Allir útdrættir

11. mars kl. 15.10, stofa 229
Aðalheiður Guðmundsdóttir, aðjunkt í þjóðfræði og stundakennari:
Hildur milli steins og sleggju: Um Hildi Högnadóttur sem táknmynd ófriðar

Þótt Hildur Högnadóttir sé okkur best kunn úr fornaldarsögunni Héðins sögu og Högna (sbr. Sörlaþátt), er til hennar vísað í ýmsum eldri heimildum, s.s. Ragnarsdrápu Braga Boddasonar, Haustlöng Þjóðólfs úr Hvini, Háleygjatali Eyvindar skáldaspillis, Háttalykli Halls Þórarinssonar og Rögnvalds jarls, Danmerkursögu Saxos, Skáldskaparmálum Snorra-Eddu og hinu miðháþýska söguljóði Kudrun (Gudrun lied).

Á sænsku eyjunni Gotlandi eru varðveittir tveir myndsteinar frá 8. eða 9. öld, sem meðal annars fela í sér mynd af konu milli tveggja herfylkinga. Sumir telja að hér sé á ferðinni Hildur Högnadóttir í öllu sínu veldi, en aðrir telja óvarlegt að túlka myndirnar sem svo að þær vísi í ákveðna sögu, og benda á að myndminni frá miðöldum geti verið stöðluð og án baklægrar merkingar. Í fyrirlestrinum verður leitast við að setja myndir steinanna tveggja í stærra samhengi og auka á trúverðugleika þess að myndunum sé ætlað að vísa til hinnar einu og sönnu Hildar.

12. mars kl. 13.25, stofa 218
Anna Agnarsdóttir, prófessor í sagnfræði:
Kenndu Bretar Íslendingum að hata Dani?

Árið 1812 skrifaði Magnús Stephensen, leiðtogi Íslendinga, til ensks hefðarmanns: “Iceland finds itself happy under the sceptre of its lawful Sovereigns, our most gracious Kings of Denmark & Norway.” Íslendingar voru mjög konungshollir og íslensk alþýða sendi vongóð bænarskrár beint til konungs um hin ýmsu mál en við upphaf sjálfstæðisbaráttunnar var komið annað hljóð í strokkinn. Hvað var konungur? „Skuggi, vofa í purpurakápu, sem þjóðirnar lúta af heimsku sinni,“ skrifaði Gísli Brynjúlfsson svo dæmi sé tekið. En hvað hafði gerst í millitíðinni til að breyta viðhorfum Íslendinga til konungs og Dana? Þegnar breska heimsveldisins gáfu út hverja bókina á fætur annarri sem rataði til landsins þar sem þeir lýstu þeirri eymd sem þeir hefðu orðið vitni að á Íslandi. Og hverjum var það að kenna? Jú, kúgun og óstjórn Dana. Rætt verður um þátt Breta í að kenna Íslendingum að hata Dani.

12. mars kl. 10.30, stofa 218
Ari Páll Kristinsson, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Málakademíur og markmið

Á tímum þjóðbyggingar getur verið talsvert samræmi milli málstýringar, málviðhorfa og málhegðunar sem eru þrjú meginatriði málstefnu (Spolsky 2004). Telji valdhafar málstýringu skila árangri án þátttöku málakademíu/-nefndar setja þeir tæpast á oddinn að koma henni á fót enda eru fleiri dæmi um að málstefnu hafi verið hrundið í framkvæmd án akademíu en með slíkri stofnun. Að því getur þó komið að valdhafar bregðist við meintu breyttu málástandi og/eða aukinni menningarlegri margleitni m.a. með því að stofna málakademíur enda þótt tiltölulega samstæður málstaðall sé þegar til staðar. Til dæmis mætti skoða stofnun Íslenskrar málnefndar og síðari lagabreytingar um hana sem dæmi um þess háttar viðbrögð.

12. mars kl. 11.05, stofa 207
Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor í samstæðilegri guðfræði með áherslu á kvennaguðfræði:
Krista á krossinum

Myndirnar af Kristu, af þjáðum kvenlíkama á krossinum, tjá samsemd Krists með konum sem orðið hafa fyrir barsmíðum, nauðgun eða annarri misþyrmingu. Þannig undirstrika þær almenna skírskotun hins krossfesta Krists, þvert á alla aðgreiningu fólks eftir kyni, kynþætti eða stétt. Kristu-myndirnar eru dæmi um skapandi endurskoðun á túlkun og hlutverki krossins, endurskoðun sem gerir kröfur um að gagnrýni á hvers konar misnotkun sé tekin alvarlega, um leið og hún hafnar því að misnotkunin komi í veg fyrir að krossinn flytji von til þeirra sem einhverra hluta vegna hafa verið rænd voninni.

12. mars kl. 10.30, stofa 111
Ásdís Egilsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda:
Hellir Esju. Synir, mæður og tröllkonur í Kjalnesinga sögu

Kjalnesinga saga er ung Íslendingasaga sem ekki hefur hlotið mikla athygli fræðimanna. Hér verður sjónum beint að Búa Andríðssyni og samskiptum hans við konur, mennskar, hálfmennskar og tröllkonur. Esja, fóstra Búa, sem á margt skylt með tröllkonum, verndar hann en ráðskast einnig með hann. Búi er ennfremur tregur til þess að takast á hendur hlutverk hins fullorðna karlmanns. Hvorki hann né kolbíturinn Kolfiðr, sem einnig kemur við sögu, hafa karlkyns fyrirmyndir þegar þeir eru að vaxa upp. Sagan er þannig þroskasaga ungs karlmanns sem á erfitt með að standa undir þeim kröfum sem gerðar eru til karla.

11. mars kl. 16.20, stofa 218
Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum:
Tungumál og menning: Skiptir tungumálið máli?

Í þessum fyrirlestri verður fjallað um tengsl tungumáls og menningar út frá bókmenntalegu samhengi. Í menningarheimum samtímans fer kunnátta á erlendum tungumálum minnkandi og í æ ríkara mæli eru „heimsbókmenntir“ lesnar í þýðingum. En skiptir tungumálið máli þegar bókmenntaverk á í hlut? Vakin verður athygli á stöðu erlendra tungumála í íslensku menntakerfi og þeirri spurningu velt upp hvernig Háskólinn eigi að bregðast við breyttum viðhorfum til tungumálanáms.

11. mars kl. 13.00, stofa 229
Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Hvernig breiðast málbreytingar út? Af tilbrigðum í frumlagsfalli og (vaxandi) þágufallshneigð

Í fyrirlestrinum verður tekið dæmi af svonefndri þágufallshneigð og skoðað hvaða sögu hún segir um útbreiðslu málbreytinga: Hvaða þættir stuðla að því að breyting breiðist út, hvaða þættir sporna gegn því og hversu hratt gengur breytingin í gegn?

Rannsóknir sem gerðar hafa verið á undanförnum áratugum staðfesta að í íslensku nútímamáli eru tilbrigði sem felast í því að frumlag með tilteknum ópersónulegum sögnum er ýmist í þolfalli eða þágufalli: Hana langar (þf.) í köku og Henni langar (þgf.) í köku. Þágufallið er talið vera nýjung og niðurstöður rannsókna benda til að hlutfall þess fari vaxandi á kostnað þolfalls. Þarna virðist því vera breyting á ferðinni en rannsóknir sýna að hún gengur ekki jafnt yfir heldur hafa ýmsir innri og ytri þættir áhrif á gang hennar.

12. mars kl. 11.05, stofa 218
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum:
„Ég get ekkert sagt.“
Um skáldskap og hrun

Í erindinu verður  fjallað um fáein ljóð úr nýrri  ljóðabók Antons Helga Jónssonar, Ljóð af ættarmóti. Rætt verður um ýmis megineinkenni þeirra,  settar fram skýringar á áhrifamætti þeirra og hugað að hvernig þau tengjast – eða hvernig  tengja má þau – samfélagi, sögu og pólitískri umræðu hérlendis eftir hrun.

11. mars kl. 14.10, stofa 207
Björn Norðfjörð, lektor í kvikmyndafræði:
Norræna höfundamyndin: Í kjölfar Dreyer og Bergman

Ófáir norrænir leikstjórar hafa leikið mikilvæg hlutverk í sögu kvikmyndalistarinnar. Frægastur þeirra er þó án efa Svíinn Ingmar Bergman sem upp úr miðri tuttugustu öldinni mótaði umfram aðra tilurð og þróun listrænu kvikmyndarinnar. Þó að frægð Danans Carls Theodors Dreyer hafi ekki verið sambærileg lék hann um margt svipað hlutverk en feril hans má rekja allt aftur til þögla skeiðsins.

