Almennur hluti doktorsnáms við Íslensku- og menningardeild

Doktorspróf við Íslensku- og menningardeild byggist á 240 eininga námi. Skiptist það í 60 eininga almennan hluta og 180 eininga doktorsritgerð. Almennur hluti doktorsnámsins ásamt alhliða þjálfun er samsettur úr formlegum námskeiðum, einstaklingsverkefnum, fyrirlestrum, veggspjöldum, fræðilegum greinum og háskólakennslu, samkvæmt nánari ákvörðun deildar.
 
Heimilt er að taka tillit til þeirrar reynslu eða undirbúnings sem doktorsnemi hefur aflað sér á ofangreindum sviðum áður en hann hóf formlegt doktorsnám. Námskeið sem voru hluti af meistaranámi doktorsnemans og námskeið sem honum kann að vera gert að taka til að uppfylla skilyrði um undirbúning, sbr. 3. gr., geta þó ekki gilt sem þáttur í hinum almenna hluta doktorsnámsins.
 
Doktorsnefnd metur hvenær doktorsnemi hefur lokið hinum almenna hluta doktorsnámsins og leggur mat sitt fyrir doktorsnámsnefnd til samþykktar. Æskilegt er að doktorsnemi ljúki sem fyrst þeim formlegu námskeiðum sem hann hyggst taka sem hluta af sínu almenna námi og að jafnaði eigi síðar en við lok fjórða misseris, enda eiga þau að þjóna sem undirbúningur fyrir ritun doktorsritgerðarinnar. Leiðbeinandi doktorsnema skal fylgjast með því að hinn almenni þáttur doktorsnámsins dragist ekki úr hömlu.
 
Samsetning hins almenna hluta
 
Doktorsnemi getur til að mynda sótt formleg námskeið við Háskóla Íslands, erlendan háskóla eða alþjóðleg námskeið, tekið leslistapróf, haldið fyrirlestra á fræðilegum ráðstefnum, sýnt veggspjöld á fræðilegum ráðstefnum, skrifað fræðilegar greinar í ritrýnd tímarit eða bækur, eða sinnt háskólakennslu. Ákveðnar lágmarks- og hámarkskröfur eru gerðar um samsetningu en doktorsnámsnefnd getur þó heimilað frávik frá þessum viðmiðum ef doktorsnefnd telur rök fyrir því.
 
  Hámark Lágmark
Námskeið 40 ECTS 10 ECTS alls fyrir námskeið og leslistapróf
Leslistapróf 20 ECTS
Fyrirlestrar og veggspjöld 16 ECTS 6 ECTS alls fyrir fyrirlestra, veggspjöld og greinar
Fræðigreinar 20 ECTS
Kennsla 20 ECTS 4 ECTS fyrir kennslu
 
Mat eininga
 
Ákveðnar viðmiðunarreglur gilda um hvernig meta skal til eininga framlag doktorsnema. Þessar viðmiðunarreglur geta doktorsnemar og leiðbeinendur nýtt sér við gerð námsáætlunar, við gerð árlegrar framvinduskýrslu sem og þegar reikna skal og skrá einingar, til að mynda vegna krafna LÍN og Félagsstofnunar stúdenta um lágmarkseiningaskil á misseri. Þegar doktorsnemi, leiðbeinandi og doktorsnefnd telja að almennum hluta doktorsnáms sé lokið skal leggja matið fyrir doktorsnámsnefnd til samþykkis. Í viðauka 1 má finna upplýsingar um fylgiskjöl sem fylgja skulu þegar mati er skilað til doktorsnámsnefndar. Athugið að lokaákvörðun um mat eininga liggur ávallt hjá doktorsnámsnefnd.
 
1 Birtingar 
 
Bókakaflar, tímaritsgreinar og greinar í ráðstefnuritum skulu metnar með tilliti til flokkunar matskerfis opinberra háskóla sem finna má hér. Einingar fyrir birtingar samsvara punktum sem gefnir eru í matskerfinu. 
 
