Ársrit Sögufélags Ísfirðinga 2003

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga nr. 43 var unnið í samvinnu við Hugvísindastofnun. Efni þess er afrakstur ráðstefnu sem haldin var í júní 2003 um sögu Vestfjarða undir yfirskriftinni „Vestfirðir: aflstöð íslenskrar sögu“. Í Ársritinu er að finna ritgerðir eftir tuttugu og þrjá fræðimenn sem spanna alla sögu landshlutans, allt frá landnámi norrænna manna á Vestfjarðakjálkanum til þess fjölmenningarsamfélags sem þar hefur orðið til á liðnum árum.

Efni ritsins er að vonum afar fjölbreytt. Fjallað er um fornleifar og rannsóknir þeirra, um átök um völd, virðingu og auðæfi á miðöldum auk þess sem bókmenningu þess tíma er gefinn sérstakur gaumur. Menningu 17. og 18. aldar er gerð fjölbreytileg skil með umfjöllun um skáldskap, fræðimennsku, tónlist og málaralist að ógleymdum galdraofsóknum sem settu svip á þann tíma. Á sögu síðari alda er ekki síður tekið, því sagt er frá sögu fiskveiða á 19. og 20. öld en einnig frá stjórnmálaátökum, alþýðufræðimennsku á ofanverðri 19. öld og sérkenni vestfirsks orðaforða. Loks er fjallað um menningarlega fjölbreytni í sjávarþorpum Vestfjarða. Í upphafi bókar er birt ávarp Jóns Páls Halldórssonar, formanns Sögufélags Ísfirðinga, þar sem hann rekur sögu þess merka félagsskapar sem hélt upp á hálfrar aldar afmæli sitt árið 2003. Ritið er 330 síður að lengd og prýtt myndum og kortum. Ritstjórar Ársritsins eru Jón Þ. Þór og Veturliði Óskarsson en meðritstjórar þessa árgangs voru þau Helgi Skúli Kjartansson, Torfi H. Tulinius og Þórunn Sigurðardóttir.

Ársrit Sögufélags Ísfirðinga fæst í bókaverslunum. Einnig er hægt að kaupa það á skrifstofu Hugvísindastofnunar, en ritið kostar 2.200 krónur.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is