Í þessu erindi verður höfundamynd samtímans á Norðurlöndum skoðuð í ljósi þessarar forsögu. Frægasti og umdeildasti fulltrúi hennar er Lars von Trier en á meðal annarra markverðra leikstjóra mætti nefna Roy Andersson, Bille August, Susanne Bier, Friðrik Þór Friðriksson, Aki Kaurismäki, Lukas Moodysson og Thomas Vinterberg. Verða verk þessara leikstjóra borin saman við sígildu norrænu höfundamyndina með það að leiðarljósi að draga fram lykilbreytingar í framleiðslu, efnistökum og stíl myndanna.

12. mars kl. 15.50, Hátíðasalur
David Wallace, prófessor í ensku við Háskólann í Pennsylvaniu og situr í stöðu sem kennd er við Judith Rodin: From Iceland to Cairo: Literary History, and where Europe Begins and Ends

website: http://www.english.upenn.edu/~dwallace/regeneration/

This talk addresses the challenges of conceptualizing a literary history of medieval Europe. After World War II, great philologists attempted to regenerate Europe, and to reattach it to its cultural past, by emphasizing the unifying tropes and figurae of Latinitas. But what might serve as a model for our own troubled times? In the late Middle Ages, as today, it proved difficult to know where Europe begins and ends; and by what criteria (geographical, geological, religious) can Europe be defined? Literary histories based upon linguistic blocks (French, Italian, Spanish, etc.) replicate investments of nineteenth-century nationalism that misrepresent the fluidity of medieval textual exchange. This talk, employing the website above, proposes an alternative organizational model of literary itineraries: one that suggests the complexity, especially, of ‘Icelandic writing.’     

12. mars kl. 10.30, stofa 207
Eggert Þór Bernharðsson, prófessor í hagnýtri menningarmiðlun:
„Undarlegt sambland af sveitaþorpi og stórborg.“
Þróun Reykjavíkur 1940 til 1970

Í fyrirlestrinum verður fjallað um „rætur“ borgarinnar og samspil „sveitarinnar“ í bænum og aukins þéttbýlis í Reykjavík, einkum frá fjórða áratugnum og fram á sjöunda áratuginn. Á þeim tíma var mörgum sárt um „sveitina“ í bænum enda var hún hluti þess samfélags sem hafði fóstrað stóran hóp íbúanna, minnti á ræturnar. En varðstaðan gat virkað í tvær áttir og því má halda fram að „sveitabærinn Reykjavík“ hafi átt sinn þátt í því að hraða borgarmynduninni og þar með flýtt komu hins nýja þjóðfélags þéttbýlisins. Þannig má segja að „sveitin“ í bænum hafi gegnt þýðingarmiklu hlutverki í þróun Reykjavíkur.

12. mars kl. 12.40, stofa 229
Erik Skyum-Nielsen, lektor í bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla og fyrrverandi prófastur á Garði:
Regensen - en nordisk smeltedigel

Foredraget vil belyse kollegiet Regensen (Gardur, oprettet 1623) som mødested gennem århundreder for islandsk og dansk akademisk og litterær kultur. Blandt de personligheder, som uundgåeligt må melde sig i billedet undervejs, f.eks. nævnes Finnur Magnússon, Jónas Hallgrímsson, Hannes Hafsteinn og Grímur Thomsen. Og midt i al denne lærdomshistorie bliver der formodentlig også plads til en anekdote eller to.

12. mars kl. 12.40, stofa 225
Frans Gregersen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla og stjórnandi verkefnisins LANCHART (Language Change in Real Time):
Two and a half types of variation

In the paper I want to exemplify and discuss three kinds of variation. Two of them are actually similar in an important way which is why they make up only two and a half types.

The first type of variation is well-known and well attested: Here, variation leads to change. The example I will present is one allophone of the phoneme (a) in Danish. A long term process of raising has led to the abolishment of the oldest allophone of (a), the lowest and most back variant.

The other type of variation may be called variation which does not lead to change. It comes in two guises: Stable variation is a kind of variation which apparently never (at least yet) reaches completion. The higher and more front allophones of Danish short (a) are a case in point. The second type of variation which does not lead to change, I propose to call 'a ghost reappearing': In early testimonies of 17th Century high class Copenhagen Danish we find - inferred from the letters of one individual - written forms which may best be explained as manifesting a variation which we find even to-day, viz that between [e] and [?] before the velar nasal [?].

I shall document the three types on the basis of material from the LANCHART Centre and discuss the implications for a theory of phonetic change.

11. mars kl. 13.35, stofa 218
Geir Sigurðsson, dósent í kínverskum fræðum:
Hvað er sköpun? Fáeinar þvermenningarlegar evrasískar hugleiðingar

Hvernig skiljum við sköpun, sköpunarafl og sköpunargáfu? Vestrænn skilningur á sköpun virðist grundvallast á sjálfri Sköpunarsögu Biblíunnar og frásögn hennar af sköpun heimsins úr óendanlegu almætti Guðs. Þar til fyrir skemmstu voru vestrænar hugmyndir um sköpunargáfu að mestu afsprengi þessara biblísku hugmynda. Á seinni árum hafa þær þó tekið talsverðum breytingum, ekki síst fyrir tilstilli asískra menningaráhrifa. Það kann að koma á óvart þar sem Vesturlandabúar hafa löngum talið asíska menningu einkennast af skorti á sköpunargáfu. Í erindinu verður þessi misskilningur rakinn og jafnframt varpað ljósi á þessi skapandi menningarmót.

11. mars kl. 14.10, stofa 229
Gottskálk Jensson, prófessor í almennri bókmenntafræði:
Latínukvæði Bergs Sokkasonar í AM 382 4to

Í handritinu AM 382 4to frá því um 1350, sem geymir leifarnar af svokallaðri B-gerð Þorláks sögu helga, stendur á fremsta blaði lofkvæði eitt á latínu til Þorláks helga sem ávallt hefur verið sleppt í útgáfum. Nýleg rannsókn sýnir þó að kvæði þetta er á margan hátt áhugavert og veitir ýmsar upplýsingar sem annars liggja ekki á lausu um B-gerð Þorláks sögu, ritunartíma hennar og hugmyndafræði. Í erindinu verður kvæðið skoðað og það greint, og rök færð fyrir því að Bergur Sokkason ábóti í Benediktsklaustrinu á Munkaþverá í Eyjafirði hafi versað það um 1350 til þess að standa fremst í leiðréttri og aukinni útgáfu hans á sögu dýrlingsins.

11. mars kl. 16.20, stofa 229
Grégory Cattaneo, doktorsnemi í sagnfræði við HÍ og Sorbonne-háskóla:
A note on the oath of fidelity in Medieval Norway and Iceland

This paper puts forward a new perspective in the study of a well-known institution of the Medieval West, namely the ceremony of hominium and most precisely one of its aspects, the juramentum fidelitatis. I will focus on the oath of fidelity (ON. „trúnaðareiður“) as it was practiced in the periphery of Medieval Europe, more specifically thirteenth century Norway and Iceland.  The two main sources I will rely on are the Hirðskrá _a legal treatise concerning royal servants in Norway_ and the Sturlunga saga _ a compilation of narratives used by most historians in the study of Medieval Iceland, both from the second half of the thirteenth century. These texts describe some ties among men and show how this ritual is used to enter the service of a dominus, either the King of Norway, or the powerful Icelandic chieftains (höfðingjar). But in the stateless society of Sturlunga Age Iceland, this oath of fidelity is also used as mean for ambitious chieftains to bond followers and exercise their power over large geographical areas. I will first analyze the recommendation in Norwegian source and ponder whether it is a copy of continental rituals. I will then examine some passages from the Sturlunga saga in order to shed light on this unknown practice and its functions in Medieval Iceland. I will finally suggest an explanation about the ritual of the oath in Iceland.

