Að lesa fyrri tíð

Í málstofunni verður fjallað um rannsóknir á máli 19. aldar sem nú er unnið að með áherslu á tilbrigði í máli og málnotkun, málstöðlun og viðhorf til tungumálsins og samband máls og samfélags. Markmiðið er bæði að fá gleggri mynd af íslensku máli á þessum tíma og að öðlast betri skilning á málbreytingum og málþróun. Ýmsar tilgátur og kenningar í hugvísindum byggjast á rannsóknum á samtímanum og heimildir um fyrri tíð eru fáskrúðugri en þær sem völ er á í samtímarannsóknum. Meðal þeirra spurninga sem við stöndum frammi fyrir eru þessar: Er hægt að nýta aðferðir og kenningar sem sprottnar eru af samtímarannsóknum til skýringa á fyrirbærum í fortíðinni og til þess að túlka niðurstöður úr sögulegum rannsóknum, t.d. í málvísindum og sagnfræði? Er hægt að nýta samanburð á mismunandi gögnum í samtímanum til þess að setja fram hugmyndir sem tengjast því sem „vantar“ frá fyrri tíð (t.d. talmálsgögnum) eða a.m.k. meta stöðu þeirra heimilda sem fyrir hendi eru í heildarmyndinni? Hvað er hægt að ganga langt í slíku og hvað ber að varast?

Fyrirlesarar:

  • Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent á Árnastofnun: Samtíð og (mál)saga. Hugleiðingar um rannsóknir á máli og málsamfélagi 19. aldar
  • Jóhannes Bjarni Sigtryggsson, verkefnisstjóri og nýdoktor á Árnastofnun: Heimildir um málstöðlun á fyrri hluta 19. aldar
  • Heimir Freyr Viðarsson doktorsnemi: Sagnfærsla á tímum tilfærslu í viðmiðum og málnotkun á 19. öld
  • Halldóra Kristinsdóttir doktorsnemi: „Við hittustum og sjáumst“: Um endurreisn miðmyndarendingar á 19. öld

Málstofustjóri: Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent

 

Útdrættir:

Ásta Svavarsdóttir, rannsóknardósent á Árnastofnun:  Samtíð og (mál)saga. Hugleiðingar um rannsóknir á máli og málsamfélagi 19. aldar

Eitt meginmarkmið verkefnisins Málbreytingar og tilbrigði í íslensku máli á 19. öld: tilurð opinbers málstaðals er að skoða samspil tungumáls og samfélags með tilliti til þess hvort og hvernig ýmsir málfélagslegir þættir höfðu áhrif á þróun málsins og það staðalmál sem var í mótun á síðari hluta 19. aldar (og síðar). Þar er einkum tvennt til skoðunar: Í fyrsta lagi ýmiss konar tilbrigði í máli, dreifing afbrigðanna og hugsanlegar breytingar á henni svo og áhrif ytri þátta á þróunina. Þar er átt við áhrifavalda sem tengjast málnotendum og stöðu þeirra í málsamfélaginu fremur en málkerfinu sem slíku. Og í öðru lagi viðhorf einstaklinga og hópa til málsins og skoðanir á því hvers konar málnotkun er æskileg (eða óæskileg) með það í huga hvort og hvernig áhrif slíkra hugmynda birtast í málinu. Hinn fræðilegi grundvöllur verkefnisins er fyrst og fremst sóttur til sögulegrar félagsmálfræði þar sem aðferðum félagslegra málvísinda er beitt við rannsóknir á eldri málstigum. Áhugi á málbreytingum og framgangi þeirra hefur lengst af verið einn megindrifkraftur félagsmálfræði þótt rannsóknir á því sviði hafi einkum beinst að samtímanum og í sögulegum málvísindum hefur iðulega verið skírskotað til ytri þátta til að skýra uppkomu og útbreiðslu breytinga. Með því að tvinna þetta tvennt saman er hins vegar leitast við að skoða samspil máls og samfélags á markvissari og skipulegri hátt en áður með aðferðum sem þróaðar hafa verið við rannsóknir á nútímamálum og að nýta niðurstöður sem þar hafa fengist til þess að varpa ljósi á eldri málstig. Slík yfirfærsla er þó ekki vandalaus og í erindinu verður fjallað um muninn á samtímalegum og sögulegum rannsóknum í félagsmálfræði og um ýmsar spurningar og álitamál sem vakna við slíkar rannsóknir á fyrri tíð, bæði gagnvart málinu sjálfu og hinu félagslega umhverfi.

