Ameríkurnar og innflytjendur: tregi, þrár, bjartir draumar og brostnir

Málstofan verður í Aðalbyggingu Háskólans föstudaginn 15. mars kl. 13.00-16.30.

Þessi málstofa skoðar þjóðflutningana til Vesturheims í nýju og víðara samhengi: ekki aðeins íslensku heldur líka norsku, dönsku og ítölsku. Við munum fjalla um þá drauma og þær þrár sem blossuðu upp og breiddust út um Evrópu eins og eldur í sinu þegar svæði voru auglýst til landnáms í Ameríkunum. Einkum beinum við sjónum okkar til Bandaríkjanna og Kanada, sem sendu út boð um ótakmarkað kjörlendi og frelsi á nítjándu öld.

Meðal annars verða íhuguð þau hugmyndafræðilegu umbrot sem fjöldaflutningarnir ollu. Beggja vegna hafs var gripið til aðgerða við að stýra straumnum og hefta för, ýmist með beinum aðgerðum norður-amerískra stjórnvalda eða óbeinum aðgerðum heimamanna, auk þess sem svik og gróðabrall lagði stein í götu vesturfara. Þá verður litið til þess hvernig nýir tímar og nýtt mál- og menningarumhverfi vestan hafs endurmótaði hugmyndir um vald, frelsi og jafnrétti og kallaði fram breytta sjálfsvitund.

Fyrirlesarar:

  • Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum: Í gegnum nálaraugað: höft á fólksflutningum til Norður-Ameríku fram yfir aldamótin 1900
  • Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Ljósmyndir og Ameríkubréf
  • Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: „Langferðin“, smásaga eftir Leonardo Sciascia. Fordómar og klisjur um fólksflutninga í ítölskum bókmenntum tuttugustu aldar
  • Björg Hjartardóttir, doktorsnemi við háskólann í Bresku Kólumbíu (UBC) í Kanada: Lesið í Freyju: hugmyndir um kvenfrelsi í Vesturheimi
  • Gro Tove Sandsmark, lektor í norsku: „Af orðum ertu komin(n).“ Sjálfsmynd, þjóðerni og tungumál í I de dage eftir Ole Edvart Rølvåg
  • Annemette Hejlsted, lektor í dönskum bókmenntum: Ofgnótt Ameríku – um vesturfaradrauma í klassísku barnakvæði Christian Winthers „Flugten til Amerika“ (America as wonderland - on the emigration dreams of Christian Winther’s children’s classic “Flugten til Amerika” / Amerika som slaraffenland – om udvandrer drømme i Christian Winthers børnebogsklassiker ”Flugten til Amerika”)

Málstofustjóri: Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum

 

Útdrættir:

Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í enskum bókmenntum: Í gegnum nálaraugað: höft á fólksflutningum til Norður-Ameríku fram yfir aldamótin 1900

Einhverjir halda ef til vill að til Vesturheims hafi hver sá getað farið á 19. öld og fram á þá 20. sem átti fyrir farinu héðan, eða var svo heillum horfinn að „sveitin“ borgaði brottflutninginn – aðra leið – og vissulega voru þess fjölmörg dæmi. En gáttin inn um „Gullna hliðið“, inn í draumlendur Vesturheims, varð þó sífellt þrengri þegar leið á þetta tímabil. Í fyrirlestrinum mun ég bregða upp ýmsu regluverki sem hefti för þeirra sem hugðu á flutninga vestur um haf, en þó einkum huga að þeim annmörkum sem Bandaríkjamenn og Kanadamenn settu til að hefta mannflóðið sem þeir höfðu kallað yfir sig með gylliboðum.

 

Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor á Árnastofnun: Ljósmyndir og Ameríkubréf

Gjarnan fylgdu ljósmyndir Ameríkubréfunum, ekki síst mannamyndir. Í bréfi frá Nebraska dags. 18. febrúar 1907 þakkar Jón Halldórsson systursyni sínum, Bárði Sigurðssyni ljósmyndara Mývetninga, fyrir landslagsmyndir sem Bárður hafði tekið og sent honum. Ljósmyndir Bárðar voru einkum þrenns konar: mannamyndir, landslagsmyndir og myndir af Mývetningum í dagsins önn. Landslagsmyndir sínar seldi Bárður fyrir steríóskóp. Það voru vafalaust þess konar myndir sem hann hafði sent frænda sínum. En í safni Bárðar eru myndir sem Jón Halldórsson greinilega vísar til. Fyrirlesturinn fjallar um þessar steríóskóp-myndir, túlkun Jóns á þeim og áhrifin sem myndirnar frá æskustöðvum hans í Mývatnssveit höfðu á hann og fjölskyldu hans.

 

Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku: „Langferðin“, smásaga eftir Leonardo Sciascia. Fordómar og klisjur um fólksflutninga í ítölskum bókmenntum tuttugustu aldar

Fjöldaflutningur Ítala af landi brott á árunum 1870 til 1914 var sérstaklega mikill til heimsálfunnar Ameríku, og hefur sett mikinn svip sinn á þá ímynd sem bókmenntir útflytjenda eða brottfluttra hafa ávallt haldið á lofti. Ég mun fjalla um aðaleinkenni ímyndarinnar, sem erfitt er að afmá, eins og hún kemur fram í stuttri en skemmtilegri frásögn Sciascia (1973). Fyrirlestur minn beinist fyrst og fremst að einni sterkri ímynd, sem er hinn fávísi brottflutti Ítali sem er ólæs, og þar með einnig að fjarveru konunnar sem aðalsögupersónu í bókmenntum brottfluttra.