12. mars kl. 14.00, stofa 218
Guðmundur Hálfdanarson, prófessor í sagnfræði:
Þjóðskóli eða launamannaverksmiðja? Háskóli Íslands 1911-1961

Því er oft fleygt á hátíðarstundum að Háskóli Íslands sé þjóðskóli Íslendinga – og er þá gjarnan vísað til tillagna Jóns Sigurðssonar á Alþingi árið 1845 um stofnun slíks skóla á Íslandi. Í tilefni aldarafmælis Háskólans og tveggja alda afmælis þjóðhetjunnar verður gerð grein fyrir því hvernig frumkvöðlar Háskólans skildu hugtakið „þjóðskóli“ og hvernig forystumenn hans og íslenskir stjórnmálamenn túlkuðu hlutverk skólans í mótun þjóðarvitundar á Íslandi, hvernig þeir sáu að samband þjóðar og skólans yrði best háttað og hvernig skólinn myndi best þjóna Íslendingum sem „vísindaleg rannsóknarstofnun og vísindaleg fræðslustofnun“.

11. mars kl. 15.45, stofa 229
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði:
Svartir svanir og spádómsgildi sögunnar

Á þeim óvissu- og ólgutímum sem komið hafa í kjölfar efnahagshrunsins 2008 hefur áhugi manna á sögulegri þekkingu vaxið mikið. Menn hafa leitað í söguna til að skilja betur samtímann, finna staðfestu og jafnvel leiðsögn um hvernig hægt er að komast út úr yfirstandandi vandræðum. Því er t.d. haldið fram að hagfræðingar hafi brugðist vegna þess að þeir þekktu ekki nægilega til sögunnar. En þótt spurn eftir sögulegri þekkingu hafi aukist er ekki gefið að sagnfræðin standi undir þeim væntingum sem til hennar eru gerðar. Í erindinu verða þessi mál skoðuð og sér í lagi hvort sagan hafi spádómsgildi. Eiga sagnfræðingar að spá í framtíðina?

12. mars kl. 14.00, stofa 225
Guðni Elísson, prófessor í almennri bókmenntafræði:
Skortsali ástarinnar: Höfundur, lesandi og bókmenntagrein

Í fyrirlestrinum fjallar Guðni Elísson um tengsl Góða elskhugans, nýjustu skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur, við tilfinningabókmenntir og kenninguna um samúð eða samkennd (e. doctrine of sympathy), sem skipar veigamikinn sess í hugmyndafræði átjándu og nítjándu aldar. Mikilvægi ástarinnar í mannlegri reynslu varð að lykilatriði í skáldskapnum. Manneskjan varð að gefa sig alla á vald því feiknarafli sem fylgdi sannri ást, henni þjónuðu hugur, hjarta og líkami algjörlega og að fullu. Hver þessara þriggja uppspretta gat brugðist ástinni og ef líkaminn brást, t.d. með því að sýna losta eða teprulega vandlætingu hafði það jafn alvarlegar afleiðingar og svik hugar og hjarta, en vert er að skoða skáldsögu Steinunnar út frá þessum gömlu hugmyndum.

12. mars kl. 11.05, stofa 111
Guðrún Kvaran, prófessor og stofustjóri orðfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Björn M. Ólsen og íslenskt mál

Björn M. Ólsen nam málvísindi við Kaupmannahafnarháskóla og skrifaði doktorsritgerð um rúnir í forníslenskum bókmenntum. Hann var kennari við Háskóla Íslands við stofnun hans og fyrsti rektor skólans. Í fyrirlestrinum verður sjónum aðallega beint að svokölluðum „vasabókum Björns M. Ólsen“. Þær eru fjörutíu talsins og varðveittar hjá orðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Mikið efni er að finna í bókunum, mest um staðbundinn orðaforða, en einnig ýmislegt sem snertir framburð og beygingar einstakra orða og nýtist vel við sögulega lýsingu íslenskrar tungu. Í bókunum er einnig að finna athugasemdir um nöfn, einkum örnefni. 

11. mars kl. 14.10, stofa 218
Guðrún Theodórsdóttir og Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli:
Íslenskuþorpið: Leið til þátttöku í daglegum samskiptum á íslensku

Nemar í íslensku sem öðru máli hafa ekki mörg tækifæri til að nota nýja málið við daglegar aðstæður í íslensku samfélagi. Samskipti á íslensku utan kennslustofunnar geta þó skipt miklu máli í íslenskunáminu. Í fyrirlestrinum verða ræddar nýstárlegar hugmyndir um að búa til smækkaða mynd af „Íslenskuþorpi“ í miðbæ Reykjavíkur, með banka, kaffihúsi o.s.frv. Með „Íslenskuþorpinu“ væri búinn til e.k. stökkpallur úr kennsluumhverfinu yfir í aðstæður raunverulegs lífs þar sem málnemum er gefinn kostur á að sinna daglegum erindum sínum á íslensku og auka þannig íslenskukunnáttu sína um leið.

Hugmyndin að baki „Íslenskuþorpinu“ grundvallast á niðurstöðum Guðrúnar Theodórsdóttur en í doktorsrannsókn sinni (2010) hefur hún sýnt fram á að málnemi í íslensku sem öðru máli beitir markvissum aðferðum og nýtir hversdagsleg samskipti í tvíþættum tilgangi, þ.e. annars vegar til að sinna raunverulegum erindum og hins vegar til að tileinka sér og nota tungumálið.

12. mars kl. 10.30, stofa 229
Gunnþórunn Guðmundsdóttir, dósent í almennri bókmenntafræði:
Safnið týnda: Pavelló de la Republica og samningurinn um gleymskuna

Pavelló de la Republica var sýningarskáli Spænska lýðveldisins í miðri borgarastyrjöld á heimssýningunni í París 1937, þar sem Guernica Pablos Picasso var fyrst sýnd. Skálinn var endurbyggður í Barcelona 1992 og tveimur árum síðar var þar komið fyrir sameiginlegu safni ýmissa bóka- og skjalasafna sem einkum varðveitir heimildir um borgarastyrjöldina og Francotímann. Í fyrirlestrinum verður skoðað hvernig safnið endurspeglar þá togstreitu um minni og gleymsku sem einkennt hefur spænska orðræðu eftir að lýðræði var komið á að nýju og sú orðræða sett í samhengi við hugmyndir um minni, tráma, vitnisburði og gleymsku á 20. öld.

11. mars kl. 16.20, stofa 225
Helgi Þorláksson, prófessor í sagnfræði:
Tamið ofbeldi

Í hugum margra mun ofbeldi vera eitt helsta einkenni miðalda. Sumir telja að miðaldamenn hafi skort siðfágun og látið kenndir og duttlunga stjórna framferði sínu. Þessu hefur verið andæft á ýmsum forsendum, t.d. þannig að ofbeldi á miðöldum hafi iðulega verið takmarkað og fylgt ákveðnum venjum. Fæðardeilur í Íslendingasögum eru nefndar sem dæmi. Giltu almennt venjur um ofbeldi á 11. og 12. öld sem tempruðu það eða var það algengt og taumlítið?

Dáðu miðaldamenn ofbeldi? Dýrkuðu riddarar ofbeldi og beittu því óspart og var riddaramennska kannski siðfágun sem risti grunnt? Eða er riddaramenning til marks um andúð á ofbeldi og temprun þess?

Ekki ber mikið á gagnrýni á ofbeldi fyrir 1200, eða svo. Hvernig gat það verið? Það er eins og hugsuðir hafi ekki farið að brjóta ofbeldi til mergjar fyrr en um 1200 og þá kemur fram hugmyndin um grimmd. Hvaða áhrif hafði hún á hugmyndir og hugsun um ofbeldi?

11. mars kl. 13.00, stofa 207
Henry Alexander Henrysson, nýdoktor hjá Heimspekistofnun:
Samfélag þjóða: Frumspeki og réttlæti í kenningu Wolffs um þjóðarétt

Margir fræðimenn líta svo á að þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724-1804) hafi í ritum sínum verið fyrstur heimspekinga til þess að stefna þjóðréttarhugmyndum nýaldar í átt að alþjóðahyggju samtímans með því að hvetja til þess að sjálfstæð ríki gerðu með sér þjóðabandalög. Staðreyndin er hins vegar sú að landi hans, Christian Wolff (1679-1754), hafði sett fram svipaðar hugmyndir nokkrum áratugum fyrr og byggt þær á frumspekilegum rannsóknum sínum.