 

Jóhannes Bjarni Sigtryggsson, verkefnisstjóri og nýdoktor á Árnastofnun: Heimildir um málstöðlun á fyrri hluta 19. aldar

Í stefnuskrá Lærdómslistafélagsins (1780) er í fyrsta sinn lýst þeirri málstefnu sem síðar var fylgt hér á landi. Þar segir meðal annars: „Einnenn skal Felagit geyma ok vardveita norræna Tungu sem eitt fagurt Adalmaal [...].“ Í erindinu er fjallað um heimildir frá fyrri hluta 19. aldar um stöðlun íslensku að fyrirmynd forna málsins. Sérstaklega er fjallað um stöðlunaráhrif málfræðiritsins Vejledning til det Islandske eller gamle nordiske Sprog (1811) eftir Rasmus Kr. Rask.

 

Heimir Freyr Viðarsson, doktorsnemi: Sagnfærsla á tímum tilfærslu í viðmiðum og málnotkun á 19. öld

Í þessu erindi verður fjallað um „færslur“ af tvennum toga, annars vegar í setningafræðilegum skilningi en hins vegar félagsmálfræðilegum. Oft er talað um fyrra atriðið sem „innri“ þætti en síðara atriðið sem „ytri“ þætti máls. Að mínu mati fæst ekki rétt mynd af íslenskri málsögu nema tekið sé jafnt tillit til beggja þátta. Hvað innri þætti áhrærir er nauðsynlegt að hægt sé að gera grein fyrir þeirri staðreynd að orðaröð í tungumálum lýtur ákveðnum takmörkunum. Til dæmis gilda strangar hömlur um stöðu persónubeygðrar sagnar í íslensku, svonefnd sagnfærsla: sögn stendur jafnan í öðru sæti (S2) óháð tegund setningar og á undan neitun, sbr. (i). Þetta er býsna ólíkt dönsku, þar sem sögnin færi jafnan á eftir neitun í sambærilegri setningu, þ.e. í þriðja sæti (S3):

 

(i)     Ég veit

 

I

Jón

II 

hefur

 

(ekki)

III

 

lesið bókina.

 

(S2) 

(ii)   Jeg ved

at

Jens

 

(ikke

har

 læst bogen.                 

(S3)

Frá þessum röðum eru ýmis frávik sem fræðikenningar þurfa að varpa ljósi á. Algeng skýringartilgáta er að sögnin flytjist (lengra til vinstri) í málum sem hafa ríkulegt beygingakerfi og því geti íslenska ekki haft S3-raðir sem grundvallarorðaröð. Þessi skírskotun til innri eiginleika gerir samtímalegri hlið málsins ágætlega skil. Vandamál koma aftur á móti upp ef litið er til sögulegs samhengis því S3 tíðkaðist allnokkuð um nokkurra alda skeið í íslensku og er að takmörkuðu leyti enn mögulegt í nútímamáli. Ekki er auðvelt að benda á nokkuð innan málkerfisins sem skýrði uppkomu S3 eða þróun fyrirbærisins til samtíma.

Þegar litið er til þátta utan málkerfisins er margt sem kemur í ljós. Tilurð nýs opinbers málstaðals á 19. öld fól í sér breytt málviðmið frá því sem áður var, þar sem S3 átti erfitt uppdráttar. Notkun raðanna á 19. öld og söguleg þróun til samtíma virðist mega lýsa sem tilfærslu á félagsmálfræðilegu hlutverki breytunnar S3 innan málsamfélagsins:

I

formlegt/ritmálslegt

II

brennimerkt (erlent/óæskilegt)

III

óformlegt/talmálslegt

Samspil þeirrar tilfærslu, samhliða tilfærslu í málviðmiðum, og setningafræðilegrar stöðu raðanna er forvitnilegt rannsóknarefni í ljósi kenninga um innri orsakir breytinga, þ.e. hvort breyttum ytri skilyrðum S3 fylgi breytingar í setningafræðilegri formgerð. Fyrirbærið vekur einnig almennari spurningar um uppkomu tilbrigða í máli, dreifingu þeirra og möguleika okkar til þess að hafa áhrif á málbreytingar, ekki síst að hvaða leyti (mál)samfélag 19. aldar var frábrugðið okkar eigin.

 

Halldóra Kristinsdóttir doktorsnemi: „Við hittustum og sjáumst“: Um endurreisn miðmyndarendingar á 19. öld

Í bréfum Árna Magnússonar frá upphafi 18. aldar má sjá miðmyndarmyndirnarforðumstfinnumst og skiljumst, en endingin -umst er þá talin hafa legið í dvala í um tvær aldir. Notkun hinnar endurvöktu endingar breiddist fyrst út meðal samstarfsmanna Árna og annarra menntamanna og í lok 18. aldar voru aðrar endingar enn algengari, einkum -unst og -ustum. Aukin málhreinsunarstefna á 19. öld hafði það í för með sér að endingin -umst varð loks ofan á.

Í erindinu verður reynt að varpa ljósi á sögu miðmyndarendinga á 19. öld. Einkum verður litið á dreifingu mismunandi endinga í sendibréfum alþýðufólks og kannað hvaða áhrif málstöðlun hafði á daglegt mál þess fólks. 

Deila: 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is