Hugrænt bland í poka

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 13.00-14.30.

Í málstofunni verður fjallað um tengsl ritlistar, sagnfræði og bókmenntafræði, lestur á fornum skáldskap og loks um annarsmálsfræði og sálgreiningu. Það sem tengir fyrirlestrana saman er að þeir sækja allir til hugrænna fræða (e. cognitive science) og ganga þar með út frá að vilji menn öðlast aukinn skilning á sköpun, sögu, máli og bókmenntum sé gagnlegt að taka mið af vitsmunalífi mannsins og einkennum þess. 

Fyrirlesarar:

  • Auður Stefánsdóttir doktorsnemi: ,,Ómerkilegt föndur […] franskar bókmenntir, listagutl, sálarfræði og annað enn ómerkilegra.“ Samræður milli sagnfræði, skáldskapar og fræða.
  • Bergljót Soffía Kristjánsdóttir prófessor: Þú varst þar og ég er hér – hvað skal gera? Um lestur dróttkvæðra vísna.
  • Helgi Garðar Garðarsson, geðlæknir og sálkönnuður BUGL, María Anna Garðarsdóttir aðjunkt, og Sigríður Þorvaldsdóttir aðjunkt: Betur sjá augu en auga: Samræða málfræði og sálgreiningar um máltileinkun.

Málstofustjóri: Sif Ríkharðsdóttir dósent

 

Útdrættir:

Auður Stefánsdóttir doktorsnemi: ,,Ómerkilegt föndur [...] franskar bókmenntir, listagutl, sálarfræði og annað en ómerkilegra.“ Samræður milli sagnfræði, skáldskapar og fræða

Í þessum fyrirlestri verður brugðið upp mynd af tengslum ritlistar og sagnfræði, og hugtakið söguleg skáldsaga rætt. Varpað verður upp spurningum um hvort nauðsynlegt sé að greina milli skáldskapar og sagnfræði og þá sérstaklega horft til frásagnarformsins. Notast verður við kenningar hugfræðinga í því samhengi, svo sem Jerome Bruners og kenninga hans um frásögn sem hugsanlegt grunnform mannlegrar hugsunar.

Mismunandi frásagnarform verða skoðuð en til að að útskýra mun þeirra þarf að horfa til lesandans. Lesandinn hefur löngum verið hugfræðingum hugleikinn og er útgangspunkturinn sá að það skipti höfuðmáli hvernig frásögnin orkar á lesandann, til dæmis hvaða geðshræringar vakna við lestur.  Með kenningum hugfræðinnar verður reynt að kortleggja hvað gerist í huga lesandans þegar hann les frásagnir og að lokum horft til ætlunar höfundarins þegar hann skrifar texta. Hvaða áhrif ætlar höfundurinn að hafa á lesandann? Hvaða máli skiptir ætlun höfundarins með tilliti til sagnfræði og skáldskapar?

 

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir  prófessor: Fjarlægðin, myrkrið og mannslíkaminn

Í fyrirlestrinum verður því haldið fram að dróttkvæðar vísur hafi of oft verið lesnar öðruvísi en annar kveðskapur. Vísur í styttri gerð Gísla sögu verða  hafðar undir og blöndunarkenning (the conceptual blending theory) þeirra Fauconniers og Turners nýtt til aukins skilnings á þeim, ekki síst sem hluta atburðarásar sögunnar. Tekin verða nokkur dæmi um blöndun en einnig vikið að margræðni og því hvernig ýtt er undir ímyndunarafl lesenda svo að þeir sjái fyrir hugskotssjónum sér annað og meira en sagt er beinum orðum í textanum. Jafnframt verður hugað að aldri vísna og meginhugsun Gísla sögu.

 

Helgi Garðar Garðarsson, geðlæknir og sálkönnuður, BUGL, María Anna Garðarsdóttir aðjunkt, og Sigríður Þorvaldsdóttir aðjunkt: Betur sjá augu en auga: Samræða málfræði og sálgreiningar um máltileinkun.

Í þessu erindi verður gerð tilraun til að bera saman tvenns konar hugarferli, annars vegar þau sem búa að baki máltileinkun og hins vegar þau sem búa að baki varnarháttum. Í tileinkunarferlinu þróar málnemi stig af stigi með sér sífellt flóknari hugartæki eða búnað til að fást við málfræði nýja málsins. Það er þó ljóst af upplifun fólks sem fer í gegnum þá reynslu að læra nýtt tungumál á fullorðinsárum að ferlið er annað og meira en að læra málfræði nýja málsins. Sálgreiningin varpar ljósi á þau verkefni sem málneminn fæst við í samskiptum við aðra á nýja málinu. Í þessum samskiptum verður fólk gjarnan aðþrengt og þær aðstæður vekja með því íþyngjandi tilfinningar sem eru birtingarmyndir varnarhátta. Til að höndla þessar tilfinningar þurfa málnemar að ráða yfir annars konar hugartækjum sem eru ekki síður flókið hugrænt ferli en hugartæki málfræðinnar. Í fyrirlestrinum verður rætt um þessi hugrænu ferli og líkindi þeirra.

 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is