Í þessum fyrirlestri verða rædd rök Wolffs fyrir því að hugmyndir um sjálfstæðar þjóðir sem ekki mynda með sér einhvers konar samfélag sé fullkomlega óraunhæf. Hún sé, í ákveðnum fræðilegum skilningi, ónáttúruleg. Einnig verður skoðað hvernig Wolff setur þessa hugmynd fram sem niðurstöðu ítarlegs frumspekilegs kerfis og að sá sem ætli að hafna kenningunni, og meðfylgjandi réttlætishugtaki, gæti einnig þurft að sýna fram á hvar þetta kerfi bregst.

12. mars kl. 10.30, stofa 225
Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu:
Samband ríkis og kirkju — Nýir straumar í umræðunni

Fengist verður við trúmálabálk stjórnarskrár lýðveldisins sem hefur að geyma kirkjuskipan og trúfrelsisákvæði (62.–64. gr.). Saga ákvæðanna verður rakin og meginþættir þeirra túlkaðir. Þá verður sýnt fram á hvernig nýr skilningur á trúfrelsi hefur rutt sé til rúms hér á landi á síðustu mánuðum, viðbrögð við honum rakin og helstu einkenni þróunarinnar greind.  

12. mars kl. 14.00, stofa 222
Hoda Thabet, doktorsnemi í bókmenntafræði:
Re-identification of Female Suffering: Arab Female Novelists Portray Middle Eastern Females in Transition

Novels:
(Woman at Point Zero, The Night of the First Billion, The Golden Chariot, The Inheritance, Memory in the Flesh, The Story of Zahra).

To investigate Arab females’ nostalgia and empowerment; enhanced reading into Hanan El-Sheikh/Lebanese, Nawal El Saadawi/Egyptian, Ghada Samman/Syrian, Salwa Bakr/Egyptian, Sahar Khalifeh/ Palestinian and Ahlam Mosteghanemi/Algerian is proposed. Egypt, Lebanon, Syria, Palestine and Algeria are known for their iconic roles in shaping the region’s thoughts and ideologies; the Arab female authors in these lands stand in the heart of cultural reforms due to their leading roles in addressing the state of females in the entire region. Through reading Arab female characters (Ferdaus/ Woman at Point Zero, Kafa/ The Night of the First Billion, Aziza/ The Golden Chariot, Nahla/ The Inheritance, Ahlam/ Memory in the Flesh and Zahra/ The Story of Zahra,) –their preliminary cultural empowerment is extended into systematized global presence.   

11. mars kl. 15.45, stofa 207
Jón Ma. Ásgeirsson, prófessor í nýjatestamentisfræðum:
Upprisur í frumkristni

Á undanförnum áratugum hafa hugvísindi verið krafin um endurskilgreiningar á fjölmörgum hugtökum yfir meint fyrirbæri sem lengstum voru talin hafin yfir nokkurn vafa. Biblíufræði hafa ekki farið varhluta af þessari kröfu. Upprisa Krists er enn talin einn helsti samnefnari Nýja testamentisins jafnt í nýjatestamentisfræðum og kristinni trúfræði. Í þessu erindi verður fjallað um upprisur í kristnum hefðum innan og utan Nýja testamentisins og sýnt fram á að þessi forsenda stenst ekki nákvæma skoðun. Jafnvel innan eins og sama ritsins má greina ólíkar skilgreiningar á upprisuhugtakinu.

12. mars kl. 10.30, stofa 231
Jón Egill Eyþórsson, aðjunkt í kínverskum fræðum:
Heimsmynd Kína til forna og Hjól Rangárhverfis

Þótt goðsagnir Kína til forna þyki fátæklegar og brotakenndar samanborið við grískrómverskar, norrænar o.fl. má segja að þær séu upprunalegri og óspilltari, því minna fór fyrir því að einstaklingar tækju sér skáldaleyfi við varðveislu þeirra í rituðu máli. Þær gefa okkur innsýn í lifandi trúarhefð þessarar miklu menningarþjóðar fyrir tilkomu taóisma og búddisma. Í fornkínverskum goðsögnum koma fram ýmsar skemmtilegar samsvaranir við þá heimsmyndarfræði sem Einar heitinn Pálsson las út úr Njálu og fleiri íslenskum fornritum

12. mars kl. 10.30, stofa 222
Jón Axel Harðarson, prófessor í íslenskri málfræði:
Með góðum ilm skal mey heilla. Um Duenos-áletrunina fornlatnesku, einkum miðlínu hennar

Hin fræga Duenos-áletrun er á litlum þrívasa eða þrískiptu keri frá fyrri hluta 6. aldar f. Kr. Í vasanum var unnt að geyma þrjú ilmsmyrsl. Textinn, sem ritaður er í þremur línum, er á mjög fornri latínu og án orðaskila. Fræðimönnum hefur tekist að ráða fyrstu og þriðju línu að mestu leyti en erfitt hefur reynst að berja merkingu í aðra línuna. Í fyrirlestrinum verður reynt að bæta skilning okkar á henni.

11. mars kl. 13.35, stofa 225
Jón Karl Helgason, dósent í íslensku sem öðru máli:
„Þú talar eins og bók“. Pirandello, Brecht og Nordal

Haustið 1945 frumsýndi Leikfélag Reykjavíkur leikritið Uppstigningu eftir H.H. en þeir upphafstafir vísuðu til einnar aukapersónu verksins, Hæstvirts höfundar. Í lok sýningartímans kom á daginn að á bak við þetta dulnefni stóð Sigurður Nordal (1886-1974), prófessor í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Í fyrirlestri sínum setur Jón Karl Helgason verkið í samband við fagurfræði leikritahöfundanna Luigis Pirandello (1867-1936) og Bertold Brecht (1898-1956) og kenningar bandaríska bókmenntafræðingsins Brians Stonehill um meðvituð skáldverk (e. self-conscious fiction).

11. mars kl. 13.35, stofa 207
Kaoru Umezawa, lektor í japönsku:
How to be polite in Japanese – what are the challenges for Icelandic learners of Japanese?

Japanese has the honorific language that is well developed within its grammatical system and vocabularies. The main factors to be taken into consideration in its usage are the social status, age, close-distant and uchi –soto relationship, and psychological perception of speaker and hearer as well as the topic or the person that they are talking about. To switch between the levels appropriately can be challenging for the learners, but necessary for smooth and successful communication. For Icelandic students, the matters such as the perception of social hierarchy and in which context one should be polite to someone and how to express it, might be quite different from that of Japanese. In this talk, I would like to discuss about what the main problems are for the Icelanders to learn the Japanese honorifics and how the teaching could be improved.

12. mars kl. 11.05, stofa 222
Karl Cogard, sendikennari í frönsku:
A grammatical peculiarity in "Un Coeur simple" by Flaubert

One knows Marcel Proust's jugdment on Flaubert's style and his famous expression "grammatical beauty" to name it. But what does "grammatical beauty" mean? Here is the question we would like to go through: for this purpose, we will study "Un Coeur simple", one of the last text written by Flaubert, in 1876. In this short story, we will develop a stylistic reading of a short extract that will focus on a specific use of the definite article, in other words one of those "grammatical peculiarities" cherished by Proust.

The lecture will be held in French.

11. mars kl. 15.10, stofa 225
Katrín Axelsdóttir, aðjunkt í íslensku:
Sunnudagskrossgáta Morgunblaðsins: saga, gerð, viðtökur

Í Morgunblaðinu hefur um árabil birst krossgáta sem er nokkuð ólík þeim krossgátum sem Íslendingar eiga að venjast. Fyrirmyndin að þessari gátu er það sem heitir á ensku „cryptic crosswords“, en slíkar gátur eru alla jafna talsvert strembnari en hefðbundnar krossgátur. Vísbendingarnar í þessum gátum eru af margvíslegu tagi en í hefðbundnum krossgátum er ævinlega fiskað eftir samheitum orða sem eru gefin. Í fyrirlestrinum verður stuttlega fjallað um sögu Morgunblaðsgátunnar og viðtökur en sjónum verður aðallega beint að gerð vísbendinganna sjálfra og mögulegri flokkun þeirra.