 • 1.1 Ritrýnd útgáfa hjá virtustu vísindaforlögum heims (20 ECTS).
 • 1.2 Alþjóðleg ritrýnd útgáfa og innlend ritrýnd útgáfa með alþjóðlega skírskotun (15 ECTS). 
 • 1.3 Íslensk eða erlend ritrýnd útgáfa sem einkum miðast við staðbundið fræðasamfélag (10 ECTS).
 • 1.4. Kaflar í öðrum bókum (0–5 ECTS). 
 • 2.1 Grein birt í ISI-tímariti með háan áhrifastuðul og í tímariti sem raðast í A-flokk skv. ERIH (20 ECTS). 
 • 2.2 Aðrar greinar í ISI tímaritum, greinar í Scopus-tímaritum, greinar í B-flokki skv. ERIH eða greinar sem fá 1. einkunn í könnun fyrir tímarit (15 ECTS). 
 • 2.3 Greinar tímaritum í C- flokki í ERIH og greinar sem fá 2. einkunn í könnun fyrir tímarit (10 ECTS). 
 • 2.4 Greinar birtar í tímaritum sem fá 3. einkunn í könnun fyrir tímarit (5 ECTS). 
 • 3.1 Grein birt í ráðstefnuriti í úrvalsflokki (10 ECTS).
 • 3.2 Grein í öðru ráðstefnuriti (3–5 ECTS).
2 Þátttaka í ráðstefnum 
 
Fyrirlestrar og veggspjöld eru metin með tilliti til flokkunar matskerfis opinberra háskóla sem finna má hér. Einingar samsvara punktum í matskerfinu.
 
 • 4.1 Erindi á alþjóðlegri ráðstefnu (3 ECTS). 
 • 4.2 Erindi á innlendri ráðstefnu (2 ECTS). 
 • 4.3 Erindi á fræðilegu málþingi, málstofu eða fundi fyrir faghópa (1 ECTS). 
 • 4.4 Veggspjald á alþjóðlegri ráðstefnu (2 ECTS). 
 • 4.5 Veggspjald á innlendri ráðstefnu (1 ECTS). 

3 Kennsla

 • 5.1 Aðstoðarkennsla á háskólastigi þar sem doktorsnemi sér um a.m.k. einn kennslutíma sjálfur (2 ECTS). 
 • 5.2 Umsjón námskeiðs á háskólastigi með öðrum (helmingur þess einingafjölda sem námskeiðið gefur nemendum) 
 • 5.3 Umsjón námskeiðs á háskólastigi (jafnmargar einingar og námskeiðið gefur nemendum) 
 
Viðauki 1: Fylgigögn sem skila skal til doktorsnámsnefndar
 
1 Bókarkaflar
 • Ljósrit af forsíðu bókar og efnisyfirliti. Titill bókarkafla, nafn bókar, útgáfuár, útgefandi, blaðsíðutal í bók og nafn/nöfn höfunda.
2 Tímaritsgreinar
 • Ljósrit af forsíðu/tiltilsíðu tímarits og efnisyfirliti. Titill greinar, nafn tímarits, útgáfuár og tölublað, útgefandi, blaðsíðutal í tímariti og nöfn höfunda. Öll nöfn þurfa að koma fram.
3 Greinar í ráðstefnuriti
 • Ljósrit af forsíðu og efnisyfirliti ráðstefnurits eða tilvísun í heimasíðu/gagnabanka á vef. Koma þarf fram frá hvaða ráðstefnu grein er (ekki skammstafað), hver heldur ráðstefnuna, hvar og hvenær hún er haldin. Eftirfarandi þarf að koma fram í færslu: Titill greinar, nafn ráðstefnurits, útgáfuár, nafn ráðstefnu, staður, dags. ráðstefnu, útgefandi, blaðsíðutal í riti og nafn/nöfn höfunda bókarkafla.
4 Fyrirlestrar og veggspjöld
 • Fyrirlestrar almennt: Dagskrá ráðstefnu eða fundar verður að fylgja. Nafn erindis, nafn ráðstefnu, staður, dagsetning flutnings, nöfn höfunda og nafn flytjanda. Koma þarf fram hver heldur ráðstefnuna (ekki skammstafað) og hvar hún er haldin.
 • Veggspjöld almennt: Dagskrá ráðstefnu þarf til staðfestingar á kynningu veggspjalds. Titill veggspjalds, nafn ráðstefnu, staður, dagsetning kynningar, nafn/nöfn höfunda. Koma þarf fram hver heldur ráðstefnuna (ekki skammstafað) og hvar hún er haldin.
5 Kennsla
 • Nafn námskeiðs, fjöldi eininga og nánari útlisting á hlutdeild í kennslunni (aðstoðarkennsla, umsjón og/eða kennsla að hluta eða öllu leyti).
 
Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is