hylja vegsummerki. Ekki leið þó á löngu uns Friðrik Sigurðsson, Agnes Magnúsdóttir og Sigríður Guðmundsdóttir voru færð til yfirheyrslu þar sem þau játuðu verknaðinn fyrir Birni Blöndal sýslumanni Húnvetninga. Allt frá því á 19. öld hafa margir fjallað um þetta sögufræga og dramatíska morðmál og því hefur verið miðlað á ýmsan hátt. Í erindinu verður hugað að morðnóttinni með hliðsjón af því sem sakborningar sögðu í yfirheyrslum og hvaða mynd hefur verið dregin upp af atburðum í síðari tíma frásögnum og velt vöngum yfir því sem ber í milli.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is