12. mars kl. 11.05, stofa 229
Kristín Guðrún Jónsdóttir, aðjunkt í spænsku:
„Kæri bróðir ... ég ákalla þig af öllu hjarta.“ Pancho Villa, byltingarhetja Mexíkó og dýrlingur alþýðunnar

Francisco Villa, betur þekktur sem Pancho Villa, er án efa ein helsta þjóðhetja Mexíkó. Margir þekkja hann sem forsprakka norðanmanna í mexíkósku byltingunni og kannast við myndir af honum þar sem hann þeysist um á reiðskjóta sínum með skothylkjabeltið krosslagt yfir bringuna. En á bak við þessa ímynd leynist önnur hlið sem er ekki eins þekkt og því síður hluti af opinberri orðræðu. Það er sú hlið byltingarhetjunnar sem tengir hann trúarlegri iðkun og áheitum. Margt bendir til þess að alþýðan hafi tekið hann í tölu helgra manna og tigni hann sem slíkan. Í erindinu verður sjónum beint að þessum þætti byltingarhetjunnar. Bænir verða teknar fyrir, trúarlegir textar og ýmis fyrirbæri sem tengjast tignun Sankti Pancho Villa.

11. mars kl. 15.10, stofa 231
Kristjana Kristinsdóttir, lektor í skjalfræði:
Koma Oluff Pedersøn fyrrverandi fógeta í kansellíið árið 1635 og áhrif þeirrar heimsóknar á söfnun eignarheimilda á Íslandi árin 1639–1645

Árið 1635 kom Oluff Pedersøn fyrrverandi fógeti tveggja lénsmanna í kansellíið og gerði athugasemdir í 22 liðum við ýmislegt sem betur mætti fara við rekstur konungseigna og eigna kirkjunnar á Íslandi. Landinu væri illa stjórnað og Íslendingum alls ekki treystandi. Árið eftir, 1636, skipar konungur lénsmanni sínum Pros Mund að afla upplýsinga á alþingi hjá ráðamönnum og leita svara við gagnrýni Oluff og leggja fyrir kansellí með tillögum til úrbóta. Svarið er undirritað á Bessastöðum 8. júlí 1637. Árið 1638 gefur konungur út fyrirskipun um heilmikla skjalagerð og söfnun eignarheimilda. Þessi skipun var lesin upp á alþingi 1639. Hófst með því mikil söfnun heimilda um konungseignir og eignir kirkjunnar. Þessi söfnun stóð til 1645.

12. mars kl. 14.00, stofa 207
Lára Magnúsardóttir, sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknarseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra:
Umkomuleysi hugtaka á borð við græðgi, rannsóknarskýrsla og afsökunarbeiðni í samhengi við kenningarskort um stjórnarfar á miðöldum

Stjórnarfyrirkomulag í vestrænum ríkjum er talið eiga upphaf sitt að rekja aftur til 12. aldar, sem gefur til kynna að greina megi sameiginlega þætti sem geri ríkin „vestræn“ enda voru þá lögð drög að flestum þeim hugtökum sem leggja grunn að vestrænu stjórnarfyrirkomulagi. Þó vantar mikið upp á að fræðimenn hafi komið sér saman um kenningaramma til að ganga út frá í umfjöllun um tímabilið frá 12. öld og fram að endurreisnartímanum, sérstaklega í samhengi við hlutverk kirkju og siðferðissjónarmiða í lagasetningum og stjórnskipulagi. Í fyrirlestrinum heldur Lára því fram að þetta kenningarleysi hafi bein áhrif á beitingu hugtaka sem á undanförnum árum hafa skotið upp kollinum með nýjum hætti í pólitískri umræðu hérlendis, hvort sem er sem skýringarþættir eða áhöld til úrlausnar.

12. mars kl. 13.25, stofa 229
Magnús Snædal, prófessor í málvísindum:
Háls á gotnesku

Gríska orðið trákhelos 'háls' er í gotnesku biblíuþýðingunni einu sinni þýtt með hals og í annað sinn með balsagga. Fyrirlesturinn snýst um það hvort hægt sé að tjónka eitthvað við síðara formið.

11. mars kl. 16.20, stofa 207
Margrét Jónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði:
Sagnirnar „fjölga“ og „fækka“

Sagnirnar „fjölga“ og „fækka“ hafa breytt um notkun á sama hátt og sama tíma. Sem áhrifssagnir tóku þær með sér þolfallsandlag í elsta máli. Það hvarf snemma og þágufallið kom í staðinn.

Í nútímamáli taka sagnirnar með sér þolandafrumlag í þágufalli séu þær áhrifslausar. Svo hefur þó ekki alltaf verið; það varð fyrst útbreytt á 19. öld ef marka má heimildir sem þó varðveita eldri dæmi. En til eru mjög gömul dæmi um þolfall í þessari stöðu. Það hvarf snemma. Nefnifallsfrumlag er einnig gamalt. Það virðist hafa verið útbreitt og heimildir eru um það fram á 20. öld. Þágufallsfrumlagið er því yngst í þessari fallasögu.
Í allra elsta máli voru sagnirnar notaðar með endingunni -st. Slík notkun er löngu horfin úr málinu.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þær breytingar sem orðið hafa og sagnirnar skoðaðar í ljósi annarra sagna.

11. mars kl. 15.10, stofa 207
Margrét Elísabet Ólafsdóttir, stundakennari í frönsku og listfræði:
Af skrykkjóttu upphafi íslenskrar vídeólistar og vantrú á nýjungar

Saga vídeólistar á Íslandi er um margt ólík sögu vídeólistar á alþjóðavettvangi. Hún hefst síðar en annars staðar á Vesturlöndum og hefur ekki að geyma tímabil tilraunamennsku sem var mikilvægur liður í þróun vídeólistar sem sjálfstæðrar listgreinar. Vídeólist verður ekki hluti af íslenski myndlist og myndlistariðkun fyrr en miðilinn er orðinn hluti af meginstraumi alþjóðlegrar samtímalistar undir lok 20 aldar. Ætlunin er að varpa ljósi á ástæður þess að vídeólist átti lengi vel erfitt uppdráttar á Íslandi.

12. mars kl. 11.05, stofa 225
María Anna Garðarsdóttir og Sigríður Þorvaldsdóttir, aðjunktar í íslensku sem öðru máli:
Greining á talmáli nemenda í íslensku sem öðru máli

Í fyrirlestrinum verður talmál 4 málnema á 8 mánaða tímabili greint og niðurstöður greiningarinnar bornar saman við 1 ritaðan texta nemendanna sem þeir skrifuðu í lok tímabilsins. Setningagerð verður greind (lengd setninga, lengd málsgreina og hlutfall undirskipaðara setninga). Hugað verður að orðaforðanum sem nemendur nota og notkun orðflokka með það í huga að skoða hvort þeir nota sagnorðastíl fremur en nafnorðastíl. Loks verður þróun talmálsins hjá hverjum og einum skoðuð í þessu ljósi og borin saman við ritaða textann. Að síðustu verða málnemarnir bornir saman. Tilgáta okkar er að talmálið einkennist fremur af sagnorðastíl en nafnorðastíl og hafi einfaldari setningagerð en ritaði textinn. Þó megi sjá þróun í talmálinu í átt að flóknari setningagerð. Við gerum ráð fyrir að frávikahlutfall sé hærra í talmálinu en ritaða textanum.

11. mars kl. 14.10, stofa 225
Már Jónsson, prófessor í sagnfræði:
Texti dómabóka: tilurð, tjáning, túlkun, tengingar

Metið verður hversu langt verður komist í túlkun á yfirheyrslum og lýsingum málsatvika í dómabókum úr héraði frá lokum 16. aldar til miðrar 19. aldar. Leitað verður til bókmenntafræði og mannfræði um leiðir til að komast aftur fyrir yfirborð eða ásýnd texta og atburðar. Á hverju þarf slík túlkun að byggja?

