Breytileiki Njáls sögu

Í málstofunni verða haldnir fyrirlestrar í tengslum við rannsóknarverkefnið Breytileiki Njáls sögu (The variance of Njáls saga) sem styrkt er af Rannís og Svanhildur Óskarsdóttir stýrir. Markmið verkefnisins er að rannsaka breytileika Njáls sögu með aðferðum málvísinda, bókmenntafræði, handrita- og textafræði þar sem bæði er beitt samtímalegri greiningu, í tilfelli elstu handritanna sem eru frá 14. öld, og sögulegri greiningu sem felst í því að kanna hvaða breytingar verða á texta og handritum í tímans rás. Rannsókninni er einkum beint að þeim þáttum í varðveislusögu Njálu sem hafa hlotið fremur litla athygli, svo sem elstu brotum sögunnar, handritinu Gráskinnu og pappírshandritum frá síðari öldum, og hún tekur mið af nýjum kenningum sem leggja áherslu á breytileika texta í handritum. Með þessu er leitast við að sýna hvernig hin lifandi hefð Njálu var á hverjum tíma, hvað einkenndi texta verksins og gerð Njáluhandrita á ólíkum tímapunktum frá 14. til 19. aldar og hvernig breytilegur texti og útlit haldast í hendur við þarfir og viðhorf skrifara, verkbeiðenda og notenda. Verkefnið mun mynda grunn að rafrænni gagnaveitu um Njáls sögu og nýrri útgáfu sögunnar.

 

Fyrirlesarar:

  • Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent á Árnastofnun: Um rannsóknarverkefnið Breytileiki Njáls sögu
  • Ludger Zeevaert, rannsóknarmaður á Árnastofnun: Tilbrigði í máli í 14. aldar handritum Njálu
  • Emily Lethbridge, nýdoktor hjá Miðaldastofu, Hugvísindasviði: Gráskinna – Njálublendingur frá miðöldum
  • Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Njála í menningu 17. aldar
  • Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í Íslensku- og menningardeild: Skapandi viðtökur Njálu á 18. og 19. öld

Málstofustjóri: Sveinn Yngvi Egilsson prófessor

 

Útdrættir:

Svanhildur Óskarsdóttir, rannsóknardósent á Árnastofnun: Um rannsóknarverkefnið Breytileiki Njáls sögu

Njáls saga er varðveitt í um 60 handritum sem spanna næstum sex aldir. Vitnisburður þessara handrita um texta sögunnar og um viðtökur hans liggur þó ekki á lausu því engin útgáfa sögunnar hingað til gerir öllum handritum skil. Í inngangserindi málstofunnar verður gefið yfirlit um handritageymd Njálu og stiklað á stóru í útgáfusögu hennar, rætt um ný viðhorf í textafræði og afleiðingar þeirra fyrir útgáfu fornsagna auk þess sem tekin verða örfá dæmi um textamun Njáluhandrita.

 

Ludger Zeevaert, rannsóknardósent á Árnastofnun: Tilbrigði í máli í 14. aldar handritum Njálu

Málfræðilegur breytileiki í sögulegum textum er aðallega rannsakaður sem vísbending um tungumálaþróun. Þetta er líka gert í rannsóknarverkefninu Breytileiki Njáls sögu. Samt eru til tilbrigði í Njáluhandritum frá sama tíma sem er ekki hægt að útskýra á þennan hátt. Í umfjöllun minni ætla ég að sýna nokkur týpísk dæmi um málfræðilegan breytileika milli handrita frá 14. öld og kynna aðferðir sem eru notaðar í verkefninu til að rannsaka þennan breytileika. Aðferðin byggist á handritauppskriftum í XML-formi. Mörg tilbrigði sem eru dæmigerð fyrir Njáluhandritin (t.d. frávik í orðaröð, notkun tíðar eða notkun sérstakra setningafræðilegra fyrirbæra) eru í öðrum samhengjum rannsökuð sem stíleinkenni. Þetta væri líka möguleg aðferð í okkur samhengi, en bara ef það tekst að sýna ákveðið munstur í fráviki milli textanna. Til að framkvæma þetta er nauðsynlegt að marka setninga- og orðmyndunarfræðileg fyrirbæri í textunum og bera saman notkun þeirra milli textanna. Þessi vinna er enn í fullum gangi, en ég mun stefna að því að sýna nokkrar niðurstöður sem gætu verið vísbending um stílfræðilegt gildi fyrirbæranna.

 

Emily Lethbridge, nýdoktor hjá Miðaldastofu, Hugvísindasviði: Gráskinna – Njálublendingur frá miðöldum

14. aldar handritið Gráskinna (GKS 2870 4to) er mikilvægur hluti af heildarmyndinni af Njálu en það hefur þó ekki verið rannsakað að ráði. Handritið hafði þegar látið verulega á sjá snemma á 16. öld og reynt var að bæta það með ýmsu móti. Í heild er handritið áhugaverður vitnisburður um sífellda notkun og það gildi sem það virðist hafa haft fyrir eigendur þess á ólíkum tímum en hvorki handritið sem hlutur, né sá texti Njálu sem það hefur að geyma, hafa verið rannsökuð sem skyldi. Í fyrirlestrinum verða kynntar fyrstu niðurstöður á ákveðnum efnislegum og textalegum hliðum Gráskinnu.

 

Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Njála í menningu 17. aldar

Áhugi á Íslendingasögum og öðrum fornbókmenntum eykst greinilega hér á landi á sautjándu öld fyrir áhrif húmanismans og kemur m.a. fram í því að fornsögur eru skrifaðar upp af kappi. Njáls saga er varðveitt í um 20 handritum frá sautjándu öld og má rekja sum þeirra til glataðs skinnhandrits sem kallað var Gullskinna. Hið elsta þeirra mun vera skrifað af Jóni Gissurarsyni lögréttumanni sem numið hafði gullsmíðar í Þýskalandi. Í erindinu verður fjallað um nokkra skrifara og eigendur þessara handrita, stöðu þeirra í samfélaginu og reynt að leita svara við því í hvaða tilgangi og handa hverjum þeir skrifuðu söguna upp. Einnig verður fjallað um ýmis ytri ummerki á handritunum, svo sem spássíugreinar, vísur og fleira sem getur gefið vísbendingu um viðtökur sögunnar og notkun.

 

Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í Íslensku- og menningardeild: Skapandi viðtökur Njálu á 18. og 19. öld

Í fyrirlestrinum verður rætt um nokkur handrit sem sýna hvernig skrifarar, skáld og listamenn á 18. og 19. öld lásu Njálu á skapandi hátt. Unnendur sögunnar byrjuðu snemma að leggja út af henni og þannig varð hún uppspretta viðbótarvísna, eins og vel má sjá á 14. aldar handritinu Reykjabók. Skapandi viðtökur birtast einnig í Njáluhandritum 18. og 19. aldar. Þar má lesa vísur sem ortar voru út af efni sögunnar og myndskreytingar sem sýna hvaða augum lesendur litu persónur og atburði Njálu. Í fyrirlestrinum verða tekin nokkur dæmi úr handritunum sem varpa ljósi á skapandi viðtökur sögunnar.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is