Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans laugardaginn 16. mars kl. 10.00-12.00.
Áhrifasaga Biblíunnar hefur á síðari árum átt vaxandi vinsældum að fagna meðal biblíufræðinga. Með áhrifasögu er átt við margvísleg áhrif, notkun og viðtökur Biblíunnar, svo sem í menningu, listum og þýðingum. Löngum var þessi þáttur mjög vanræktur í biblíufræðunum þar sem megináherslan hvíldi jafnan á hinum fornsögulega þætti, þ.e. merkingu biblíutextanna í sínu upphaflega samhengi og umhverfi. En nú hefur orðið breyting á og þessi málstofa endurspeglar þá áherslubreytingu. Í henni verður í fjórum erindum fjallað um síðari tíma áhrif Biblíunnar, í þremur erindanna koma Davíðssálmar Gamla testamentisins við sögu, þar af tvisvar í tengslum við kvikmyndir en í þriðja fyrirlestrinum er um að ræða Davíðsálma í sálmabók Guðbrands biskups Þorlákssonar frá 1589. Í fjórða erindinu er kastljósinu beint að afdrifum postula Nýja testamentisins í Hómilíubókinni frá því um 1200. Erindin eiga það sameiginlegt að fjallað er um hvernig hinir fornu biblíutextar eru nýttir, túlkaðir, aðlagaðir eða þýddir á nýjum tímum og nýjum miðlum.
Fyrirlesarar:
- Bjarni Randver Sigurvinsson, doktorsnemi og stundakennari: Íranskar kvikmyndir og sálmar Gamla testamentisins
- Einar Sigurbjörnsson, prófessor: Davíðssálmar í Sálmabók Guðbrands 1589
- Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor: „Við sem vorum ástúðarvinir“. Um gildi áhrifasögu í biblíufræðum í ljósi Sálms 55 og kvikmyndarinnar Dúfnavængir
- Haraldur Hreinsson, doktorsnemi og stundakennari: Postularnir í Hómilíubókinni
Málstofustjóri: Ásdís Guðmundsdóttir, verkefnisstjóri Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og kennslustjóri Hugvísindasviðs
Útdrættir:
Bjarni Randver Sigurvinsson, doktorsnemi og stundakennari: Íranskar kvikmyndir og sálmar Gamla testamentisins
Heimildamyndin Húsið er svart, sem gerð var af femínistanum og ljóðskáldinu Forough Farrokhzad árið 1962 og fjallar um daglegt líf íbúa í holdsveikranýlendu, telst brautryðjendaverk í íranskri kvikmyndagerð. Í henni er að finna öll þau megineinkenni íranskra kvikmynda sem vakið hafa hvað mesta athygli á alþjóðlegum vettvangi á undanförnum árum og áratugum, einkum nærgætna persónusköpun, ljóðrænt raunsæi, húmaníska þjóðfélagsgagnrýni og táknrænt andóf. Þótt rætur þessara kvikmynda liggi ótvírætt til ríkulegrar menningarhefðar Írans langt aftur í aldir er innblásturinn ekki síður sóttur til ítalskra raunsæismynda eftirstríðsáranna og í tilfelli brautryðjendaverksins Húsið er svart til Sálma Gamla testamentisins.
Einar Sigurbjörnsson, prófessor: Davíðssálmar í Sálmabók Guðbrands 1589
Þriðji hluti Sálmabókar Guðbrands 1589 hefur að geyma orta Davíðssálma eða eins og það heitir „útvalda sálma þess kónglega spámanns Davíðs útlagða og snúna í andlega söngva og vísur.“ Þarna er um að ræða 40 Davíðssálma sem er snúið yfir í ljóð. Í þessu erindi verður fjallað um þá hefð að færa Davíðssálma og annað biblíulegt efni yfir í ljóð og söngva en sú hefð hófst með siðbótinni og skaut djúpum rótum hér á landi. Verður sérstaklega fjallað um nokkra hinna ortu Davíðssálma í Sálmabók Guðbrands og hafa lifað fram á þennan dag.
Gunnlaugur A. Jónsson, prófessor: „Við sem vorum ástúðarvinir“. Um gildi áhrifasögu í biblíufræðum í ljósi Sálms 55 og kvikmyndarinnar Dúfnavængir
Í kvikmyndinni Dúfnavængir (The Wings of the Dove) er vitnað í 55. sálm Saltarans og sögusvið myndarinnar minnir um margt á sálminn, sem í G.t.-fræðunum flokkast sem harmsálmur einstaklingsins. Í þeirri gerð sálma koma óvinir yfirleitt við sögu en í þessum sálmi er það óvenjulegt að óvinurinn hefur áður verið ástúðarvinur ljóðmælandans. Fjallað er um tengsl kvikmyndar og sálms í anda rannsókna á sviði áhrifasögu Biblíunnar en efnið nálgast frá óvenjulegri hlið með því að leggja áherslu á þá spurningu hvort kvikmyndin geti nýst við ritskýringu sálmsins.
Haraldur Hreinsson, doktorsnemi og stundakennari: Postularnir í Hómilíubókinni
Þegar á 2. öld voru frásagnir færðar í letur um störf og örlög postulanna, þeirra manna sem samkvæmt ritum Nýja testamentisins stóðu Jesú frá Nasaret næst. Þaðan í frá tóku þeir að birtast í máli og myndum á æði margbreytilega vegu. Þeir urðu fljótt höfuðdýrlingar kirkjunnar og með henni bárust þeir til Íslands þegar kristni tók að skjóta hér rótum. Í þessu erindi verður sjónum beint að birtingarmyndum postulanna í einni elstu og heillegustu heimild um íslenskt trúarlíf á miðöldum, þ.e. Hómilíubókinni, safni stólræðna sem ritað var um aldamótin 1200 og sú trúarhugsun sem þær endurspegla rædd.