11. mars kl. 15.45, stofa 225
Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku:
Die Reise zum Buch. Nýjungar og fleiri tækifæri í menningarferðaþjónustu

Í vaxandi mæli er litið vonaraugum til nýbreytni í ferðaþjónustu og fjölgunar erlendra ferðamanna í því skyni að auka gjaldeyristekjur og fjölga störfum. Náttúra landsins, gróðurfar og dýralíf hafa heillað erlenda ferðamenn í áranna rás og þann hóp mætti nefna fastagesti landsins. Eyjafallajökull og lágt gengi krónunnar stuðla að því að æ fleiri ferðamenn sækja Ísland heim. En einnig er nauðsynlegt að vinna markvisst að því að fá nýja markhópa til landsins sem jafnvel velja að koma utan háannatíma í ferðaþjónustunni. Í því skyni þarf ekki einungis að efna til markaðsátaks heldur jafnframt að undirbúa og skipuleggja ferðir af kostgæfni. Á þýsku eru til svonefndar „Studienreisen“ sem þýða mætti sem náms- og kynnisferðir á íslensku. Slíkar ferðir byggja á tilteknum efnum eða þemum sem útfærð eru af þeim sem þekkja sérstaklega til viðkomandi málefna.

Mikil tækifæri felast í vinsældum íslenskra höfunda erlendis, ekki síst í Þýskalandi. Í október 2011 er Ísland heiðursgestur á bókasýningunni í Frankfurt sem er stærsta bókasýning heimsins. Íslenskar bókmenntir verða í sviðsljósinu og 120 íslenskar bækur verða gefnar út á þýsku í tengslum við sýninguna. Í þessu felast ótal möguleikar til glæða áhuga fólks á Íslandsferð með íslenskar bókmenntir eða tilteknar bækur sem þema. Á þann hátt geta staðir sem í raun liggja utan alfaraleiðar eða hefðbundinna ferðamannastaða orðið mikilvægir áfangastaðir.

12. mars kl. 11.05, stofa 231
Orri Vésteinsson, prófessor í fornleifafræði:
Landnámabækur Íslands og Nýja-Sjálands

Tilurð og heimildagildi Landnámabókar hafa lengi verið okkur Íslendingum hugleikin en umræðan um hana hefur að miklu leyti mótast af því að hún er einstök í sinni röð. Ekkert alveg sambærilegt rit er til í öðrum löndum sem hægt væri að bera Landnámabók saman við þannig að lærdómar hafi verið dregnir af. Margar aðrar þjóðir hafa þó hugað að fortíð sinni og uppruna og varðveitt með sér fróðleik af sama toga og þann sem höfundar Landnámabókar tóku saman. Nýja-Sjáland var numið af pólýnesískum bændum í lok 13. aldar og þegar þeir kynntust ritmáli á 19. öld hófst þar umfangsmikil skráning á ættvísi og staðfræði sem myndaði síðan grundvöllinn að sýn Nýsjálendinga á forsögu sína. Ýmsar áhugaverðar hliðstæður eru við hina íslensku Landnámabók, bæði sem varða ritun hennar á miðöldum og túlkun hennar á seinni öldum, og verða þeim gerð skil í fyrirlestrinum.

11. mars kl. 16.20, stofa 231
Pétur Knútsson, dósent í ensku máli:
Skynjunarvíxl sem lausn í túlkunarfræði

Leitað verður svars við spurningunni: Hvernig er hægt að brjótast út úr textanum?

11. mars kl. 14.10, stofa 231
Pétur Pétursson, prófessor í praktískri guðfræði:
„Það var harla gott! – og enda Ísland líka!“
Byltingin 1848 í íslenskum þjóðarspegli

Febrúarbyltingin og afnám konungsveldis í Frakklandi árið 1848 kom af stað skriðu frelsishreyfinga í evrópskum stjórnmálum. Fulltrúar hins nýja tíma kröfðust þess að völdin yrðu flutt frá aðalsstétt og einvöldum konungum, sem oftar en ekki höfðu tryggt sér stuðning kristinnar kirkju, til borgara og almennra þjóðfélagsþegna. Á Íslandi var hvorki til borgarastétt né verkalýður sem skildi hvað til síns friðar heyrði og það varð því hlutverk íslenskra stúdenta og menntamanna í Kaupmannahöfn að skilgreina þjóðréttindi Íslendinga þegar danski konungurinn afsalaði sér einveldi. Í þessu erindi verður hugað að því hvernig nýjar frelsishugsjónir birtust íslenskum blaðalesendum, sérílagi eins og þær voru túlkaðar í Þjóðólfi, fyrsta íslenska dagblaðinu, sem hóf útkomu sína í Reykjavík í nóvember 1848.

11. mars kl. 13.00, stofa 218
Ragnheiður Kristinsdóttir, doktorsnemi í bókmenntafræði:
Sjálfsmyndir í nýjum veruleika: efnahagskreppa og bókmenntir argentínskra kvenna

Argentínskt samfélag hefur orðið fyrir umtalsverðum umbyltingum á síðustu áratugum.  Herforingjastjórninni á árunum 1976-1983 fylgdi kúgun og ofbeldi en í kjölfar þess að lýðræðiskjörnir fulltrúar tóku við var sett ofurháhersla á nýkapítalisma og alþjóðavæðingu.  Óráðsía stjórnvalda leiddi síðar til falls argentínska pesósins og í lok ársins 2001 var efnahagshrun í sjónmáli.

Bókmenntahefð í Argentínu hefur löngum einkennst af samtímalýsingum og þjóðfélagsgagnrýni, ekki síst á erfiðum tímum. Nú, eftir efnahagshrunið, má sjá í bókmenntatextum hárbeitta gagnrýni á nýfrjálshyggjusamfélagið og þau spor sem neytendasamfélagið skildi eftir sig.  Í því spjalli sem fer hér fram verða tekin dæmi úr tveimur skáldsögum: La señorita Porcel eftir Esther Cross og Las viudas de los jueves eftir Claudia Piñeiro þar sem skoðað verður hvernig sjálfsmynd sögupersóna umbreytist á þessum umbrotatímum.  

11. mars kl. 15.10, stofa 218
Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði:
Norrænt og sovéskt? Umræður um jafnrétti og jöfnuð í lok heimsstyrjaldar

Hugmyndir um jöfnuð og jafnrétti áttu mikinn hljómgrunn meðal Evrópubúa í lok seinni heimsstyrjaldar. Í erindinu verður íslensk stjórnmálaumræða sett í þetta evrópska samhengi. Kynntar verða til sögunnar kommúnískar hugmyndir um endurskoðun Íslandssögunnar, umræða kvenréttindasinna um Sovétríkin og Svíþjóð, sem og tillögur um að skrifa norræn sósíaldemókratísk gildi inn í nýja stjórnarskrá lýðveldisins. Í öllum tilfellum voru þarna á ferðinni þverþjóðlegar hugmyndir sem höfðu áhrif á íslenska stjórnmálaumræðu. Spurningin er hins vegar sú hvernig best sé að meta þessi áhrif. Hvað er til að mynda fengið með því að líta fram hjá stjórnmálaflokkum, flokksleiðtogum og ríkisstjórnum en skoða þess í stað umræðu um jafnrétti og jöfnuð í nýju lýðveldi, þvert á flokka og félagasamtök?

12. mars kl. 13.25, stofa 231
Randi Benedikte Brodersen, lektor í dönsku máli:
Hvad fortæller korrespondanceanalyser om danskeres sproglige tilpasning til norsk i Norge?
Slutresultater fra en empirisk undersøgelse om sproglig tilpasning, sprogbrug og sprogholdninger

Hvad sker der med voksne danskeres sprog når de flytter til Norge – til Bergen, Kristiansand og Oslo – og kommer i kontakt med nordmænd og norsk? Hvordan og hvorfor tilpasser danskere sig til norsk? Hvad betyder antal år i Norge og det at være norsk eller dansk gift og det at bo i forskellige norske byer, Bergen i vest, Kristiansand i syd og Oslo i øst? Er der forskel på kvinders og mænds tilpasning, og hvilken rolle spiller national identitet? Disse og andre spørgsmål giver jeg svar på i min præsentation, og svarene viser jeg ved brug af korrespondanceanalyse. Det er en sociologisk metode som især er kendt fra og på grund af den franske sociolog Pierre Bourdieus analyser af det franske samfund. Korrespondanceanalyse er en statistisk og holistisk metode som er i stand til at afdække og beskrive de komplekse mønstre der ligger skjult i et stort datamateriale med mange informanter og informationer, og vise disse mønstre i én samlet visuel oversigt, et korrespondanceanalysediagram eller -kort. Analysens resultater er dels korrespondanceanalysediagrammer, dels et statistisk tabelmateriale som er nødvendigt for at kunne tolke diagrammerne. I diagrammerne er alle informanter og alle oplysninger om informanterne repræsenteret som punkter, og det er alle disse punkters beliggenhed og afstand i forhold til hinanden som fortæller os om sammenhænge og andre mønstre med hensyn til sproglig tilpasning og bl.a. bosted, civilstatus, køn og antal år i Norge.