 

Björg Hjartardóttir, doktorsnemi við háskólann í Bresku Kólumbíu (UBC) í Kanada: Lesið í Freyju: hugmyndir um kvenfrelsi í Vesturheimi

Fyrirlesturinn er liður í doktorsverkefni mínu sem er greining á mótun kyngervis og kynþáttar í vesturíslenska kvenréttindablaðinu Freyju (1898-1910). Blaðinu var ritstýrt af Margréti J. Benedictsson (1866-1956), gefið út í Manitoba af henni og eiginmanni hennar, Sigfúsi Benedictsson (1865-1951). Íslenskar konur eru gjarnan nefndar frumkvöðlar í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna í Vesturheimi og Freyjaer talið vera fyrsta kvenréttindablað í Kanada: á stefnuskrá var barátta fyrir félagslegum, efnahagslegum og pólitískum réttindum kvenna. Megináhersla var á stöðu konunnar í hjónabandi og móðurhlutverkið en einnig bindindismál og kosningaréttur kvenna. Freyja var einnig bókmenntatímarit sem birti framhaldssögur, æviágrip rithöfunda ásamt ritdómum. Málstaður anarkista og mannkynbóta fékk einnig hljómgrunn í blaðinu.

Ekkert bendir til að Freyja hafi mótað og tjáð einstrengingslegar frásagnir út frá kynþáttamismun en þó er nauðsynlegt að skoða tengingu blaðsins við mannkynbætur, anarkisma og aðrar hugmyndir samtímans og benda á þann flókna vef sem baráttan fyrir kosningarétti kvenna í Norður-Ameríku var. Við upphaf tuttugustu aldar léku hvítar landnemakonur stórt hlutverk í baráttu fyrir félagslegum umbótum og voru áherslur þeirra á einstaklingsfrelsi staðsettar í táknmyndinni um móður mannkynsins, sem mótuð var út frá kynþáttahugmyndum samtímans. Hvítar konur áttu að fá kosningarétt og frelsi til þess að samfélagið sýndi framfarir, en konur báru ábyrgð á að viðhalda þjóðinni. Trú á yfirburði hvíta kynstofnsins mótaði að miklu leyti rök og aðferðir leiðtoga í baráttunni fyrir kosningarétti kvenna. Engin meðvitund var um að þeirra forréttindi væru fengin á kostnað frumbyggja þjóða og annarra minnihlutahópa, líkt og stigskipun byggð á kynþáttum væri föst í sessi og hefði þróast eðlilega.

 

Gro Tove Sandsmark, lektor í norsku: „Af orðum ertu komin(n).“ Sjálfsmynd, þjóðerni og tungumál í Den signede dag eftir Ole Edvart Rølvaag

Í þessu erindi er fjallað um sjálfsvitund, tungumál og þjóðerni í bókaröð Ole Rølvaag, Den signede dag. Viðfangsefni bókanna er fjölskylda sem flytur vestur um haf frá Norður-Noregi. Bókaröðin fylgir þremur kynslóðum. Viðhorf þeirra til föðurlandsins gamla og heimalandsins nýja breytast og stundum verða árekstrar milli kynslóða. Einnig eru þau ósammála um hvort tungumál þeirra sé norska eða enska.

Málfræðingurinn John E. Joseph er uppalinn í BNA, á föðurætt frá Líbanon, hefur búið í Singapúr en býr núna í Englandi og hefur þannig mikla reynslu af mótum mismunandi menningarheima en hann hefur rannsakað samband tungumáls og sjálfsvitundar frá ýmsum sjónarhornum. Ég ætla að nota hugtök hans og kenningar úr bókinni Language and Identity í greiningu minni á þessum málum í bókum Ole Rølvaag.

 

Annemette Hejlsted, lektor í dönskum bókmenntum: Ofgnótt Ameríku – um vesturfaradrauma í klassísku barnakvæði Christian Winthers „Flugten til Amerika“

America as wonderland - on emigration dreams of Christian Winther's children’s classic The Flight to America 

In the 1830s, America was envisioned as a true wonderland in Danish literature. Hans Christian Andersen and Carsten Haug described America as a country where it flowed not with milk and honey, but with champagne and an abundance of freedom. The notion of America as paradise is also a part of Christian Winters narrative verse “The Flight to America” that over time has been given the status of children’s classics and is today included in the Danish literary canon. My presentation will study the image of America and the function of that image.

Amerika som slaraffenland – om udvandrer drømme i Christian Winthers børnebogsklassiker ”Flugten til Amerika”

I 1830’erne blev Amerika fremstilles som et slaraffenland i dansk litteratur. Hos H. C. Andersen og Carsten Haug var Amerika landet, hvor det flød ikke med mælk og honning, men med champagne og en overdådighed af frihed. Opfattelsen af Amerika som slaraffenland og et indlysende emigrationsmål indgår også i Christian Winters ”Flugten til Amerika”, der med tiden har fået status af børnebogsklassiker og i dag står på den danske kanonliste. Min paperfremlæggelse vil forme sig som en undersøgelse af værditilskrivningen af Amerika i ”Flugten” til Amerika og Amerikafremstillingens funktion i versfortællingen.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is