12. mars kl. 15.00, Hátíðasalur
Rita Copeland, prófessor í fornfræði, ensku og samanburðarbókmenntum við Háskólann í Pensilvaníu og gegnir stöðu sem kennd er við Edmund J. og Louise W. Kahn: "Translating" Antiquity

The corpus of classical works known, read, and studied in the European Middle Ages was an extensive one. But vernacular translations of the classics account for a surprisingly small portion of that corpus, even if we define translation loosely as adaptation.  How then did medieval publics--across European vernaculars--engage with classical antiquity, with the range and breadth of its resources and learning, if not through translation?  What models of antiquity were available to medieval vernacular publics? This lecture will explore some categories under which readers, students, scholars, chroniclers, poets, scientists and others structured and remade antiquity in textual terms, imagined its distance and alterity?or indeed proximity and sameness?to themselves, and the relicts of these categories in textual culture. This lecture emerges from reflections on a project I am currently editing, the Oxford History of Classical Reception in English Literature, I: The Middle Ages.

11. mars kl. 15.45, stofa 218
Sigríður Sigurjónsdóttir, prófessor í íslenskri málfræði:
Nýja ópersónulega setningagerðin í íslensku

Algengt er að börn og yngra fólk segi setningar eins og: „Það var hrint mér í skólanum“ og „Svo var bara valið mig.“ Eldra fólki finnst þessar setningar yfirleitt óeðlilegar og myndi frekar segja: „Mér var hrint í skólanum“ og „Svo var ég bara valin(n).“ Í þessum fyrirlestri verður fjallað um niðurstöður rannsókna á útbreiðslu, eðli og upptökum þessarar nýjungar í málinu. Einkum verður rætt um þá hugmynd að nýja setningagerðin hafi þróast út frá ópersónulegri þolmynd og sú þróun tengist því að fram komu setningar með sögnum sem eru skyldubundið afturbeygðar í málinu, eins og „Svo var bara drifið sig á ball.“

12. mars kl. 13.25, stofa 111
Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu:
Hófsamur húmanisti í Hítardal

Saga húmanisma á Íslandi er að mörgu leyti óljós og gloppótt. Því skiptir miklu máli að safna saman og halda til haga þeim fróðleiksmolum og vísbendingum sem við höfum um þróun þessarar merku menntastefnu hér á landi. Jón Guðmundsson (1558-1634), prestur í Hítardal, er einn þeirra sem virðist hafa lagt sig eftir húmanískum fræðum, þótt ekki hafi hann látið eftir sig nein meiri háttar ritverk. Ekki er hann þó síður áhugaverður fyrir það. Tilgangur erindisins er að kynna áheyrendum Jón en þó einkum latínukvæði sem hann orti 1612 og var líklega lengsta (66 ljóðlínur) kvæði sinnar tegundar sem birst hafði á prenti eftir Íslending fram að því. Við veltum því síðan fyrir okkur hvaða ályktanir megi draga af tilvist þessa kvæðis og hvort gerlegt sé að lesa úr húmanísku latínukvæði lyndiseinkunn höfundar.

11. mars kl. 13.35, stofa 229
Sigurgeir Guðjónsson, doktorsnemi í sagnfræði:
Geðlæknisfræði festir rætur á Íslandi, árin 1838-1907.
Mótvægi við hugmyndir alþýðunnar

Á fyrri hluta 19. aldar voru stigin fyrstu skref í þróun geðlæknisfræðinnar í nágrannalöndunum. Það markaði ákveðin spor þegar Jón Hjaltalín læknir kynnti sér aðstæður geðveikra á Charitée-spítalanum í Berlín í árið 1838. Íslendingar þurftu síðan að bíða til ársins 1907 eftir því að sérbúinn geðspítali væri stofnsettur í landinu, Kleppspítali. Hvaða hugmyndir komu fram hjá íslenskum læknum um geðsjúkdóma og meðhöndlun geðveikra á þessu árabili? Á sama tíma hafði almenningur ákveðnar hugmyndir um geðveiki og reynt var að lækna geðveikt fólk. Hvernig fór þetta saman?

12. mars kl. 13.25, stofa 229
Soffía Auður Birgisdóttir, sérfræðingur við Fræðasetur H.Í. á Hornafirði:
„Ég er eins og menn verða eftir næstu aldamót.“
Áhrif Þórbergs Þórðarsonar á íslenskar bókmenntir á 21. öld

Árið 1968 birtist viðtal við Þórberg Þórðarson í Skinfaxa, skólablaði MR, þar sem hann bregst við spurningu um hvers eðlis bækurnar hans séu með þessum orðum: „Ég er ekki móderni. Ég er eins og menn verða eftir næstu aldamót“. Kalla má þessi orð Þórbergs spádómsorð. Sá vaxandi áhugi á verkum hans sem merkja hefur mátt á síðastliðnum áratug á sér ekki aðeins stað meðal almennra lesenda og fræðimanna heldur kemur hann beinlínis fram í íslenskum samtímaskáldskap. Ég vil halda því fram að einn athyglisverðasti vaxtarbroddur íslenskra samtímabókmennta í upphafi nýrrar aldar sé einmitt hvernig þetta sérstæða bókmenntagervi sem Þórbergur innleiddi í íslenskar bókmenntir – skáldævisagan – hefur þroskast og dafnað í verkum fjölmargra íslenskra samtímahöfunda af ólíkum kynslóðum. Í fyrirlestrinum mun ég ræða nokkur dæmi um þetta.

11. mars kl. 13.00, stofa 225
Sólveig Anna Bóasdóttir, dósent í guðfræðilegri siðfræði:
Hvað varð um kynferðislega ánægju í femínískum fræðum?

Kynferðisleg ánægja og kynferðislegt ofbeldi eru tvö mikilvæg stef í femínískri umræðu sem ætíð hafa vakið spennu. Ef athygli er beint að því fyrra vakna gjarnan spurningar um þátt hugmyndafræði karlaveldisins varðandi kynverund kvenna, ef aðeins er rætt um kynferðislegt ofbeldi og kúgun vekur það hins vegar spurningar um frelsi og sjálfræði kvenna á sviði kynverundar. Í erindinu er sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á kynferðislegt ofbeldi innan femínískra fræða sem og kvennabaráttu gagnrýnd og færð rök fyrir því að gera eigi meira úr þætti kynferðislegrar ánægju.

11. mars kl. 13.00, stofa 231
Stefano Rosatti, aðjunkt í ítölsku
Isabella di Morra: a Mysterious Life, a Literary Death?

The important poet Isabella di Morra (1520-1546?) lived in a remote, backward southern Italian region. According to her only existing biography (1629), Isabella was murdered by her brothers, when they discovered a love correspondence between her and a married Spanish gentleman. Some questions arise:

  1. Her biography is based on oral sources.
  2. In the official documentation about the murder the occurrences are not clear.
  3. Isabella’s story is similar to the contents of a novella in Boccaccio’s Decameron.

Important Italian scholars never had doubts about the circumstances of Isabella’s death. Nevertheless, the aim of my lecture is: 

  1. To discuss those elements which could be considered a literary invention in her biography.
  2. To try to cast light on what really happened to her.

The lecture will be held in English.

12. mars kl. 14.00, stofa 231
Svavar Hrafn Svavarsson, prófessor í heimspeki:
Rætur heimspekilegrar siðfræði

Grískir siðfræðingar töldu hamingju vera markmið sem væri stefnt að eða skyldi stefnt að. Hér vísar „hamingja“ til hins góða lífs, sem er virðingar- og eftirsóknarvert, markmið sem tjáir fullkomnun mannlegrar náttúru. Við upphaf þessarar siðfræði gekk Sókrates Platons út frá þessum skilningi á hamingju, en spyrja skyldi hver væru gæðin sem maðurinn yrði að njóta til að lifa vel. Svarið var afdráttarlaust: að vera ágætur/dyggðugur er nægjanlegt. Að baki rökunum fyrir því að hamingja væri ágæti/dyggð bjó sú von að gera mætti grein fyrir þeim skilyrðum sem manneskjan þyrfti að uppfylla til að lifa vel. En ágætið/dyggðin var jafnframt skilin þröngum skilningi sem þau gæði er tilheyra sálarlífinu. Önnur gæði voru vegin og léttvæg fundin. Það sem ákvað hversu léttvæg þau væru var kraftur hversdagslegra hugmynda um þætti hamingjunnar (svo sem efnalega velsæld). Þessar hugmyndir tilheyra forsögu siðfræðinnar og sýna hversu brothætt hamingjan var talin, að hún ylti á óverðskuldaðri heppni, þáttum sem eru handan gerandans. Heimspekilegur áhugi Grikkja á hamingju sem grundvelli siðfræðilegrar rökræðu er vart skiljanlegur nema að svo miklu leyti sem hann endurspeglar þessar hugsanir um siðferði sem leitina að hinu góða lífi.

12. mars kl. 13.25, stofa 207
Sveinn Yngvi Egilsson, prófessor í íslenskum bókmenntum:
Er hægt að yrkja hjarðljóð svona nærri Norðurpólnum?
Sveitasælan og skuggahliðar hennar

Í fyrirlestrinum verður fjallað um hefð hjarðljóða (pastoral) á Vesturlöndum og ólík hlutverk þeirra í aldanna rás. Þau lýsa oft athvarfi sem maðurinn finnur í náttúrunni og hvernig hann snýr aftur í menninguna og þéttbýlið endurnærður á sál og líkama. En hjarðljóð geta einnig falið í sér samfélagsádeilu og jafnvel verið áminning um hverfulleika lífsins (Memento mori) eða dauðann mitt í sveitasælunni (Et in Arcadia ego). Varpað verður ljósi á þróun íslenskra hjarðljóða með dæmum úr verkum skálda á borð við Eggert Ólafsson, Jónas Hallgrímsson, Steingrím Thorsteinsson og Huldu, en einnig vikið að hinu hjarðljóðalega í öðrum bókmenntagreinum, t.d. skáldsögum 19. aldar. Að lokum verður spurt um möguleika og framtíð hjarðljóða á norðurslóðum, þar sem náttúran er að mörgu leyti ólík þeirri suðrænu sveitasælu sem iðulega er lofsungin í hefðbundnum ljóðum af þessu tagi.

12. mars kl. 14.00, stofa 229
Torfi H. Tulinius, prófessor í íslenskum miðaldafræðum:
„Hitt svið“ sögualdarinnar: Íslendingasögur í ljósi sálgreiningarinnar
 
Freud talar um dulvitundina sem „hitt sviðið“. Þannig líkir hann sálarlífi okkar við leikhús með mörgum sviðum þar sem fram fara ólíkar sýningar. Þótt þær séu ólíkar, fjalla þær eigi að síður um það sama, þ.e. átökin í sálum okkar. Með dæmum úr nokkrum Íslendingasögum mun ég sýna hvernig hugtök sálgreiningarinnar geta varpað ljósi á samræðu þeirra sem skópu sögurnar við samtíma sinn. Er söguöldin, þ.e. landnámið og sagan fram yfir kristnitöku eins og hún birtist í Íslendingasögunum, á vissan hátt „hitt svið“ Sturlungaaldarinnar og áratuganna þar á eftir?

12. mars kl. 13.25, stofa 225
Úlfar Bragason, rannsóknarprófessor, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum:
Sturlungufræðingurinn Björn M. Ólsen

Um aldamótin 1900 lögðu þrír fræðimenn grundvöll að rannsóknum á Sturlungusamsteypunni, W. P. Ker, Kristian Kålund og Björn M. Ólsen.
Að vísu má líta svo á að útgáfa Guðbrands Vigfússonar á samsteypunni, sem gefin var út í Oxford í tveimur bindum 1878, hafi verið forsenda rannsókna þessara þriggja fræðimanna. Ker byggði rannsóknir sínar á útgáfu þessari og svo gerði Ólsen einnig í ritgerð sinni um Sturlungu.
Útgáfu Guðbrands þótti ábótavant vegna ónákvæmni í meðferð textans.
Hins vegar vísuðu hugmyndir Guðbrands um gildi handrita samsteypunnar, samsetningu hennar og uppruna fram á við. Björn M. Ólsen hélt textafræðilegum rannsóknum áfram þar sem Guðbrandur hvarf frá en Ker fjallaði um frásagnarlist í samsteypunni. Kristian Kålund rannsakaði hins vegar handrit Sturlungu, uppruna, aldur og tengsl þeirra á milli og reisti útgáfu sína á Sturlungu, sem kom út í tveimur bindum í Kaupmannahöfn 1906-1911, á þessum rannsóknum. Þeirri útgáfu var ætlað að koma í staðinn fyrir útgáfu Guðbrands enda hafa allar seinni rannsóknir á samsteypunni byggst á verki Kålunds.

Í erindinu verður fjallað um rannsóknir Björns M. Ólsen á samsetningu Sturlungu-samsteypunnar og á svokölluðum Sturlunguformála en hvorttveggja lagði grunn að seinni rannsóknum. Jafnframt verður gerð grein fyrir þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á rannsóknarniðurstöður Ólsens.

11. mars kl. 13.35, stofa 231
Þorvarður Árnason, forstöðumaður Fræðaseturs H.Í. á Hornafirði:
Kórafræði – drög að óþekktri fræðigrein

Í erindinu verður fjallað um möguleg viðfangsefni nýrrar, þverfaglegrar fræðigreinar sem kalla mætti „kórafræði“. Fræðigrein þessi er enn óþekkt sem slík en færð vera rök fyrir því að öll helstu rannsóknarsvið hennar séu nú þegar til staðar innan margra annarra, ólíkra greina. Í framhaldinu verður rætt um gildi þess að rannsaka starfsemi kóra, sem og þátttöku einstaklinga í kórastarfi, í íslensku samhengi. Fjallað verður um samfélagslegt hlutverk kóra, einkum þá í minni byggðarlögum, m.a. í ljósi kenninga um félagsauð (social capital). Þá verður rætt sérstaklega um karlakóra sem menningarlegt og samfélagslegt fyrirbæri og jafnframt hvaða þýðingu þátttaka í kórastarfi hefur fyrir kórfélagana sjálfa. Að lokum verður tekist á við þá spurningu hvort karlakórar eigi sér einhverja lífsvon í breyttum heimi.

12. mars kl. 14.00, stofa 111
Þórhallur Eyþórsson, sérfræðingur hjá Málvísindastofnun:
Indóevrópska frummálið og algildismálfræði Chomskys

Eitt mikilvægasta framlag til málvísinda á 19. öld var sú hugmynd að unnt væri að sýna fram á skyldleika tungumála. Með því að kortleggja kerfisbundnar samsvaranir í ýmsum tungumálum í Evrópu og Asíu endurgera samanburðarmálfræðingar eldra málstig sem kallað er frumindóevrópska. Stundum er sagt að ekkert tungumál hafi breyst eins mikið og hið endurgerða indóevrópska frummál enda er það í raun líkan sem sýnir stöðu þekkingar í samanburðarmálfræði á hverjum tíma. Eftir miðja 20. öld varð hugmyndin um algildismálfræði þungamiðjan í málkunnáttufræði Chomskys. Algildismálfræðin er þó ekki meitluð í stein fremur en indóevrópska frummálið heldur hefur tekið verulegum breytingum í tímans rás. Í fyrirlestrinum verður ályktað að samanburðarmálfræði og málkunnáttufræði eigi fleira sameiginlegt en oft er talið.

11. mars kl. 15.45, stofa 231
Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku:
Þýðingar á skáldverkum úr Norðurlandamálum á íslensku

Fjallað verður um þýðingar á skáldverkum úr Norðurlandamálum á íslensku á 50 ára tímabili með hliðsjón af fjölda frumsaminna skáldverka á íslensku og heildarfjölda þýðinga á skáldverkum á ári hverju.
Rannsóknin tekur til tímabilsins 1960 til 2010, að báðum árum meðtöldum. Leitast verður við að flokka þýddu skáldverkin eftir frummáli og inntaki, og draga fram það sem einkennt hefur hvern hluta tímabilsins, bæði hvað varðar bókmenntagreinar og fjölda þýðinga úr hverju tungumáli fyrir sig, og greina hugsanlegar ástæður sem þar liggja að baki.

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is